Tónsproti Anna-Maria Helsing stjórnar tónleikum kvöldsins.
Tónsproti Anna-Maria Helsing stjórnar tónleikum kvöldsins. — Ljósmynd/Kasper Dalkarl
Það ferskasta í norrænni tónlist verður í boði á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Eldborg Hörpu í kvöld kl. 19.30 undir stjórn Önnu-Mariu Helsing.

Það ferskasta í norrænni tónlist verður í boði á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Eldborg Hörpu í kvöld kl. 19.30 undir stjórn Önnu-Mariu Helsing. Tónskáldin sem eiga verk á efnisskrá kvöldsins voru valin „inn í hátíðardagskrá Norrænna músíkdaga“, eins og segir í tilkynningu frá sveitinni.

Á efnisskránni eru The Ring of Fire and Love eftir finnska tónskáldið Outi Tarkiainen; Zurvan eftir Idin Samimi Mofakham sem býr í Noregi en er upprunninn frá Íran; Segel eftir sænska tónskáldið Lisu Streich; Grisaille eftir íslenska tónskáldið Gunnar Karel Másson og Ärr eftir sænska tónskáldið Jesper Nordin. Í tilkynningu á vef sveitarinnar kemur fram að The Ring of Fire and Love vísi m.a. til fæðingarreynslu kvenna; tónheimur Zurvan sé frá Íran; Segel er lýst sem kóreógrafísku; Grisaille þyki óvanalegt fyrir Gunnar sem hafi einkum fengist við kammertónlist á ferli sínum og Ärr sæki innblástur í lag þungarokkssveitarinnar Meshuggah.