Jónína Leósdóttir hefur farið svolítið eigin leiðir í spennusögum og Varnarlaus , nýjasti „kósí-krimmi“ hennar er ekki undantekning frá reglu hennar. Húmorinn er til staðar, vitleysan og ruglið, en margar persónur koma við sögu og flækja málin óþarflega mikið.
Barnsrán er dauðans alvara en í bókinni fellur það í skuggann vegna oft broslegs misskilnings og persónulegra vandamála einstaklinga. Engu að síður snýst sagan öðrum þræði um að leysa málið en hin áherslan er á að komast að því hvers vegna fleiri dauðsföll hafa verið á einni deild hjúkrunarheimilis í Reykjavík. Það er ekki síður mikilvægt úrlausnarefni.
Heimsfaraldur og metoo-hreyfingin hafa áhrif á söguna. Hún rennur vel og hvergi er dauður punktur, nema þá helst á hjúkrunarheimilinu. Margt er óstjórnlega fyndið og helstu persónur má auðveldlega sjá í daglegu lífi hér og þar. Jafnvel Stella Blómkvist kemur upp í hugann í einu samtalinu. Gunninga er límið, kona sem hugsar í lausnum, gengur í öll störf og leysir málin. Pandóra á nóg með sig og börnin, boðar eitt sem sálfræðingur og gerir annað. Soffía rannsóknarlögreglukona hugsar fyrst og fremst um sig og sína, skítt með lög og reglur ef þau stangast á við þarfir hennar. Lilja er framapotari, dæmigerður kerfiskarl, Eiríkur, forveri hennar, er ekki merkilegur karakter og Graham „lenti“ í framhjáhaldi. Og svo má lengi telja.
Afgreiðsla málanna er fyrst og fremst skopleg. Samskiptin við foreldra Adams eru kostuleg og sama má segja um samtölin við hjúkrunarfræðingana. Flækjurnar koma fyrst verulega til skjalanna, þegar taka á á barnsráninu og sú atburðarás nær eiginlega ekki flugi vegna furðulegra tenginga og athafna.
Sálfræðingurinn Adam er þungamiðjan í frásögninni. Hann er tvöfaldur í roðinu og með hatta sem hann á í erfiðleikum með. Hann á í tilvistarkreppu vegna Jennýjar, sem fylgdi honum frá Englandi til Íslands. Hún er kvöldtýpa, sem passar ekki alveg við alvarleg störf á sálfræðistofunni og svo rifjast upp dvöl á Sitges á Spáni, sem enginn átti að vita um, ekki frekar en um ferðir á aðra sérstaka staði eins og Brighton.
Rannsóknarlögreglukonan Soffía, fyrrverandi eiginkona Adams, stjórnar honum enn með harðri hendi, þekkir bresti hans, segir honum fyrir verkum í vinnunni og hann lætur undan öllu offorsi ljónynjunnar eins og þægur rakki. Svo yfirbugaður er bindindismaðurinn að hann fær sér gin og tónik án þess að gera sér grein fyrir því. Það getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar, en það skýrist ef til vill í næstu bók.
Steinþór Guðbjartsson