Orkuskipti Sigurður fjallaði um orkuskiptin í Kaldalóni í Hörpu í gær.
Orkuskipti Sigurður fjallaði um orkuskiptin í Kaldalóni í Hörpu í gær. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Veronika Steinunn Magnúsdóttir veronika@mbl.is Efnahagslegur ávinningur Íslands af orkuskiptum fram til ársins 2060 getur numið 1.400 milljörðum króna, sem samsvarar fjármögnun heilbrigðiskerfisins í nær 5 ár.

Veronika Steinunn Magnúsdóttir

veronika@mbl.is

Efnahagslegur ávinningur Íslands af orkuskiptum fram til ársins 2060 getur numið 1.400 milljörðum króna, sem samsvarar fjármögnun heilbrigðiskerfisins í nær 5 ár. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Eflu um efnahagsleg áhrif orkuskipta. „Þetta sýnir fram á ábyrgð stjórnvalda að ryðja hindrunum úr vegi þar sem þess er þörf og setja upp jákvæða hvata til þess að flýta fyrir þessu mikilvæga verkefni,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Ísland standi vel en önnur lönd, til dæmis Svíþjóð, séu lengra á veg komin.

Ísland notar um milljón tonn af olíu árlega, sem kostar um 100 milljarða króna. Það jafngildir verðmæti alls afla úr sjó við Ísland í 6 mánuði. „Við flytjum inn mikla olíu. Markmið stjórnvalda er að hætta því og nota þess í stað hreina orkugjafa,“ segir Sigurður.

Í skýrslunni er rakið að jarðhiti er helsti orkugjafi Íslands; um 60% af frumorkunotkuninni eru heitt vatn til húshitunar, baða og annarrar neyslu, um 25% frumorkunotkunar eru raforka sem ýmist er unnin úr vatnsafli eða jarðhita. Um það bil 15% frumorkunotkunar eru olía.

Skipting orkunotkunar Íslands án húshitunar er 60% raforka og 40% olía og telst Ísland nettóinnflytjandi á orku þar sem orkuframleiðsla hér á landi dugar ekki fyrir orkunotkun.

Markmið stjórnvalda er að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum árið 2040 og verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja en orkuskipti ganga út á að hætta að nota óendurnýjanlega orkugjafa á borð við olíu og nota þess í stað endurnýjanlega orkugjafa á borð við vatn, jarðvarma, vind og sól.

„Það er vel raunhæft að ná þessum markmiðum en það er ljóst að það þarf að spýta í lófana,“ segir Sigurður. Samorka og Efla hafa þá opnað nýjan upplýsingavef sem ber heitið orkuskipti.is. Þar er að finna allar upplýsingar um orkunotkun, orkuskipti og efnahagslegan ávinning Íslands af orkuskiptum. Voru vefurinn og niðurstöður greiningar Eflu á efnahagslegum ávinningi orkuskiptanna kynnt í Kaldalóni í Hörpu í gær.