Hörður Baldur Sigurðsson fæddist 20. janúar 1932. Hann andaðist 10. apríl 2022.
Hann var jarðsunginn frá Kolbeinsstaðakirkju 30. apríl 2022.
Herði væri líklega best lýst í stuttu máli sem dulum. Hann var yfirleitt ekkert að tjá sig mikið við fólkið sitt og var ekki mikið fyrir venjulegt spjall við sína nánustu.
Helst þegar gesti bar að garði hresstist hann allur við og gat þá spjallað um allt milli himins og jarðar og beitti þá oft húmornum og orðheppninni fyrir sig og kraumaði þá niðri í honum kátínan.
Hann hafði semsagt gaman af að hitta fólk og ræða málin og meðan hann var með þokkalega heilsu fór hann stundum á bílnum sínum langt út á land til að hitta vini sína í sveitinni.
Síðustu æviárin var hann næstum blindur. Gat hann þá ekki lesið eða horft á sjónvarp og þá minntist hann stundum á að sér leiddist að geta ekki lengur flakkað eins og hann komst að orði. Sagði hann stundum að eina gleði sín í lífinu væri að fá sér í nefið, sem hann gerði ótæpilega, en hvað með það, þetta var síðasta gleðiveitan á langri lífsleið.
Síðustu æviárin var hann næstum blindur eins og áður er sagt og kominn með göngugrind svo mestur hluti dagsins fór í að sitja á stól á stigabrúninni, borða á málum og drekka kaffi.
Hægt væri að halda að þetta líf væri það sem enginn venjulegur maður myndi velja sér en þá kom til góða einstakur hæfileiki sem hann virðist hafa haft frá barnæsku; hann kunni að slaka algerlega á og var þá eins og slökkt væri á honum – eiginleiki sem margir í æsingi nútímalífs þyrftu að geta tileinkað sér.
Hörður vann margvísleg störf um ævidaga sína. Hann var bóndi, hann fór á sjóinn, hann vann í álverinu í Straumsvík og vann í frystihúsi. Það má því segja að hann hafi alltaf unnið við það sem kallað er undirstöðuatvinnuvegir þjóðarinnar og hlýtur það að vera rós í hnappagat þessa manns sem aldrei gumaði af verkum sínum, ekki einu sinni á sinn dulda hátt.
Hann kom sér alls staðar vel við fólk sem hann kynntist og var alltaf vel fagnað þegar hann hitti góða vini og samstarfsfólk.
Trúlega hefur sveitalífið verið honum mest að skapi. Engin tímapressa, stimpilklukkur eða krafa um verklok á ákveðnum tíma.
Í heyskapnum tók hann sér góðan tíma til að koma sér niður á tún, fékk sér í pípu á miðri leið áður en tekið var til óspilltra málanna að bjarga heyinu fyrir veturinn.
Hann var alinn upp við forna búskaparhætti og það forna að hann teymdi heybandslest til hlöðu á sínum yngri árum fyrir tíma vélvæðingar sveitarinnar, sem hann einnig kynntist á seinni búskaparárum sínum.
Nú hvílir Hörður í sveitinni sem hann minntist svo oft á síðustu æviárin og er áreiðanlega sáttur við það hlutskipti sitt.
Trausti Sigurðsson.