Langreyður skorin Sýni voru tekin í hvalstöðinni sumarið 2018.
Langreyður skorin Sýni voru tekin í hvalstöðinni sumarið 2018. — Morgunblaðið/ÞÖK
Rannsóknir á sýnum úr langreyðum sem veiddar voru hér við land sumarið 2018 sýna að eldvarnarefni sem notuð eru í dag safnast upp í kúm og berast einnig til fóstra þeirra.

Rannsóknir á sýnum úr langreyðum sem veiddar voru hér við land sumarið 2018 sýna að eldvarnarefni sem notuð eru í dag safnast upp í kúm og berast einnig til fóstra þeirra. Eldri eldvarnarefni höfðu skaðleg áhrif á lífríkið og talið er að nýju efnin séu einnig skaðleg en niðurstöður hvalarannsóknanna eru taldar sýna að þörf sé á frekari rannsóknum á áhrifum þessara efna á líffræði sjávarspendýra.

Gísli Víkingsson, sérfræðingur Hafrannsóknastofnunar, sem lést síðastliðið sumar, er einn höfunda greinar um rannsóknina sem birtist í ritinu Environmetal Pollution . Rannsóknin tók til þriggja tegunda nýrra eldvarnarefna sem hafa verið þróuð eftir að sýnt var fram á að eldri efni væru skaðleg og þau bönnuð. Þessi efni eru notuð til að minnka brennanleika efna, til dæmis í húsgögnum, raftækjum, byggingarefnum, bílum og textíl.

Fundust í öllum fóstrum

Í hefðbundnum sýnatökum Hafró úr hvölum sem hvalbátar Hvals hf. veiddu á fæðuslóð vestur af landinu sumarið 2018 voru tekin sýni úr átta þunguðum langreyðum og fóstrum fyrir þessa sérstöku rannsókn.

Halógen-eldvarnarefni og klór-parafínefni fundust í 87,5% kúnna og öllum fóstrunum og lífrænir fosfatsesterar fundust í öllum kúm og fóstrum. Yfirleitt var styrkur efnanna hærri í fóstrum en kúm sem er sagt einkennandi fyrir þrávirk efni sem safnast fyrir í lífverum.

Í tilkynningu Hafró um rannsóknina kemur fram að niðurstöðurnar sýni að eldvarnarefni sem notuð eru í dag berist á milli móður og fósturs í langreyðum og kalli það á frekari rannsóknir á áhrifum efnanna á líffræði sjávarspendýra.