Gylfi Jónsson, fyrrverandi flugstjóri, fæddist í Reykjavík 25. mars 1938. Hann lést 27. september 2022.
Foreldrar Gylfa voru Jón Björnsson, innkaupastjóri hjá SÍS, f. 18. mars 1901 á Varmá, Lágafellssókn, d. 4. júlí 1988, og kona hans Lára Guðmundsdóttir, f. á Akureyri 19. desember 1901, d. 10. mars 1996.
Hann átti einn bróður, Ólaf Rafn, f. 8. júlí 1936, sem lifir bróður sinn.
Hinn 10. júní 1961 gekk Gylfi að eiga eftirlifandi eiginkonu sína, Guðrúnu Láru Bergsveinsdóttur, fv. röntgentækni, f. í Reykjavík 15. apríl 1940. Foreldrar hennar voru Bergsveinn Ólafsson augnlæknir, f. 25. ágúst 1901 í Hvallátrum í Breiðafirði, d. 27. desember 1981, og kona hans, Elín Jóhannesdóttir, f. 16. júní 1909 á Seyðisfirði, d. 13. apríl 1973.
Börn þeirra eru: 1) Bergsveinn Þór, f. 31. desember 1961, kvæntur Steinunni Steingrímsdóttur, f. 24. apríl 1961. Þau eru búsett í Bandaríkjunum. Börn þeirra eru Gylfi Þór, f. 19. september 1984, og Guðrún Lára, f. 29. janúar 1992, gift Þorkeli Einarssyni, f. 5. apríl 1991. Dóttir þeirra er Elín Þóra, f. 8. júlí 2021. 2) Elín, f. 14. janúar 1965, gift Haraldi Karlssyni, f. 25. júlí 1967. Þau eru búsett í Noregi. 3) Lára Fanney, f. 7. nóvember 1973, gift Ragnari Árna Ragnarssyni, f. 6. júlí 1972. Synir þeirra eru Sigurður Unnar, f. 15. febrúar 2002, og Fannar Örn, f. 17. september 2004.
Gylfi ólst að mestu upp í Vesturbæ Reykjavíkur en flutti til New York með foreldrum sínum árið 1944 vegna starfa Jóns föður hans sem framkvæmdastjóri Sambands íslenskra vefnaðarvöruinnflytjenda. Stóð sú dvöl til ársins 1946 þegar fjölskyldan sneri aftur til Íslands.
Gylfi fetaði menntaveginn samhliða félögum sínum í Vesturbænum þar til í menntaskólann var komið, þar staldraði hann stutt við, venti sínu kvæði í kross og ákvað að leggja stund á flugnám þess í stað. Hann lauk atvinnuflugmannsprófi með blindflugsréttindum árið 1958 og hlaut flugstjóraréttindi árið 1967. Hann starfaði sem flugmaður og síðan flugstjóri hjá Flugfélagi Íslands hf. og síðan Flugleiðum hf. á PBY-5A, DC-3, Vickers Viscount, F-27, Boeing 727 og 737 árin 1960 til 2003, en það ár lét hann af störfum vegna aldurs. Hann var einnig flugstjóri hjá japanska flugfélaginu All Nippon Airways árin 1970 til 1972 en þar bjuggu þau Guðrún ásamt tveimur eldri börnum sínum.
Gylfi átti sæti í rannsóknarnefnd flugslysa árin 1980 til 1996. Hann var einnig formaður öryggisnefndar í þágu FÍA frá 1975 til 1976. Eins og fleiri samstarfsmenn hans flaug hann einnig Douglas-vélinni Páli Sveinssyni fyrir Landgræðsluna í sjálfboðavinnu við uppgræðslu landsins.
Útför Gylfa fer fram frá Digraneskirkju í dag, 19. október 2022, klukkan 13.
Gylfi Jónsson flugstjóri er látinn. Í honum bjuggu margir menn og allir góðir. Hann var sögumaður, hestamaður, hundatemjari, barnavinur, ævintýramaður og smiður, svo eitthvað sé nefnt. Gott var að heimsækja þau hjón, hvort sem var í Kópavog eða austur í sumarbústað og fá að gista. Þá var Gylfi tilbúinn um morguninn með egg og beikon, ristað brauð og marmilaði og sterkt te, þjónn og kokkur. Gaman að sitja og horfa út um gluggann á hestana í haganum, fara síðan í reiðtúr, berjamó eða skjótast út í Vestmannaeyjar.
