[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Árna Árnason. Bjartur, 2022. Kilja, 212 bls.

Skáldsagan Vængjalaus eftir Árna Árnason er saga um þær spurningar sem hefjast á orðunum „hvað ef“ og leitina að svörunum við þeim. Árni hefur gefið út tvær barnabækur en Vængjalaus er hans fyrsta skáldsaga fyrir fullorðna.

Vængjalaus gerist á tveimur tímaskeiðum. Aðalpersónan Baldur horfir yfir farinn veg og rifjar upp nótt eina á Akureyri. Rétt fyrir aldamótin er hann rétt skriðinn upp úr tvítugu, vinnur sem sundlaugarvörður en hyggst halda til náms á Englandi innan skamms. Hann á líka kærustu en er farinn að efast um sambandið.

Baldur fer í jarðarför, fyrst ranga og svo rétta, og síðan út á lífið og verður það til þess að hann kynnist Auði sem er ellefu árum eldri en hann, gift kona úr Reykjavík.

Tuttugu árum síðar hefur hann náð langt í auglýsingabransanum en ástalífið hefur ekki gengið jafn vel og tvö hjónabönd að baki. Hann hittir gamlan vinnufélaga, Elsu, í Leifsstöð þar sem þau eru bæði á leið til Feneyja í ólíkum erindagjörðum. Hann rekur atburði þessarar nætur á Akureyri fyrir Elsu og ljóst er að kynnin af Auði hafa snert hann djúpt. Árni er tæknilega mjög fær og textinn flæðir vel. Hann skiptir milli sögusviða af mikilli kostgæfni og byggir verkið svolítið upp eins og um spennusögu sé að ræða. Í sögunni er einhver ráðgáta sem lesandinn þarf að komast til botns í og þannig heldur hann lesandanum við efnið.

Höfundurinn leggur mikið upp úr því að byggja upp söguheiminn sem helmingur bókarinnar tilheyrir, Akureyri árið 1996. Þótt það geti verið skemmtilegt fyrir þá lesendur sem voru nýskriðnir á þrítugsaldurinn á þeim tíma og þekkja þennan heim er óþarflega mikil áhersla lögð á smáatriðin og þau flækjast fyrir sjálfri sögunni. Þegar söguhetjan ferðast til Feneyja þrjátíu árum síðar er framsetningin á sögusviðinu mun eðlilegri.

Það eru þessar „hvað ef“-spurningar sem flækjast fyrir aðalpersónunni og verða drifkraftur á þessu ferðalagi til Feneyja. Baldur, sem sjálfur segir söguna, stendur á krossgötum og er svolítið upptekinn af því hvað lífið getur tekið ólíkar stefnur. Og hann þráir að komast til botns í því hvaða stefna hefði verið best.

Vangaveltur sögupersónanna um lífið og tilveruna eru fyrirferðarmiklar og fara verkinu oft ágætlega, sérstaklega samtöl Baldurs við Elsu. En það er stundum eins og sögumaðurinn missi aðeins þráðinn og vilji koma að ýmsum vangaveltum sem eiga ekki mikið erindi við söguna sem sögð er í verkinu. Til dæmis er miklu púðri eytt í samtal nokkurra manna í heitum potti sem litlu bætir við söguna.

Þótt verkið sé vel uppbyggt allt á enda kemst það ekki almennilega á flug. Lesandinn rennur auðveldlega í gegnum verkið enda um hugljúfa afþreyingu að ræða og tæknileg færni höfundar er greinileg. En einhverra hluta vegna situr lítið eftir. Efniviðinn skortir einhverja dýpt eða kannski eitthvað óvænt sem hreyfir við lesandanum og lyftir þessu vel smíðaða verki á enn hærra plan.

Ragnheiður Birgisdóttir

Höf.: Ragnheiður Birgisdóttir