Elvar segir erfiðara fyrir lítil og meðalstór félög að vaxa ef vextir eru háir.
— Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Fyrir einu og hálfu ári ákvað Elvar Orri Hreinsson að söðla um. Hann kvaddi fjármálageirann og tók við stöðu framkvæmdastjóra hjá Verkfærum ehf. sem selur tæki og búnað til jarðvinnuverktaka, framleiðslufyrirtækja, sjávarútvegsfyrirtækja o.fl.
Fyrir einu og hálfu ári ákvað Elvar Orri Hreinsson að söðla um. Hann kvaddi fjármálageirann og tók við stöðu framkvæmdastjóra hjá Verkfærum ehf. sem selur tæki og búnað til jarðvinnuverktaka, framleiðslufyrirtækja, sjávarútvegsfyrirtækja o.fl.
Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?
Félagið var hrátt þegar ég hóf störf en bjó yfir miklum tækifærum til vaxtar. Til að gera sér mat úr þeim tækifærum þurfti að bæta við hæfu og reyndu starfsfólki hratt og örugglega. Ég var tólfti starfsmaður félagsins þegar ég hóf störf um mitt síðasta ár, en nú starfa 25 hjá félaginu. Tvöföldun, bæði í veltu og starfsmannafjölda, á rúmu ári er ansi hröð þróun og því fylgja talsverðar áskoranir. Áskorunin felst m.a. í fjármögnun, en hraður vöxtur felur í sér mikla kostnaðaraukningu og því þarf að halda vel á spilunum. Einnig felst áskorunin í því að slípa saman hópinn svo að nýir starfsmenn geti gengið greiðlega til verks og í takt við þau gildi og markmið sem við viljum standa fyrir og ná.
Hvernig heldurðu
þekkingu þinni við?
Ég leita mikið í að auka færni mína og ver miklu af frítíma mínum í að viða að mér frekari þekkingu. Þar notast ég að mestu við hina stafrænu miðla. Ég ver t.d. miklum tíma í að verða betri í að sjálfvirknivæða síendurtekin verkefni með það að markmiði að spara tíma. Dagurinn er yfirleitt of stuttur fyrir þau verkefni sem ég vil koma frá mér og þá skiptir máli að nýta tímann vel og verja honum með skilvirkum hætti. Þar get ég nefnt forrit á borð við Power Automate og Power Query í Excel.
Að búa yfir færni á þessu sviði hefur gerbreytt því hvernig ég nálgast „handavinnu“ í tölvu og einföld endurtekin verkefni. Þessi verkefni eru nú unnin í eitt skipti og svo þegar þau ber aftur að garði er einfaldlega ýtt á „play“ og verkefnin svo gott sem vinna sig sjálf. Tíminn sem ég hef eytt í að auka færni mína á þessu sviði hefur þegar borgað sig margfalt til baka. Þekkinguna hef ég sótt sjálfur á netinu að öllu leyti. Fróðleikurinn þar er svo gott sem endalaus svo ég er með nóg af lesefni til að bæta þekkingu mína á þessu sviði enn frekar.
Hver var síðasti fyrirlesturinn sem þú sóttir?
Ég sit marga fyrirlestra frá okkar helstu birgjum. Ég hef þurft að læra mikið á skömmum tíma. Sem dæmi þá tók Verkfæri nýverið við umboði fyrir sölu og þjónustu á tækjum frá þýska stórfyrirtækinu Jungheinrich, sem er leiðandi framleiðandi lyftara og vöruhúsatækja á heimsvísu. Undirbúningur fyrir viðtöku umboðsins hefur staðið yfir í töluverðan tíma þar sem ég hef þurft að sitja fundi, námskeið og fyrirlestra þar sem farið er yfir þær gæðakröfur sem gerðar eru til okkar sem umboðsaðila bæði hvað viðkemur sölu og þjónustu. Þetta hefur verið mjög lærdómsríkt ferli og alveg hreint magnað að sjá hve faglega er staðið að hlutunum hjá starfsfólki Jungheinrich.
