Eva Hrund Pétursdóttir fæddist 13. janúar 1969. Hún lést 21. ágúst 2022. Útför Evu fór fram 18. október 2022.

Í dag stígum við þung skref þegar við fylgjum Evu Hrund síðasta spölinn þar sem hún var tekin frá fjölskyldu og vinum í blóma lífsins. Þegar fregnin um andlát Evu Hrundar barst var hún bæði óskiljanleg og óraunveruleg, það er erfitt að setja slík voðaverk inn í íslenskan raunveruleika. Það er erfitt að sætta sig við að kveðja unga konu fulla að orku og krafti til að takast á við verkefni framtíðarinnar. Eva Hrund tókst á við daglegt líf með krafti og jákvæðni og velti sér ekki upp úr aukaatriðum. Hún gaf sinn tíma fjölskyldunni en þegar börnin stækkuðu tók hún sig til og hóf að bæta við sig menntun meðfram atvinnuþátttöku. Jákvæðni og gleði var hennar drifkraftur sem hún miðlaði til okkar. Þannig er líka minningin um hana sem barn, glöð og jákvæð.

Það færir mér alltaf smá bros þegar mér verður hugsað til sögunnar þegar þær mæðgur Eva og Karen áttu erindi til Sauðárkróks og fóru um Þverárfjall. Á miðri leið segir Karen við mömmu sína að hún hafi séð ísbjörn uppi í fjallshlíðinni. Eva brást snöggt við og sagði án þess að líta upp í hlíðina: Hvaða vitleysa er þetta, barn. Það er enginn ísbjörn hér. Nokkrum klukkustundum síðar kom svo í ljós að barnið hafði rétt sér þegar fréttir bárust um ísbjarnaferðir á svæðinu.

En nú hefur þessi kraftmikla og jákvæða frænka kvatt okkur og við þurfum að vinna úr sorginni á slíkum stundum og þá er gott að eiga margar og góðar minningar um Evu Hrund.

Við erum með hugann hjá hennar nánustu, Kára, Söndru, Hilmari, Pétri, Karen og öfunum, Pétri og Kára. Það er gott til þess að hugsa að við eigum svo margar og góðar minningar um þig, kæra frænka, sem við munum varðveita um ókomna framtíð.

Þorbjörn

Guðmundsson.

Það eru ómetanleg forréttindi í lífinu að fá að kynnast og starfa með jafn heilsteyptri manneskju og hún Eva Hrund okkar var og við þurfum núna að kveðja allt of snemma. En svona getur lífið stundum verið óréttlátt og ófyrirsjáanlegt. Það er margs að minnast frá þeim góða tíma þegar við unnum saman hjá Lyfju á Blönduósi og urðum við allar góðar vinkonur og vinnufélagar. Eva var mjög hugmyndarík og lífleg. Oft var mikið hlegið og gert góðlátlegt grín hver að annarri. Hún var einnig ákveðin með sterkar skoðanir. Frá þessum tíma eigum við margar góðar minningar sem eru ferðir og samvera utan vinnu, eins og árshátíðarferð Lyfju til Dublinar, þar áttum við frábæra daga. Einnig heimsókn frá vinnufélögum á Sauðárkróki sem við eyddum á fallegum haustdegi við göngu- og nestisferð út í Hrútey. Margt fleira var til gamans gert. Eva vann með okkur í nokkur ár og einnig í Lyfju á Skagaströnd. Samhliða þessu var hún í námi, kláraði bæði lyfjatækni og iðjuþjálfun, í framhaldi af því hætti hún föstu starfi hjá okkur en var alltaf tilbúin að koma í afleysingar ef á þyrfti að halda. Það var alltaf gott að leita til hennar og eiga hana að. Við erum þakklátar fyrir okkar góðu kynni og vinskap og söknum hennar sárt, tómarúmið er vandfyllt. Við sendum elsku fjölskyldu hennar okkar dýpstu samúðarkveðjur og biðjum góðan Guð að vernda ykkur og styrkja.

Hlíf og Gréta.