Í fréttum RÚV þann 12. október sl. sagði formaður allsherjar- og menntamálanefndar, Bryndís Haraldsdóttir þingkona, að hún væri þeirrar skoðunar að flóttafólk ætti að dvelja fyrst um sinn á ákveðnu svæði, fyrstu vikurnar eða mánuðina eftir að það kæmi til landsins. Nefndi hún sérstaklega að hér væri um búsetuúrræði að ræða með heilbrigðisþjónustu, félagsráðgjöf, leikskóla og skóla. Þingkonan horfði sérstaklega til Reykjanesbæjar hvað þetta varðar. Hún gleymdi hins vegar að minnast á það hver ætti að borga fyrir þjónustuna og hvort hún hefði eitthvað rætt málið við fulltrúa Reykjanesbæjar.
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja á nú þegar í fullt í fangi með að sinna íbúum Reykjanesbæjar, sem eru orðnir yfir 20 þúsund, hvað þá að sinna málefnum flóttafólks, þar sem fjárveitingar hins opinbera hafa ekki fylgt. Yfir 3.000 manns hafa sótt hér um hæli á árinu og hafa aldrei verið fleiri.
Heimsmyndin hefur breyst hratt á skömmum tíma. Stríðið í Úkraínu hefur hrakið milljónir manna frá heimilum sínum og er flóttamannastraumurinn í Evrópu orðinn sá mesti síðan í seinni heimstyrjöldinni. Óvissa ríkir í álfunni og ekkert bendir til annars en að flóttamönnum haldi áfram að fjölga. Samkvæmt upplýsingum frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna eru 100 milljónir manna á flótta í heiminum og hafa aldrei verið fleiri.
Ég hvet Bryndísi Haraldsdóttur þingkonu til að biðla til annarra sveitarfélaga en Reykjanesbæjar. Reykjanesbær er einfaldlega kominn að þolmörkum hvað varðar þjónustu við flóttafólk. Síðan gengur ekki að ríkisstofnanir, eins og Útlendingastofnun, viðhafi slíkt samráðsleysi eins og þeir hafa gert gagnvart Reykjanesbæ í jafnstórum málaflokki og málefni flóttafólks eru orðin.
Í málefnum hælisleitenda verðum við að læra af reynslu annarra þjóða og þá einkum Norðurlandaþjóðanna. Það vekur upp spurningar hvers vegna nú er svo komið að hælisumsóknir eru hlutfallslega flestar á Íslandi af öllum Norðurlöndum. Meirihluti þeirra sem sækir um alþjóðlega vernd hér á landi er í raun að leita að betri lífskjörum. Það er ekki lögleg ástæða fyrir því að sækja um vernd.
Fyrir stríðið í Úkraínu voru umsóknir um hæli, miðað við íbúafjölda, fimmfalt fleiri á Íslandi en í Danmörku og Noregi. Allir sjá að slíkt gengur ekki upp til lengdar í fámennu landi eins og Íslandi. Við verðum að sníða okkur stakk efir vexti.
Höfundur er bæjarfulltrúi og oddviti Umbótar í Reykjanesbæ