Á uppvaxtarárum mínum stóðu allir í þeirri meiningu að guð væri maður. Maður sem í upphafi skapaði himin og jörð á sjö dögum og sjö nóttum. En myrkur var yfir öllu. Og sagði þá Guð: Verði ljós, og allt lýstist upp.
Svo skapaði Guð Adam og Evu, en fljótlega fór Adam að leiðast. Velti hann fyrir sér hvað hægt væri að gera við því. Langaði að ná til þessara furðuvera sem voru að vaða í yfirborðinu. Fór hann þá að smíða bát og tölvuvindu. Sá Adam að ef hann ætlaði að brauðfæða fjölskylduna, sem stækkaði óðfluga, yrði hann að fjölga vindunum. Þegar Adam var að setja upp sjöttu vinduna kom Guð askvaðandi og sagði við hann: „Nei, Adam, þetta má ekki! Ég ætlaði að horfa fram hjá fimmtu vindunni en þegar þú ætlar að vera með yfirgang og ætlar þér um of segi ég: Nei, þú mátt bara hafa fjórar vindur!“
Adam fór að róa með sínar fjórar vindur og útbjó slóða sem hann setti á hverja vindu þar sem á voru fjórir krókar. Voru aflabrögð mjög góð, það var fiskur á hverju járni! Guði var hætt að lítast á blikuna og hugsaði með sér að þetta mætti ekki við una og fór að hugsa hvernig best væri að koma böndum yfir það. Þá var hvíslað að honum valdsmannslegri röddu: „Það verður að geyma fiskinn þar til ég kem! Þú mátt ekki leyfa Adam að róa alla daga! Alls ekki fleiri en fjóra daga í viku!“
Guði varð hverft við og þorði ekki annað en hlýða!
Adam varð hugsi og sá fyrir sér að þetta gæti orðið erfitt því sjór myndi ýfast og ekki reynast unnt að sækja oft á miðin. Spurði hann þá: „Hvers vegna má ekki róa föstudag til sunnudags þegar oft er himinblíða og rennisléttur sjór?“
„Það bara má ekki!“ sagði Guð.
Svo fór Adam að róa og gekk þokkalega. Var þá hvíslað að Guði enn hvassar en áður: „Adam má ekki róa marga daga í mánuði, 12 dagar duga!“
Og áfram reri Adam og Guði mislíkaði. Enn spurði Adam: „Ha Guð! Bara 12 daga í mánuði? Hvernig datt þér það í hug? Hvaða vitleysa er það?“
Svo fór Adam að róa og sótti sína 12 daga í mánuði. Einhverja daga fór hann í janúar en febrúar reyndist illur og óviðráðanlegur, mars var dyntóttur og einnig apríl. Maí var góður en júní til ágúst köflóttir. September var svo þokkalegur en október og nóvember bara slæmir og svo desember mjög blandaður.
Enn var hvæst í eyru Guðs: „Þetta gengur ekki. Adam rær of marga mánuði, ég vil eiga fiskinn! Þú skalt þykjast vera góður; þú þurfir að vernda Adam fyrir váveðrum sem oft eru á veturna. Þau geri út af við hann á svona litlum bát.“
Adam var leiður. „Ég má bara róa maí til ágúst, ekki september til apríl. En þótt ég sé ekki að hugsa um veturinn, þótt oft séu góðar stillur inn á milli, sér tíðarfarið um að ég get ekki róið nema fjórðung ársins. Ég þarf ekki nein aukahöft!“
En eins og áður var getið má Adam ekki vera með nema fjórar rúllur þótt hægt sé að vera með fleiri og ná skammtinum á styttri tíma. Það má ekki!
Skammturinn, hvað er nú það? Adam var úti á sjó og fiskaði þessi lifandis býsn. Í allar hirslur var settur fiskur. Þá var hvíslað enn ákafar í eyra Guðs: „Strákurinn er með of mikið af fiski, þetta þarf að hemja, það er nóg fyrir hann 650 kg af slægðum afla á dag og ekki kíló meira.“
Þótt eitthvert magn veiddist per dag, þá mátti ekki hagræða. Þannig að þegar betur fiskaðist mátti Adam ekki veiða mikið og jafna það svo síðar þegar illa fiskaðist. „Það má ekki!“
Svo fór hjá honum ferskvatnskælir á vélinni og vegna plássleysis og tíma sem fer í bilanaleit, því oft getur verið um tvo eða jafnvel þrjá hluti að ræða, bendir hegðun vandans ekki alltaf í eina átt. Þegar Adam er kominn í land og bilaða stykkið fundið eru liðnir tveir dagar, klukkan orðin 18.47. Og biðin löng að næsta degi. Þegar við umboðið er talað uppgötvast að viðkomandi hlutur reynist ekki til og þarf að panta nýjan. Vegna tímamismunar milli landa sem hýsir umboðið er liðið vel á daginn þegar samband næst, en vegna stríðsátaka er hluturinn ekki fáanlegur fyrr en 11 dögum síðar og þá er flutningur eftir. Þótt með DHL sé tekur tvo daga að fá hlutinn til Íslands og dag til í innanlandsflutning. Eru þá liðnir 16-17 dagar þegar báturinn er loks klár á veiðar. Adam vill þá æstur fara og ná þessum töpuðu dögum því mánuðurinn er langt kominn en ...
... það má ekki!
Adam reri mánudaginn 4. júlí. Lenti svo í þessum skakkaföllum þriðjudaginn 5. júlí. Þegar búið var að gera bátinn kláran til veiða aftur var komið stopp. Kvótinn sem strandveiðisjómönnum var ætlaður var uppurinn. Ekki mátti róa meira. Adam má ekki meir!
Kvótaárið 2022 var búið 21. júlí á miðju sumri þó að tilvonandi ráðamenn hafi margsinnis lofað öllu fögru og okkur strandsjómönnum föstum 48 dögum í aðdraganda kosninga. Svo fagurt hefur gasprið verið í þessum fínu fagurgölum sem landinu stjórna að jafnvel svartþrösturinn hefur mátt sín lítils!
En nei, það má ekki!
Er þá ekki komið að því að spyrja hvort breytinga sé að vænta svo Adam geti farið að róa þegar hentar. Það er kannski ekki á hans valdi að spyrja og kannski ekki á valdi neins nema Guðs! Guð er skapari alls í veröldinni. Guð fæddist ekki, hann deyr ekki.
Þá spyr Adam: „Er Guð kannski kona?“
Höfundur er sjómaður. hjortur@jakinn.is