Líney Guðmundsdóttir fæddist 27. febrúar 1919 á Austarahól í Flókadal í Skagafirði. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sólvangi í Hafnarfirði 3. október 2022.
Foreldrar hennar voru Ólöf Anna Björnsdóttir, f. 29.9.1895, d. 10.3. 1989, og Guðmundur Jónsson, f. 26.10. 1893, d. 26.7.1927. Ólöf bjó lengi í Neskoti í Fljótum og síðar í Reykjavík. Systkini Líneyjar voru: Eiður, f. 13.4. 1913, d. 16.2. 1922; Hartmann, f. 5.5. 1915, d. 22.12. 1922; Páll Ragnar, f. 23.4. 1917, d. 25.5. 2012; Axel, f. 23.9. 1924, d. 24.4. 2007, hálfsystir þeirra Guðrún Hafliðadóttir, f. 15.12. 1932, d. 17.8. 2020.
Hinn 1. júní 1938 giftist Líney Árna Eiríkssyni, f. 6.12. 1905, d. 28.1. 1967, frá Reykjarhóli í Vestari-Fljótum og bjuggu þau þar þangað til þau fluttu til Reykjavíkur haustið 1962. Börn þeirra eru: 1) Ester, f. 27.5. 1941, eiginmaður hennar var Hilmar Jónasson, f. 14.4. 1934, d. 16.3. 2016. Börn þeirra eru: a) andvana fædd dóttir 20.12. 1971, b) Jóhanna Eldborg, f. 23.1. 1973, c) Árni Ásmundur, f. 10.10. 1976. 2) Haukur, f. 23.4. 1945. Fyrri eiginkona hans Anna Reykdal, f. 30.4. 1949. Sonur þeirra er Þór H. Reykdal, f. 6.5. 1971. Seinni eiginkona Hauks var Jórunn Oddsdóttir, f. 10.2. 1938, d. 26.3. 2018. 3) Fóstursonur; Benedikt Frímannsson, f. 27.7. 1930, d. 10.2. 2017, eiginkona hans var Ester Guðjónsdóttir, f. 4.4. 1934, d. 2.12. 2012. Börn þeirra eru a) Rebekka, f. 21.1. 1957, b) andvana fæddur drengur 16.4. 1958, c) Rakel, f. 4.11. 1959, d) Kristín, f. 19.6. 1962, e) Líney, f. 3.10. 1963.
Útförin fer fram frá Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu, Hátúni 2, Reykjavík, í dag, 19. október 2022, klukkan 15.
Elskuleg amma okkar kvaddi þetta líf á afmælisdegi nöfnu sinnar Líneyjar systur okkar 3. október, rúmlega 103 ára. Það er erfitt að finna nógu falleg lýsingarorð um elsku Líneyju ömmu, svo mikil áhrif hafði hún á okkur systurnar. Hjartahlýjan sem skein af henni var einstök, góðmennskunni og þessum fallega farvegi sem hún gaf okkur gleymum við aldrei. Við fáum hlýtt í hjartað að segja nafnið hennar og rifja upp samverustundirnar með henni, þær eru svo dýrmætar. Pabbi okkar, Benedikt Frímannsson, var svo lánsamur að koma inn á heimilið Reykjarhól í Fljótum aðeins sjö ára gamall, þar sem Líney amma var fyrir, 18 ára snót heitbundin syninum á bænum, Árna Eiríkssyni. Þau urðu fósturforeldrar pabba og kallaði hann Árna alltaf fóstra sinn. Pabbi dvaldi á Reykjarhóli við mikið ástríki fósturforeldra sinna til 19 ára aldurs. Líney amma og Árni afi brugðu búi 1962 og fluttu til Reykjavíkur á Bergþórugötu 25.
Ein af fyrstu minningunum sem við systur áttum af Bergþórugötunni var að koma í sunnudagskaffið hjá Líneyju ömmu og Árna afa. Það var mikil tilhlökkun að hitta ömmu þar sem hún bar fram bakkelsið með bros á vör og hálfhljóp við fót, dillandi hlátur hennar var svo innilegur. Pönnukökurnar hennar voru þær bestu. Þegar við fjölskyldan fluttum vestur í Dali vorum við alltaf velkomin í gistingu hjá ömmu. Það var alltaf opið hús, hlýja, matur og spjall, stundum var peningaseðli laumað í lófana við brottför og sagði hún að hún vissi ekkert hvað hún ætti að gera við þennan pening, það væri betra að við notuðum hann. Líney amma kom vestur í Dali til okkar og var alltaf til í smá ævintýri. Þessi atvik voru oft rifjuð upp og hlegið dátt. Það var dásamlegt nú seinni árin að rifja þau upp með henni.
Rakel valdi hjá henni tvo vetur vegna skólagöngu og var yndislegt að eiga ömmu að þennan tíma. Oft var gestkvæmt á Bergþórugötunni og alltaf tók amma á móti öllum með bros á vör og enginn fór þaðan án þess að hafa fengið kræsingar hjá henni. Hún hafði alltaf mikinn áhuga á okkur og fjölskyldum okkar og þegar hún var kvödd eftir heimsóknir okkar bað hún ávallt um hlýjar kveðjur í allar áttir. Við vissum hvert þær kveðjur áttu að fara því áhuginn á börnum og barnabörnum okkar systra var svo einlægur.
