Landspítalinn Neyðarástand ríkir í heilbrigðiskerfinu öllu. Þetta er niðurstaða aðalfundar Læknafélags Íslands sem haldinn var síðasta föstudag.
Landspítalinn Neyðarástand ríkir í heilbrigðiskerfinu öllu. Þetta er niðurstaða aðalfundar Læknafélags Íslands sem haldinn var síðasta föstudag. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Það var mikill hiti á þessum fundi og samstaða meðal lækna. Það er enda alls staðar búið að skera inn að beini og ömurlegur veruleiki að vinna við sem læknir að geta ekki boðið upp á betri þjónustu en raunin er,“ segir Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands.

Sviðsljós

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Það var mikill hiti á þessum fundi og samstaða meðal lækna. Það er enda alls staðar búið að skera inn að beini og ömurlegur veruleiki að vinna við sem læknir að geta ekki boðið upp á betri þjónustu en raunin er,“ segir Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands.

Aðalfundur Læknafélags Íslands var haldinn fyrir helgi og þar var samþykkt ákall til ríkisstjórnar Íslands vegna ríkjandi neyðarástands í heilbrigðiskerfinu. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra ávarpaði gesti fundarins og svaraði fyrirspurnum lækna. Steinunn segir að almenn ánægja hafi verið með framgöngu ráðherra á fundinum. Hann hafi gefið sér mun meiri tíma en gert var ráð fyrir til að ræða við fundargesti. „Þetta var beitt og hvöss umræða en uppbyggileg. Ráðherra hefur sett sig vel inn í þennan málaflokk og sýnir stöðu okkar skilning.“

Vantar fjárheimildir

Hún segir að þó samtalið við Willum Þór hafi verið gott hafi læknar eftir sem áður miklar áhyggjur af stöðunni. „Þessi málaflokkur er gríðarlega undirfjármagnaður og við höfum áhyggjur af því að ráðherra nái ekki sínum málum fram að óbreyttu. Það eru ekki fjárheimildir til að ráðast í neitt átak til að bæta stöðuna en það er akkúrat það sem þarf. Það blasir við hverju mannsbarni sem vinnur í þessu heilbrigðiskerfi að það er fjársvelt. Við bindum auðvitað vonir við að ráðherra nái að knýja fram breytingar, við vitum að hann vill berjast fyrir þeim en höfum áhyggjur af því að hann mæti ekki nægum skilningi. Ekki frekar en við þegar við höfum greint frá því neyðarástandi sem nú ríkir. Læknar eru ekkert að leika sér að því að tala um neyðarástand,“ segir Steinunn. Hún bætir því við að eftir fundinn ríki bjartsýni um gott samstarf við heilbrigðisyfirvöld. Nú þurfi eitthvað að gerast. „Þetta eru áköll um aðgerðir en ekki starfshópa. Við teljum að það liggi fyrir hvað þarf að gera og þetta samtal gefur okkur von.“ Ekki náðist í Willum Þór vegna þessa í gær.

Nýta þarf ólík rekstrarform

Á aðalfundi Læknafélags Íslands var auk þess samþykkt áskorun til ráðherra um að sjá til þess að læknisfræðileg starfsendurhæfing sé tryggð og efld. Slík starfsemi var á Reykjalundi en ríkið sagði nýverið upp þjónustusamningi vegna hennar. Umrædd endurhæfing er að mati lækna nauðsynlegur hluti læknisfræðilegrar endurhæfingar og veitt þeim sem atvinnutengd starfsendurhæfing geti ekki þjónað.

Þá voru á fundinum samþykktar sex ályktanir. Sú fyrsta snýr að því að gengið verði til samninga við sjálfstætt starfandi sérgreinalækna með raunveruleg áform um að bæta og efla þjónustu við sjúkratryggða landsmenn. Lengi hefur verið beðið eftir slíkum samningum og læknar eru ósáttir við stöðu mála.

Læknar skora á stjórnvöld að hlíta þjóðarvilja og auka framlög til heilbrigðismála sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Að þeirra mati þarf að nýta til fulls styrkleika og hagkvæmni ólíkra rekstrarforma í heilbrigðisþjónustu til að tryggja öllum landsmönnum aðgang að fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem tök eru á að veita.

Draga þarf úr álagi á lækna

Á aðalfundi Læknafélagsins var skorað á stjórnvöld að ráðast í markvissar aðgerðir vegna vísbendinga um aukinn heilsubrest lækna og vaxandi brotthvarf þeirra af vinnumarkaði. Segir í áskoruninni að mikilvægt sé að sporna við þessari óheillaþróun og draga úr álagi, t.d. með auknum stuðningsúrræðum, úrbótum á starfsumhverfi, fjölgun stöðugilda og styttingu vinnuvikunnar. Þá er vísað til niðurstöðu heilsufarskannana heilbrigðisstétta og að opinberar tölur seinustu ára sýni auknar veikindafjarvistir lækna ásamt umtalsverðri fjölgun umsókna í starfsendurhæfingar- og veikindasjóð.