Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
Mikil tækifæri eru til að auka söluna á Íseyjarskyri á mörkuðum í fjölmennum löndum Evrópu, að mati Einars Einarssonar, framkvæmdastjóra Íseyjar útflutnings ehf. Segir hann að áherslan um þessar mundir sé á þessa markaði en einnig að fylgja eftir sókn inn á nýja markaði í fjarlægum löndum.
„Þrátt fyrir miklar áskoranir við markaðssetningu á nýjum vörum í kórónuveirufaraldrinum og vegna aukins kostnaðar við aðföng hefur salan gengið vel,“ segir Einar og bætir við að fyrirtækið og samstarfsfyrirtæki finni mikinn meðbyr á mörkuðum nú þegar heimsfaraldurinn er að baki. „Fólk hugsar nú enn meira um heilsusamlegt líferni og mataræði. Það er góður jarðvegur fyrir íslenska skyrið.“
Ísey útflutningur, sem er systurfélag Mjólkursamsölunnar, er með starfsemi á 20 markaðssvæðum, utan Íslands, í flestum tilvikum með samningum við fyrirtæki úti á mörkuðunum um notkun vörumerkisins með svokölluðum vörumerkja- og einkaleyfissamningum en einnig með beinum útflutningi frá Íslandi. Bandaríkin eru með sérstöðu. Þar er skyrið framleitt og selt undir eigin vörumerki, Icelandic Provisions, af fyrirtæki sem Ísey á hlut í.
Aukning í Evrópu
Skyrsalan utan Íslands nam 20 þúsund tonnum á síðasta ári og hafði aukist um 10% frá árinu á undan. Veruleg aukning hefur orðið í ár, að sögn Einars, og er útlit fyrir að seld verði 24 þúsund tonn þegar upp verður staðið um áramót, sem er 20% aukning á milli ára.Aukning hefur orðið í fjölmennum ríkjum Evrópu. Einar nefnir sem dæmi að sala hafi hafist í Frakklandi á síðasta ári og nú sé gert ráð fyrir að 1.000 tonn verði seld þar í ár. Íseyjarskyr hefur einnig fengið mjög góðar viðtökur í Hollandi og fékk þar viðurkenningu virts fagtímarits sem besta vörunýjungin á árinu 2021. Reiknað er með að salan tvöfaldist á milli ára og verði 1.600 tonn í ár.
„Við erum að horfa til þess að fara inn á markaði í fjölmennum Evrópulöndum. Hófum tilraun í Þýskalandi, erum byrjuð á Spáni og erum að prófa okkur áfram á Ítalíu. Það búa 200 milljónir manna á þessum mörkuðum. Við erum að selja 20 þúsund tonn af skyri, þar af er helmingurinn seldur í Noregi, Danmörku og Finnlandi sem er 16-17 milljóna manna markaður. Við teljum að miklir möguleikar séu í Evrópu því þar er mikil hefð fyrir jógúrtneyslu og því góður jarðvegur fyrir skyrið, en á þessum mörkuðum ríkir jafnframt gríðarleg samkeppni,“ segir Einar.
Skyrið sem selt er á þessum stóra markaði í Evrópusambandinu er framleitt í Danmörku í einu verksmiðjunni innan ESB sem Ísey hefur aðgang að. Ísey útflutningur flytur þó nokkuð af skyri frá Íslandi á þennan markað, aðallega til Danmerkur og Þýskalands, einnig til Sviss og Færeyja. Einar segir að áhugi sé á að auka útflutning á framleiðslu frá Íslandi, eins og kostur er á.
Framleiðsla á sex stöðum
Íseyjarskyr er nú framleitt í sex mjólkurbúum utan Íslands. Tvær nýjar verksmiðjur hófu starfsemi í ár. Mjólkurbú sem KS og samstarfsaðilar byggðu upp í Wales hóf framleiðslu í mars á þessu ári eftir miklar tafir vegna faraldursins. Hún er hugsuð fyrir markaðinn á Bretlandseyjum. Þar eru nú seld um 1.000 tonn af Íseyjarskyri á ári en Einar segir að mikil tækifæri séu til markaðssóknar með því að fjölga sölustöðum. Hægt er að framleiða 5-6 þúsund tonn í mjólkurbúinu.Í mars hófst einnig framleiðsla á Nýja-Sjálandi. Íseyjarskyr er nú komið í 200 verslanir þar í landi. Einar segir að skyrið hafi fengið mikilvæga viðurkenningu heilbrigðisyfirvalda sem valkostur í skólanesti grunnskólabarna. Ekki síður er horft til útflutnings til nágrannalandsins Ástralíu. Þótt ekki sé langt á milli landanna hafa erfiðleikar í flutningskerfinu tafið markaðsstarf þar. Framleiðsla á Íseyjarskyri hófst í Japan fyrir tveimur árum. Einar segir að heimsfaraldurinn hafi sett strik í reikninginn þar. Miklar takmarkanir voru settar á í Japan sem drógu mjög úr möguleikum á að kynna og markaðssetja nýja vöru. Nú sé samstarfsfyrirtækið að setja mikinn kraft í markaðsstarf á nýjan leik. Vonast er til að seld verði 1.000 tonn í ár.
Verið er að undirbúa verksmiðju til að framleiða skyr í Kína með tilheyrandi markaðsstarfi. Nú er stefnt að því að hefja starfið þar á árinu 2024.