Pósturinn hefur fengið 1,1 milljarð úr ríkissjóði á síðustu tveimur árum.
Pósturinn hefur fengið 1,1 milljarð úr ríkissjóði á síðustu tveimur árum. — Morgunblaðið/Eggert
Ríkisrekstur Íslandspóstur tapaði 118,5 milljónum króna á fyrri hluta ársins, samanborið við 146 milljóna króna tap á fyrri hluta árs 2021. Tekjur fyrirtækisins drógust saman um 181 milljón á tímabilinu og rekstrarkostnaður dróst saman um 77,3...

Ríkisrekstur Íslandspóstur tapaði 118,5 milljónum króna á fyrri hluta ársins, samanborið við 146 milljóna króna tap á fyrri hluta árs 2021. Tekjur fyrirtækisins drógust saman um 181 milljón á tímabilinu og rekstrarkostnaður dróst saman um 77,3 milljónir. Þannig versnaði rekstrarafkoma fyrirtækisins (EBITDA) um rúmar 103 milljónir og nam 91,6 milljónum nú.

Handbært fé í lok tímabilsins var 425,3 milljónir og hafði lækkað úr 788 milljónum í árslok 2021.

Eignir Íslandspósts námu rúmum sex milljörðum um mitt ár og höfðu dregist saman um rúman hálfan milljarð á hálfu ári. Munar þar mest um lægri viðskiptakröfur sem stóðu í 649 milljónum í samanburði við rúman milljarð um áramót. Skuldir fyrirtækisins höfðu sömuleiðis lækkað og námu 2,6 milljörðum í lok júnímánaðar en höfðu verið tæpir þrír milljarðar um áramót.

Stöðugildum hjá Póstinum hefur fækkað talsvert á árinu. Voru þau 513 í lok júnímánaðar og hafði þá fækkað um 43 frá áramótum. Jafngildir það 7,7% fækkun.

Í skýrslu stjórnar Íslandspósts sem birt er með árshlutareikningi fyrirtækisins segir að ytra umhverfi þess hafi kallað á aukna kostnaðarvitund innan þess og að verðhækkanir í nærumhverfinu hafi sett aukna pressu á reksturinn.