Það eru bara skemmtilegar minningar um Gylfa.
Haukur
Filippusson.
Við hjónin höfum átt vináttu þeirra allt frá okkar fyrstu búskaparárum í Ljósheimum er við urðum sambýlingar fyrir næstum 60 árum og höfum margt brallað saman og ekki síst eftir að við gerðumst nábýlingar með sumarhúsum á Rangárvöllum í landi Reyðarvatns. Það var eftirtektarvert hversu mjög þau hjón voru samrýnd og samtaka í öllu. Margs er að minnast, ferðalaga utan- og innanlands, veiðiferða og hafa hestar og hestamennska komið mjög við sögu meðan báðir gátu sinnt því sem var sameiginlegt hugðarefni beggja ásamt fluginu en við störfuðum saman um hríð í Flugslysanefnd.
Það voru forréttindi að eiga Gylfa að vini. Hann var mörgum góðum kostum gæddur. Hann var hæfileikaríkur, örlátur, ekki síst á sjálfan sig, hreinskiptinn, íhugull og ráðagóður, velti fyrir sér hlutum og rasaði ekki um ráð fram. Allt eru þetta eiginleikar sem nýttust honum mjög vel í samskiptum við fólk og ekki síst í lífsstarfi hans sem hann hafði mikinn metnað fyrir og var afar farsælt.
Hann hafði þann ágæta ávana að gleðja og glettast við samferðamenn með sinni léttu lund og fundvísi á skoplegar hliðar mannlífsins og var gjarnan hrókur í hverjum hópi með nærveru sinni.
Minningin um þennan ljúfa vin okkar mun ætíð ylja okkur um hjartarætur og er hans sárlega saknað.
Sveinn Björnsson, Sigurbjörg Sigurðardóttir.
Gylfi var gæddur miklum mannkostum, góðum gáfum, velviljaður og vinfastur, sannur Íslendingur og afar heilsteypt manneskja. Hann kom til dyranna nákvæmlega eins og hann var klæddur og tjáði skoðanir sínar umbúðalaust. Við minnumst hans fyrir kraftinn og orkuna sem geislaði af honum hvar sem hann fór. Alltaf var Gylfi glaður og hress, engin vandamál, bara verkefni til að leysa. Synir okkar orða það þannig að hann var alltaf eiturhress og einstaklega almennilegur við okkur.
Starfsævi Gylfa var helguð fluginu og málefnum þess. Þróun og efling flugsins var eitt af hans aðaláhugamálum alla hans starfsævi. Við hjónin kynntumst Gylfa í landgræðslufluginu sem hann rækti með einstökum áhuga og dugnaði. Hann tók afar virkan þátt í því frá upphafi starfsemi landgræðsluflugvélarinnar Páls Sveinssonar árið 1973. Hann varð fyrsti flugrekstrarstjórinn hjá Landgræðslunni, eftir að Þristurinn, það er DC 3-flugvélin, kom til starfa við að efla landkosti. Hann sinnti því um allmörg ár með sóma og var einnig flugrekstrarstjóri varðandi rekstur minni landgræðsluflugvélanna á þeim tíma.
Að leiðarlokum er okkur efst í huga söknuður og þakklæti fyrir áralanga vináttu, drengskap og samskipti sem aldrei bar skugga á. Það var okkur mikill heiður að fá að starfa með Gylfa og eiga við hann samskipti. Öll voru þau á einn veg, hann var traustur félagi, hreinn og beinn og frá honum stafaði mikil innri hlýja og gleði. Það voru forréttindi að kynnast honum og minningin um góðan dreng lifir.
Guðrún, fjölskyldur, ættingjar og vinir kveðja nú mikilhæfan mann með söknuði og þakklæti fyrir að hafa fengið að njóta samvistanna við hann. Við biðjum þeim Guðs blessunar og vottum þeim okkar dýpstu samúð.
Sveinn Runólfsson.