Við systur minnumst atvika sem lýsa hennar einstöku hjartahlýju, t.d. þegar pabbi okkar varð 84 ára og við systur fórum vestur í Stykkishólm þar sem hann bjó síðustu árin bað hún okkur að koma við hjá sér og taka með pönnukökur fyrir elsku drenginn sinn. Amma flutti af Bergþórugötunni í Hafnarfjörð í íbúð í húsi dótturdóttur sinnar Jóhönnu og fjölskyldu hennar. Þarna bjó hún þar til í ársbyrjun 2020 þegar hún flutti á hjúkrunarheimilið Sólvang í Hafnarfirði, þar átti hún góða daga og fékk góða umönnun. Síðustu mánuðina fór að halla undan fæti – líkaminn var búinn að fá nóg en hugurinn alltaf skýr. Söknuðurinn er sár en yndislegar minningar um einstaka dásamlega ömmu lifa.
Hafðu þökk fyrir allt elsku Líney amma.
Þínar Bennadætur,
Rebekka, Rakel Kristín og Líney.
„Svo blíð og svo björt og svo
auðmjúk.“
(Þorstein Gíslason)
Hún kvaddi mig stundum með orðunum „hlýjar kveðjur í allar áttir“ og því við hæfi að ljúka þessum minningarorðum á hennar hátt.
Guð blessi minningu þína elsku Líney amma.
Þín
Ester Helga
Líneyjardóttir.
Þegar raunir þjaka mig
þróttur andans dvínar
þegar ég á aðeins þig
einn með sorgir mínar.
Gef mér kærleik, gef mér trú,
gef mér skilning hér og nú.
Ljúfi drottinn lýstu mér,
svo lífsins veg ég finni
láttu ætíð ljós frá þér
ljóma í sálu minni.
(Ómar Ragnarsson/Gísli á
Uppsölum)
Á barnsaldri missti Líney föður sinn. Eftir það var hún fóstruð upp á Reykjarhóli á Bökkum, vestasta bæ í Fljótum, hjá þeim Eiríki Ásmundssyni, ömmubróður sínum, og Önnu Magnúsdóttur, afasystur sinni.
Síðar var hún húsfreyja á Reykjarhóli í rúm 20 ár og bjó þar með manni sínum Árna Eiríkssyni. Heimilið var mannmargt, Reykjarhóll var í þjóðbraut og gestagangur mikill, einkum að sumrinu. Líney var mikil húsmóðir og hafði í mörg horn að líta. Þau Árni brugðu búi og fluttu til Reykjavíkur haustið 1962. Þar lést Árni nokkrum árum síðar.
Lengstum bjó Líney í íbúð sinni, er þau Árni keyptu á Bergþórugötu 25, en á síðari árum bjó hún í skjóli sinna nánustu, eða þar til hún var nær 101 árs að hún flutti á hjúkrunarheimili.
Frænku minni þakka ég góða viðkynningu, hún reyndist mér, konu minni og börnum ætíð vel. Börnum okkar var hún ætíð tiltæk og leysti úr vandræðum þeirra þegar til hennar var leitað.
Börnum Líneyjar og öðrum ættingjum er vottuð samúð.
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama;
en orðstír
deyr aldregi,
hveim er sér góðan getur.
(Úr Hávamálum)
Mér finnst ég alltaf hafa þekkt hana en trúlega ekki fyrir árið 1970. Hún var hæglát og brosmild, blíð og aðlaðandi. Hún sýndi börnum mínum góðvild og þau töluðu um Líneyju sem vin þótt áratuga aldursbil væri milli þeirra.
Hvítasunnumenn hafa gjarnan landsmót kirkjunnar í upphafi ágústmánaðar. Eitt árið vaknaði yngsti strákurinn minn upp um miðja nótt. Við hjónin urðum þess vör aðeins of seint. Þegar við litum eftir drengnum og fórum út á gang var drengurinn horfinn. Við leituðum hans og athuguðum hvort hann hefði farið út. En það var sama hvert við litum; engan lítinn snáða var að finna. Við hjónin stóðum ráðvillt úti á ganginum og kunnum ekki við að knýja dyra um miðja nótt. En konan opnaði einar dyr og leit inn. Þá sá hún Líneyju liggjandi á fleti sínu og að litli snáðinn hafði nú bara skriðið upp í hjá henni. Hún tók hlýlega á móti barninu ráðvillta. Gæði Líneyjar sem persónu birtust þarna glögglega.
Líney fannst mér ávallt ein af þessum konum sem falla svo vel inn í söfnuð hvítasunnumanna. Í hinni helgu bók, Biblíunni, er sagt: „Skart yðar sé ekki ytra skart, hárgreiðslur, gullskraut og viðhafnarbúningur, heldur sé það hinn huldi maður hjartans í óforgengilegum búningi hógværs og kyrrláts anda. Það er dýrmætt í augum Guðs.“ Þannig kveð ég Líneyju, konuna sem skartaði „óforgengilegum búningi“, og þakka samferðina, fyrirbænir, umhyggju og hlýju.
Hún var dýrmæt í augum Guðs!
Snorri Óskarsson, fv. safnaðarhirðir og kennari.