Þeir sem fögnuðu frelsi Breta undan ESB eru ekki allir sammála um hvaða einstaklingi skuli helst þakka að sá slagur var tekinn og vannst. Reyndar er ólíklegt að nokkrum einum verði þakkaður sá sigur. Þó virðist þörf vera fyrir hendi til að úthluta persónulegum bikar fyrir sigurinn. Margur telur Boris Johnson helst eiga slíkan sigur skilinn. Hann gerði vissulega sitt, en var þó einatt fullhikandi í baráttunni. Fleiri í Íhaldsflokknum hafa verið nefndir til þessarar sögu. En margur telur þó augljóst að Nigel Farage, þingmaður á Evrópuþinginu, eigi ríkast tilkall til þakklætis. Hann reyndi nokkrum sinnum að vinna sæti á breska þinginu en tókst aldrei og réð kosningafyrirkomulag þar sjálfsagt mestu. Í vikunni sló Farage því föstu í grein í Telegraph að næstu þingkosningar væru þegar tapaðar Íhaldsflokknum. Ekki vegna tímabundins vandræðagangs ríkisstjórnar nýs forsætisráðherra, sem fipaðist illa á fyrsta spretti sínum. „Nei,“ segir Farage, „Íhaldsflokkurinn mun gjalda afhroð í næstu kosningum vegna innflytjendastraumsins, sem er vita stjórnlaus.“
Síðastliðinn sunnudag fóru 1.065 innflytjendur yfir Ermarsundið í smábátum og ólöglega inn í Bretland! Og það sem af er ári segja opinberar tölur að 35.000 manns hafi komist þá leið. Þá er eingöngu átt við þá sem hið opinbera náði að skrá, en enginn neitar því að fjöldinn er mun meiri, því ekki næst í alla til skráningar. Flestir úr þessum hópi eru nú hýstir í fjögurra stjörnu hótelum sem yfirvöld leigja. Fyrir hvern og einn eru greidd 4.500 pund á mánuði, segir Farage, en það er 50% meira en hjúkrunarfræðingur á Landspítala hefur í laun. Einhver kynni að telja það grófa og harla ósennilega spá hjá Farage að Íhaldsflokkurinn muni fá slíkt afhroð og eigi sér engrar bjargar von. Flokkurinn er nú með 70 þingsæta meirihluta, þann sem Boris tryggði honum í desember 2019, og var sá mesti sem flokkurinn hafði fengið um árabil. „En frá hvaða óhugnaði voru þessi rúmlega eitt þúsund „flóttamenn“ að flýja síðasta sunnudag,“ spyr Farage. Þeir flúðu úr því öryggi sem Frakkland tryggir!
Hann bendir á að þetta hafi verið fjórði sunnudagurinn af sjö þar sem „flóttamenn“ urðu fleiri en þúsund. Ekki er lengur um það deilt að glæpasveitir frá Albaníu stjórna flutningunum yfir sundið, hlakkandi yfir auðfundnu fé. Og Farage bætir við að meira en helmingur flóttamannanna „flýi“ frá Albaníu, sem er aðildarríki Nató!
Nigel Farage segir að það séu hrein ósannindi að þarna séu flóttamenn á ferð. Þeir séu í besta falli innflytjendur í leit að hagfelldari lífskjörum. Og hann spyr: „Hver er eina lausnin sem Truss og stjórn hennar hafa á hinu brjálæðislega óefni sem Bretland er komið í? Eina tillagan er að greiða stjórninni í París svo sem fimm milljarða í viðbót svo að hún treysti sér til að herða eftirlit á ströndum Frakklands svo fækka megi bátskriflunum á norðurleið.“
Þeim peningum er betur varið segir Farage með því að hella þeim strax niður í skolpræsið enda sé hið svonefnda eftirlit látalæti sem enginn tekur alvarlega. Og eftir því sem innflytjendum fjölgar svellur þeim reiðin sem létu sig hafa að kjósa Íhaldsflokkinn í síðustu kosningum í þakklæti fyrir að ríkisstjórn Borisar kom Brexit loks í höfn þótt mikið væri reynt til að eyðileggja þjóðarviljann. Þeir horfa upp á að straumur innflytjenda gengur á land í Dover og hafa þá margir þeirra eytt vegabréfum og öðrum skilríkjum þegar ljóst var að þeir næðu yfir. Sá leikur er raunar vel kunnur hér á landi. Og það sem hleypir ekki síst illu blóði í breska kjósendur eru áhrifin sem þessi flóðbylgja óboðinna innflytjenda hefur á bæi og byggðarlög vítt um landið, þar sem 750 milljónum, í krónum talið, er mokað úr ríkissjóði á degi hverjum, til þess að svæðin fallist á að annast móttöku hinna óboðnu þykjustuflóttamanna.