Hamfarasögur Einar Kárason rithöfundur lýkur þríleik sínum með nóvellunni Opið haf sem kemur út í dag.
Hamfarasögur Einar Kárason rithöfundur lýkur þríleik sínum með nóvellunni Opið haf sem kemur út í dag. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Einar Kárason rithöfundur sendir í dag frá sér bókina Opið haf. Bókin er sú þriðja í röð hamfarasagna höfundarins. Víst má telja að sú nýjasta eigi eftir að vekja mikla eftirtekt enda er hún byggð á einu eftirminnilegasta björgunarafreki síðari tíma.

Viðtal

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Einar Kárason rithöfundur sendir í dag frá sér bókina Opið haf. Bókin er sú þriðja í röð hamfarasagna höfundarins. Víst má telja að sú nýjasta eigi eftir að vekja mikla eftirtekt enda er hún byggð á einu eftirminnilegasta björgunarafreki síðari tíma.

Opið haf er byggt á afreki Guðlaugs Friðþórssonar sem bjargaðist eftir að vélbáturinn Hellisey sökk í mars árið 1984. Guðlaugur var 22 ára stýrimaður á bátnum þegar honum hvolfdi og sökk austur af Heimaey. Guðlaugur synti í land, um sex kílómetra leið, og eftir að í land kom varð hann að ganga til byggða, berfættur yfir nýja hraunið í Vestmannaeyjum. Fjórir fórust með Hellisey en afrek Guðlaugs þótti einstakt.

„Ég er búinn að vera að hugsa um þetta efni óralengi, alveg frá þessum atburðum 1984. Mér hefur alltaf fundist spennandi að reyna að ná utan um um þetta. Maður á móti náttúru, það verður ekkert stærra en þetta,“ segir Einar.

Óvenjulegt fólk og stórir atburðir heilla

Höfundurinn greindi frá því í viðtali við Morgunblaðið á síðasta ári að tilurð margra bóka hans mætti rekja til þess sem hann hefði heyrt eða lesið, eitthvað sem hefði orðið honum minnisstætt og haldið áfram að sækja á hugann. Árið 2018 sendi Einar frá sér Stormfugla sem byggist á atburðum frá árinu 1959 þegar íslenskir togarar lentu í mannskæðu fárviðri á Nýfundnalandsmiðum. Í fyrra kom svo Þung ský þar sem flugslys í Héðinsfirði árið 1947 er sögusviðið. Opið haf er þriðja nóvellan í þessum hamfaraflokki Einars sem hann hefur sagt vera þríleik.

„Það sem heillar mig og ég finn að gæti verið nálægt mínum styrkleikum er óvenjulegt fólk og stórir atburðir,“ sagði Einar í áðurnefndu viðtali við Morgunblaðið í fyrra. Óhætt er að segja að sagan af afreki Guðlaugs Friðþórssonar passi vel við þá lýsingu. Björgun hans vakti óhemju athygli á sínum tíma, athygli sem Guðlaugur hefur talað um að sér hafi þótt nóg um. Hann hefur kosið að halda sig til hlés hin síðari ár og hefur sjaldan veitt viðtöl um björgunarafrekið. Þó ræddi Guðlaugur við Morgunblaðið árið 2004 í tilefni þess að 20 ár voru liðin frá þessum atburðum. Viðeigandi var að viðtalið birtist á sjómannadaginn það ár.

„Ég gleymi þessu aldrei. En þótt ég bjargaðist þá var þetta mikill harmleikur, sem mér finnst stundum gleymast,“ sagði Guðlaugur í viðtalinu. „Þrátt fyrir að ég ynni þetta afrek, sem svo er kallað, þá dóu þarna fjórir ungir menn í blóma lífsins. Það vegur í mínum huga miklu þyngra en það að ég bjargaðist.“

Guðlaugur rifjaði jafnframt upp í viðtalinu 2004 að fyrstu sólarhringana eftir að í land var komið hefði hann upplifað ákveðin augnablik í atburðarásinni við það eitt að loka augunum. „Það sat í mér þegar möstrin skullu í sjóinn og ljósin fóru á kaf. Ég upplifði það augnablik aftur og aftur og ég sé það alveg fyrir mér nú. Þá áttaði maður sig á því að það var eitthvað alvarlegt að gerast. Þegar ég hugsa um þetta man ég atburðarásina mjög vel, þótt ég muni hana kannski ekki alveg jafn vel nú og nokkrum dögum eftir slysið,“ sagði Guðlaugur.

Bjó til nýjar persónur

Einar segir í samtali við Morgunblaðið að hann hafi sett sig í samband við Guðlaug við ritun bókarinnar. Ekki hafi komið til greina að notast við þessa atburði í óþökk hans. „Ég skrifaði honum og sagði að þetta efni hefði lengi leitað á mig. Svo var ég í Eyjum í sumar, kom þangað á hraðbát með vinum mínum og við sigldum í kringum eyjarnar, og við mæltum okkur mót. Guðlaugur sagði mér að það hefði stundum hvarflað að sér að ég væri maður sem væri treystandi fyrir hans sögu. Það fannst mér mjög uppörvandi, maður hefði aldrei komist í neitt stuð með þetta ef maður hefði haft það á bakinu að vera að troðast inn á tilfinningasvið annarra.“

Einar segir að hann hafi snemma tekið þá stefnu að búa til nýjar persónur í stað þess að reyna að setja sig í spor skipverja á Hellisey. „Fyrst hvarflaði að mér að ég þyrfti að kynna mér sögu bátsfélaga hans en svo ákvað ég að það væri algerlega út í bláinn. Þetta eru til þess að gera nýlátnir menn þótt það séu þrjátíu og eitthvað ár síðan þetta var. Þess í stað bjó ég til nýjar persónur og nýjan mann sem er þarna í forgrunni – sem heitir bara Okkar maður. Ég bjó til bakgrunn hans, foreldra, æsku og upplifanir, vini og kærustur og svona. Ég skrifa bara sögu manns sem lendir í þessu, ekki sögu hans. Svo sendi ég Guðlaugi handritið og hann var sáttur. Hann sagði jafnframt að hann væri ánægðastur með að það væri ekkert um sig!“ segir Einar og hlær.

Studdist við eftirminnileg viðtöl við Guðlaug

En þótt Einar hafi skapað nýjar persónur studdist hann við þær upplýsingar sem fyrir liggja. „Árni Johnsen tók mikið viðtal við Guðlaug sem birtist í Mogganum meðan hann lá enn þá á spítalanum, og Ómar Ragnarsson fyrir sjónvarpið. Það eru til 2-3 viðtöl við hann frá þessum tíma og ég notaði stikkorð úr þeim. Til að mynda þegar hann talar við fuglana á ferð sinni og að hann hafi eiginlega misst móðinn þegar bátur sigldi fram hjá honum og heyrði ekki hrópin. Eins lýsingar Guðlaugs þegar hann var að taka land. Upplýsingarnar sem ég hafði voru kannski upp á fáeinar síður en svo skrifaði maður 130 blaðsíðna bók.“

Einar segir aðspurður að endingu að hann búist við því að taka sér frí frá hamfarasögum að sinni eftir útgáfu þeirrar síðustu. „Já, þetta er auðvitað lokahnykkur á þríleik. En ég hef áður skrifað trílógíu sem varð svo að kvartett, þótt ég hafi enn engin plön í þeim efnum.“