Baldur Arnarson baldura@mbl.is Ríflega 60% af íbúafjölgun á Íslandi frá miðju ári 2010 eru tilkomin vegna erlendra ríkisborgara. Fjölgaði þeim þannig um ríflega 38.400 fram á mitt þetta ár en íslenskum ríkisborgurum um ríflega 25 þúsund.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Ríflega 60% af íbúafjölgun á Íslandi frá miðju ári 2010 eru tilkomin vegna erlendra ríkisborgara. Fjölgaði þeim þannig um ríflega 38.400 fram á mitt þetta ár en íslenskum ríkisborgurum um ríflega 25 þúsund.

Þetta tímabil er valið því brottflutningur erlendra ríkisborgara í kjölfar efnahagshrunsins 2008 var mikið til að baki um mitt ár 2010.

Þessi aðflutningur birtist í því að hlutfall erlendra ríkisborgara á höfuðborgarsvæðinu hækkar ár frá ári. Það er nú hæst í Reykjavík, eða tæp 19%, og rúm 13% í Hafnarfirði.

Gefa ekki kost á sér í störfin

Skortur er á starfsfólki í mörgum atvinnugreinum. Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir félagsmenn aldrei hafa kvartað jafnmikið undan því að erfitt sé að ráða fólk.

Nú sé sú staða uppi á fjölmennum vinnustöðum á Íslandi að innlent vinnuafl gefi ekki kost á sér í störfin. Því verði þau ekki mönnuð nema með innfluttu vinnuafli. Jafnframt þurfi verslunin að laga sig að mikilli fjölgun erlendra ríkisborgara. Það er að mati Andrésar ekki „annað í stöðunni en að merkingar í verslunum þurfi að vera á fleiri tungumálum en íslensku“. „Það er sjálfsagt og eðlilegt að hafa íslensku efst en óraunhæft að hafa merkingar aðeins á íslensku,“ segir Andrés.

Laðar fólk til Íslands

Laun hafa hækkað hraðar hér undanfarið en víðast hvar í Evrópu.

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, segir styrkingu krónunnar og hækkun innlendra launa styrkja stöðu Íslands í samkeppni um erlent vinnuafl. Það hjálpi til við að laða erlent vinnuafl hingað til lands.