Karen Irene Guðrún Bergmann Jónsdóttir fæddist í Reykjavík 9. nóvember 1937 en fluttist barnung til Hafnarfjarðar, þar sem hún ólst upp hjá foreldrum sínum. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Eir í Reykjavík 20. janúar 2022.

Foreldrar hennar voru hjónin Jón Bergmann Gíslason, f. 31.12. 1906, d. 24.4. 1985, og Karen Irene Jørgensen Gíslason, f. 29.7. 1909 í Larvik í Noregi, d. 5.9. 1981. Systkini Karenar eru sex. Hálfsystkini samfeðra: Þuríður Bergmann, f. 3.2. 1933, látin; Elí Bergmann, f. 15.12. 1935, búsettur í Ástralíu. Börn Jóns og Karenar voru, auk Karenar: Borge Jón Ingvi, f. 7.7. 1936, látinn; Soffía Elsie, f. 13.2. 1941, látin; Gíslína Ingveldur Bergmann, f. 15.1. 1945, látin; Gísli Kristofer, f. 2.6. 1947.

Hinn 18. janúar 1958 giftist Karen Borgþóri Guðmundssyni, f. 6.9. 1934, d. 7.12. 1976. Foreldrar hans voru Guðmundur Jóhannsson, f. 16.8. 1907, d. 7.5. 1989, og Lóa (Gíslína Sigurrós) Þórðardóttir, f. 3.10. 1907, d. 9.5. 1993.

Karen og Borgþóri fæddust fimm börn: 1) Guðmundur Bergmann, f. 13.8. 1956, kvæntur Kristínu Margréti Hallsdóttur, f. 30.3. 1958, og eiga þau þrjú börn, Borgþór, Súsönnu Höllu og Anton Bergmann. 2) Birgir Þór, f. 2.11. 1958, kvæntur Soffíu Rósu Gestsdóttur, f. 13.11. 1959, og eiga þau tvö börn, Erling Þór og Karen Lóu. 3) Ragnar, f. 17.3. 1960, kvæntur Sigurrós Kristinsdóttur, f. 23.1. 1956, og eiga þau fimm börn, Svövu Kristínu, Evu Sólveigu, Aron Pétur, Andra Má og Kamillu Rut. 4) Vilborg, f. 19.5. 1962, d. 26.5. 1962. 5) Baldur, f. 12.6. 1963, kvæntur Lindu B. Jónsdóttur, f. 25.7. 1962, og eiga þau þrjú börn, Úrsúlu Karen, Alexander Jón og Baldur Pál.

Karen var í sambúð með Magnúsi Sólmundarsyni 1981-2011, sonur Magnúsar og stjúpsonur Karenar er Árni Magnússon.

Karen vann ýmis störf, um árabil hjá dagblaðinu Þjóðviljanum en síðustu áratugi starfsævinnar á Ríkisspítalanum á Kleppi.

Útför Karenar fór fram í kyrrþey frá Fossvogskirkju 27. janúar 2022.

Með hugann fullan af sorg en þó óendanlegu þakklæti kveð ég nú mína elskandi tengdamömmu til síðastliðinna 37 ára. Eftir erfið ár og æðrulausa baráttu við alzheimersjúkdóminn hvarf hún okkur smám saman. Hún dvaldi í 11 ár á Eir. Hjartans þakkir fyrir góða umönnun og hjálp færi ég starfsfólkinu þar. Ég trúi því að nú sé hún frjáls og líði vel og vonandi búin að hitta Bogga sinn aftur. Hann missti hún árið 1976.

Í yfir 30 ár starfaði hún á Kleppi. Það var sama hver átti í hlut, sá allra veikasti eða yfirlæknirinn, allir fengu ást og umhyggju, dáðu hana og elskuðu. Hún stóð á sínu og vann öll verk er þurfti. Starfaði lengi á næturvöktum að pakka blöðum og sjá um heimilið og svo ala upp drengina sína fjóra, ekkert venjulega hressa drengi. Var örugglega ekki alltaf auðvelt en öll verkefni lífsins leysti hún með ást og trú á lífið.

Þakklæti að hún fékk að kveðja með drengina sína hjá sér, Gumma, Bigga, Ragga og Baldur, því oftar en ekki kom öll runan þegar hún ætlaði að ávarpa einn þeirra. Þeir voru henni allt, já drengirnir hennar. Hún sá aldrei sólina fyrir þeim, elskaði svo fallega af lífi og sál og bar ætíð á höndum sér.

Þakklæti að fá að verða henni samferða frá árinu 1985 er við Biggi kynntumst. Frá fyrsta degi var ég sem hennar eigin dóttir. Þakklæti fyrir að leiðbeina mér og vera ein af mínum sterku fyrirmyndum í lífinu.

Árið 1988 höfðum við Biggi fest kaup á íbúð og eins og gerist dróst að við gætum flutt inn, þá var velkomið að búa hjá Karen og Magga, sambýlismanni hennar frá 1981-2011. Árni sonur Magga eftirlét okkur herbergið sitt og þar fæddist frumburðurinn, Erling þór. Þegar við komum heim af spítalanum gefur hún okkur þann flottasta Silver Cross-barnavagn sem í boði var með sængum, útsaumuðum sængurverum og prjónuðum barnafötum og öðru dýrindishandverki. Þá stund geymi ég á besta stað í mínu hjarta. Þegar Karen Lóa fæðist 1999 var það eins. Hún var alltaf boðin og búin að aðstoða meðan hugur og hönd leyfðu. Þakklæti því hún hjálpaði okkur að ala upp börnin okkar, það voru margar leikstundirnar fullar af gleði og elsku, og hvað hún gætti þeirra vel, þau voru alltaf til í að vera með ömmu og afa.

Hún ferðaðist mikið með okkur hér innanlands í útilegur og í afdrep fjölskyldunnar í Borgarfirði. Hún splæsti veitingum og verslaði í matinn og gaukaði glaðningi að börnunum. Þar var hún í essinu sínu, bakaði eplaköku og flatkökur og hugsaði um sína. Þetta voru yndislegar stundir. Mamma hennar kom hingað frá Larvik í Noregi sem kapteinn í Hjálpræðishernum upp úr 1930. Tengslin við Noreg voru alltaf sterk og hún var svo stolt af uppruna sínum. Hún ólst upp í Hafnarfirði og hún var líka stoltur Hafnfirðingur alla tíð.

Ég var svo heppin að fá að heimsækja Sólveigu móðursystur hennar, þar sem Biggi og þeir bræður dvöldu oft á sumrum, meðan Erling maðurinn hennar lifði, og einnig síðar meir. Einnig ógleymanleg ferð okkar Bigga með henni og litlu Karen að heimsækja skyldmenni þangað, upplifa með henni 17. maí á Karl Johann, veifa konunginum og fara í ekta 17. maí-boð hjá ættingjum þar sem frænkur skörtuðu sínum glæsilegu þjóðbúningum. Dagurinn svo bjartur og fagur.

Þakklæti, því elsku Karen, þú gerðir heiminn betri.

Þín elskandi tengdadóttir,

Soffia.