Hugsarðu vel um líkamann?
Ég hef alltaf lagt ríka áherslu á hreyfingu enda hefur hreyfing iðulega leitt til þess að ég borða hollari mat, einbeiti mér betur yfir daginn og sef betur. Hreyfing er því ákveðið grundvallaratriði ef ég á að vera vel stemmdur í því sem ég tek mér fyrir hendur hverju sinni.
Vinnudagurinn hefur lengst á nýjum starfsvettvangi og hreyfing minnkað því samhliða. Ég og markaðsstjóri Verkfæra erum hins vegar búnir að skora hvor á annan að rífa okkur í gang. Ég hef því litlar áhyggjur af þessu, enda stutt í keppnisskapið og ekki ætla ég að lúta í lægra haldi fyrir samstarfsfélaga mínum og tapa þannig montréttinum á vinnustaðnum.
Hvað myndirðu læra
ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?
Sennilega eitthvað tengt forritun. Það er mikil eftirspurn eftir slíkri færni í dag og möguleikarnir fyrir færan forritara endalausir. Ég er með nokkrar hugmyndir í höfðinu sem ég væri fljótari að gera mér mat úr ef ég hefði betri færni í forritun, og kannski aðeins fleiri klukkustundir í sólarhringnum.
Hvaða kosti og galla sérðu
við rekstrarumhverfið?
Kostirnir eru þeir að það er mikið um að vera og nóg af verkefnum hjá þeim fyrirtækjum sem við getum flokkað undir mögulega viðskiptavini okkar. Stjórnvöld leggja t.d. mikla áherslu á stóraukið framboð húsnæðis sem ætti að leiða til vaxandi umsvifa m.a. hjá jarðvinnu- og byggingarverktökum sem ætti að leiða til vaxandi eftirspurnar eftir tækjum og búnaði í tengslum við þeirra starfsemi. Þar komum við til sögunnar með tæki, búnað og þjónustu sem ætti engan að svíkja. Helsti gallinn er vaxtastigið. Við erum í miklum vaxtafasa og störfum í fjármagnsfrekum bransa. Að sjálfsögðu kæmi það sér betur fyrir okkur ef vaxtastigið væri hóflegra. Að því sögðu þá hefur maður fullan skilning á samspili vaxta og verðbólgu og ástæðum Seðlabankans fyrir hressilegri hækkun vaxta undanfarið. Vonandi dregur úr verðbólgu næsta kastið þannig að Seðlabankinn geti skipt úr hækkunar- í lækkunarferli stýrivaxta sem fyrst. Lægri stýrivextir stuðla að vænlegra rekstrarumhverfi fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, líkt og okkar.
Hin hliðin
Nám:
Stúdentspróf frá Borgarholtsskóla 2007; BSc. í viðskiptafræði frá HR 2010; MSc í fjármálum fyrirtækja frá HR 2011; skiptinám við Anderson School of Business í BNA árið 2011; löggilding í verðbréfamiðlun 2016.
Störf:
Áætlunarstjóri hjá Ölgerðinni 2010 til 2011; sérfræðingur á fyrirtækjasviði Íslandsbanka 2012 til 2014, síðar sérfræðingur hjá viðskipta- og þróunarsviði 2014 til 2015, sérfræðingur hjá greiningardeild 2015 til 2019, formaður ferðaþjónusturáðs 2019 og stjórnarmaður í starfsmannafélagi 2019; sérfræðingur hjá Samtökum fjármálafyrirtækja (SFF) 2020 til 2021; framkvæmdastjóri Verkfæra ehf. frá 2021.
Fjölskylduhagir:
Í sambúð með Örnu Rún Guðlaugsdóttur og fyrsta barn væntanlegt í janúar. Stelpa.