Dagmál
Árni Matthíasson
arnim@mbl.is
Sögufélag gaf á dögunum út bókina Mennirnir með bleika þríhyrninginn , frásögn Josefs Kohouts sem Hans Neumann skrásetti og gaf út undir höfundarnafninu Heinz Heger 1972. Í bókinni, sem kom fyrst út á íslensku 2013, er rakin saga Austurríkismannsins Josefs Kohouts, sem handtekinn var af Gestapo, leynilögreglu nasista, skömmu fyrir upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar og færður í fangabúðir vegna þess að hann var samkynhneigður.
Lög um „samræði gegn náttúrulegu eðli“
Handtaka Kohouts byggðist á lagagrein 175 í lagabálki Þýskalands, lögum um „samræði gegn náttúrulegu eðli“ sem sett voru 1871 og hert eftir að nasistar komust til valda.Guðjón Ragnar Jónasson þýddi bókina en Hafdís Erla Hafsteinsdóttir skrifar eftirmála, rekur þar sögu Kohouts eftir að hann losnaði úr fangabúðunum og fjallar almennt um samkynhneigð í Þýskalandi fyrir og eftir stríð og um bleika þríhyrninginn sem hommar þurftu að bera í fangabúðunum og varð síðar að baráttumerki samkynhneigðra.
Bandarískir hermenn frelsuðu Josef Kohout og aðra fanga í Flossenbürg-fangabúðunum í lok apríl 1945, en þrátt fyrir hrun Þriðja ríkisins var lagagrein 175 enn í fullu gildi, eins og kemur fram í eftirmála Hafdísar. Hún segir og í spjalli í Dagmálum að Kohout og aðrir samkynhneigðir karlmenn hafi því enn verið taldir glæpamenn þegar þeir losnuðu. Þó þeir hafi orðið fyrir barðinu á nasistum hafi þeir ekki fengið viðurkenndar skaðabætur vegna misréttisins fyrr en 2002, þegar nánast enginn var eftir til að taka við þeim bótum, en Kohout lést 1994.
— Frásögn Kohouts af hörmungunum, sem hann gekk í gegnum, er blátt áfram og skýrslukennd, ekki skrifuð af miklu listfengi.
„Hún er skrifuð 1965-1967, en þá tekur Hans Neumann, félagi Kohouts, viðtöl við hann sem urðu að bókinni. Þeir unnu að þessu rétt fyrir stúdentaóeirðirnar í Evrópu og rétt fyrir Stonewall-uppþotið, áður en frelsisbylgja reið yfir 1969 og árin eftir það. Á þeim tíma er samfélag samkynhneigðra mjög neðanjarðar. Vegna þess að samkynhneigð var enn ólögleg fengu hommarnir ekki stríðsskaðabætur og voru ekki hluti af úrvinnslu úr fortíðinni og því sem kallaðist Wiedergutmachung, að gera hlutina góða aftur. Ég held að Josef hafi verið mjög meðvitaður um það að það hafi fáir lifað af, að það væru fáir til frásagnar, og að hann byggi yfir þekkingu og vitneskju sem væri mjög mikilvæg. Þess vegna leyfir hann sér ekki að fara út í mjög tilvistarlegar pælingar eða mög djúpar tilfinningar. Þetta er skýrslukennt, blátt áfram, næstum því þurrt á köflum vegna þess að ég tel að honum hafi verið mikið í mun að vera tekinn trúanlegur.“
Lagagrein 175 var í fullu gildi eftir stríð, eins og getið er. Í Austur- Þýskalandi var hætt að framfylgja lögunum 1954 og þau síðan afnumin 1968, en í Vestur-Þýskalandi voru þau ekki afnumin að fullu fyrr en við sameiningu þýsku ríkjanna 1994. Hafdís segir að fleiri hafi verið lögsóttir vegna brota á grein 175 eftir stríð. „Tölulegar rannsóknir sýna að það voru í raun og veru fleiri dæmdir á grundvelli þessarar lagagreinar eftir stríð og þar til hún var afnumin heldur en allan tímann fyrir stríð og á stríðsárunum, þó að sjálfsögðu verði að gera þann greinarmun að fólk var ekki dæmt í þrælkunarbúðir, en það voru miklu fleiri dæmdir og harðar gengið eftir því. Þessi dómharka, sú einurð að ganga svo hart gegn þessu samfélagi karla sem hófst á dögum Þriðja ríkisins hélt áfram. Það var enginn afsláttur gefinn af því.“
Fyrsta íslenska fræðiritið á sviði hinsegin sögu
Greinasafnið Svo veistu að þú varst ekki hér: Hinsegin sagnfræði og hinsegin saga á Íslandi , sem kom út 2017, var fyrsta íslenska fræðiritið á sviði hinsegin sögu, en Hafdís Erla ritstýrði þeirri bók með Ástu Kristínu Benediktsdóttur og Írisi Ellenberger. Auk þeirra eiga greinar í bókinni Kristín Svava Tómasdóttir, Þorsteinn Vilhjálmsson og Þorvaldur Kristinsson.Hafdís segir að það sé samkynhneigðum mikilvægt að staðsetja sjálfa sig í sögunni. „Saga er alltaf beitt vopn í baráttu minnihlutahópa til þess að þeir geti gert tilkall til réttinda og geta sýnt að „við erum hér og höfum alltaf verið hér“; bæði vegna sjálfsmyndar einstakinganna og pólitískrar stöðu hópsins. Við sjáum það í því að í fyrstu útgáfum Samtakanna '78 er mikið um sögumola og þar er meðal annars minnst á Mennina með bleiku þríhyrningana á tíma sem ég held að fáir hafi vitað af þessu á Íslandi almennt.
Í útgáfu samtakanna til að byrja með var mikið rætt um sögu og ákall um að við yrðum að þekkja söguna. Maður heyrir það líka enduróma af og til; samtökin loguðu í deilum árið 2016 og lá við klofningi. Þá var viðkvæðið líka að einhverjir deiluaðila þekktu söguna ekki söguna nógu vel, því annars myndu þeir taka öðruvísi á málum. Saga er því mikilvæg og merkilegt fyrirbæri, en líka hver segir söguna og hvers vegna.“
— Hvað kemur til að saga hinsegin fólks á Íslandi hefur ekki verið skrifuð fyrr?
„Ég held hún hafi alveg verið skrifuð, en hún var mikið á grasrótarstigi. Það var til að mynda gefið út afskaplega veglegt afmælisrit á afmæli Samtakanna '78 árið 2008, sem varð ákveðinn innblástur fyrir mig og mína kollega. Öll blöð Hinsegin daga eru líka stútfull af viðtölum og fróðleik sem fólk úr grasrótinni, sérstaklega Þorvaldur Kristinsson, hefur verið óþreytandi að taka saman. Það var fyrsta skrefið og síðan kemur þessi bók til af áhuga okkar og pælingum. Virðuleg útgáfa eins og Sögufélagið hefði kannski ekkert tekið svona flipp í mál fyrir tuttugu árum, án þess að ég sé að gera því ágæta fólki sem þar vinnur upp einhverjar skoðanir. Við sem komum að Svo veistu að þú varst ekki hér erum af þeirri kynslóð sagnfræðinga sem getur farið að skoða hinsegin sögu út frá akademísku sjónarhorni.“