Örn Valdimar Kjartansson
Örn Valdimar Kjartansson
Örn Valdimar Kjartansson, framkvæmdastjóri félagsins Eskiáss, áformar að hefja uppbyggingu á hluta lóðar BM Vallár á Ártúnshöfða eftir í fyrsta lagi tvö ár.

Örn Valdimar Kjartansson, framkvæmdastjóri félagsins Eskiáss, áformar að hefja uppbyggingu á hluta lóðar BM Vallár á Ártúnshöfða eftir í fyrsta lagi tvö ár. Fram undan sé vinna við gerð deiliskipulags fyrir allan reitinn, sem áætlað sé að muni taka að minnsta kosti eitt ár, og svo muni BM Vallá ekki flytja sig af fyrsta hluta reitsins fyrr en ári síðar.

Örn undirbýr uppbygginguna í gegnum framkvæmdafélagið Höfða sem er í jafnri eigu M3 fasteignaþróunar ehf. og E3 ehf.

Greint var frá kaupunum á Höfða í tilkynningu en þar sagði að gera mætti ráð fyrir allt að 1.000 íbúðum, auk skrifstofu, verslunar- og þjónusturýmis, á heildarreitnum.

Mikið útsýni yfir sundin

Frá lóð BM Vallár er mikið útsýni yfir sundin, Vogabyggð og Bryggjuhverfið og verður fyrirhuguð borgarlínustöð á Krossmýrartorgi steinsnar frá en hún verður hverfiskjarni.

Örn Valdimar hefur mörg járn í eldinum og er nú, ásamt meðfjárfestum, meðal annars að reisa íbúðir í Eskiási í Garðabæ. Hann segist aðspurður hafa selt 130 íbúðir í Eskiási 1, 2 og 4 og þar af hafi tvö húsin, númer 2 og 4, verið seld leigufélagi. Eskiás 3 fari í sölu með vorinu en þar verði 35 íbúðir. Áformað sé að ljúka uppbyggingu alls 276 íbúða í Eskiási síðla árs 2025 og því verði einhver skörun milli síðasta hluta þeirrar uppbyggingar og fyrstu skrefanna í uppbyggingunni á Höfðanum. baldura@mbl.is