[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Adolf Smára Unnarsson. Leikstjórn: Ólafur Egill Egilsson. Leikmynd: Hildur Evlalía Unnarsdóttir. Búningar: Arturs Zorgis. Lýsing: Jóhann Bjarni Pálmason. Tónlist og hljóðmynd: Aron Þór Arnarsson. Myndbandshönnun: Ásta Jónína Arnardóttir.

Eftir Adolf Smára Unnarsson. Leikstjórn: Ólafur Egill Egilsson. Leikmynd: Hildur Evlalía Unnarsdóttir. Búningar: Arturs Zorgis. Lýsing: Jóhann Bjarni Pálmason. Tónlist og hljóðmynd: Aron Þór Arnarsson. Myndbandshönnun: Ásta Jónína Arnardóttir. Leikarar: Björn Thors, Ebba Katrín Finnsdóttir, Hilmar Guðjónsson og Vigdís Hrefna Pálsdóttir. Frumsýning í Kassanum í Þjóðleikhúsinu laugardaginn 8. október 2022.

Þegar frumsýningargestir mættu í Kassa Þjóðleikhúsins til að sjá Nokkur augnablik um nótt eftir Adolf Smára Unnarsson beið þeirra nýuppgerður forsalur. Í hönnun sinni leituðu Þórður Orri Pétursson og Hálfdán Pedersen til upprunans, en Jón Þorsteinsson íþróttakennari lét reisa húsið og kenndi þar íþróttir og leikfimi um árabil, sem sést nú glögglega í allri umgjörð forsalarins. Breytingin hefur heppnast afar vel og nýtti Ólafur Egill Egilsson leikstjóri forsalinn til að byrja sýninguna í upphafi kvölds og aftur eftir hlé. Það var einstaklega viðeigandi að frumsýna yfirhalninguna á húsnæðinu í tengslum við leikrit sem setur fókus á ímyndarsköpun og kappleiki.

Adolf Smári býður okkur sumarkvöld eitt upp í sumarbústað í eigu hjónanna Magnúsar og Ragnhildar. Þangað eru boðin Björk, yngri systir Ragnhildar, og Óskar, sem er fyrsti kærastinn sem Björk kynnir fyrir systur sinni. Eftir því sem kvöldinu vindur fram komumst við að því að systurnar ólust upp á brotnu heimili þar sem drykkja og barsmíðar voru hluti af hversdeginum. Þrátt fyrir loforð um að passa alltaf upp á átta árum yngri systur sína nýtti Ragnhildur fyrsta og besta tækifærið til að koma sér burt þegar hún var rúmlega tvítug. Á þeim 16 árum sem liðin eru í sambandinu með Magnúsi hefur hún getað búið í vellystingum erlendis, menntað sig og er nú markvisst að klífa metorðastigann innan stærsta stjórnmálaflokks landsins.

Björk gengur með þann draum í maganum að slá í gegn með hljómsveitinni sem hún hefur sungið með síðustu fimm árin, enda fátt rómantískt við endalaust hark og barning við að hafa í sig og á. Björk og Óskar eiga það sameiginlegt að hafa hvorugt náð að mennta sig og búa nú í bílskúrnum hjá foreldrum hans á æskuslóðum systranna í Breiðholti. Magnús býr einnig svo vel að njóta stuðnings foreldra sinna þótt það sé á allt öðrum skala, enda gaf faðir hans, sem er fjárfestir, syni sínum nýverið sumarbústaðinn þar sem leikurinn fer fram.

Meðan systurnar eiga sameiginlega fortíð skapar fótboltinn óvæntan snertipunkt milli Magnúsar og Óskars. Höfundurinn dregur upp skýra mynd af fulltrúum ólíkra þjóðfélagshópa og afhjúpar meðal annars hversu auðvelt er að tala um að hver sé sinnar gæfu smiður þegar manns eigin gæfa byggist fyrst og fremst á því að hafa verið svo heppinn að fæðast í réttu landi, inn í réttu fjölskylduna, af réttu kyni og í réttum húðlit. Á sama tíma setur höfundur spurningarmerki við gildi þess að rækta upp heilan skóg ef maður getur ekki hlúð almennilega að einni björk.

Í viðtölum hefur Adolf Smári lýst leikritinu sem hefðbundnu drama og samtímalegri tragedíu. Verkið sver sig klárlega í ætt við „hið vel gerða leikrit“ (e. well-made play) þótt raunsæisramminn sé á nokkrum stöðum markvisst brotinn upp, t.d. með beinu tali um leikmyndina og lýsingum persóna á eigin athöfnum í þriðju persónu. Skortur á lykilupplýsingum stendur hins vegar í vegi fyrir djúpum lestri og þar með raunverulegum skilningi á því sem fyrir augu ber. Sem dæmi er engin leið fyrir áhorfendur að vita hversu langt er síðan systurnar hittust síðast sem aftur hefur áhrif á hvernig lesa á í og túlka samskiptin. Áhorfendur fá heldur engar vísbendingar um það hvort áhyggjur Ragnhildar af drykkju og vímuefnaneyslu Bjarkar eigi við rök að styðjast eða byggist á fordómum. Skallablettir á borð við þessa í handriti gera það að verkum að það er nær ómögulegt að meta hvort viðbrögð persóna séu hófstillt eða út úr korti og þar með hverfur einnig samkenndin að nokkru, sem er miður því efnið er áhugavert.

„Maður skyldi aldrei koma hlöðnum riffli fyrir á sviðinu ef ekki er ætlunin að hleypa af. Það er rangt að gefa fyrirheit um eitthvað sem þú ætlar ekki að standa við,“ skrifaði rússneska leikskáldið Anton Tsjekhov í sendibréfi 1889. Ein af „hlöðnu byssunum“ í verki Adolfs Smára er þurrkurinn sem kynntur er til sögunnar strax í upphafi og óhætt að segja að staðið sé við þau fyrirheit áður en yfir lýkur. Sama verður hvorki sagt um skyndilega „uppgötvun“ Ragnhildar á líkamlegu ástandi Bjarkar né trúnó hennar þegar hún deilir með Björk leyndarmáli sínu sem er upp á líf og dauða. Samspil persóna hefur ekki verið nægilega vel undirbyggt á sviðinu til að kúvending og játning Ragnhildar sé trúverðug, sem aftur dregur verulega úr áhrifamætti afleiðinganna.

Umgjörðin öll er til fyrirmyndar, hvort heldur snýr að haganlegri leikmynd Hildar Evlalíu Unnarsdóttur, búningum Arturs Zorgis sem drógu upp skýran mun á ólíkri félagslegri stöðu paranna tveggja, vandaðri lýsingu Jóhanns Bjarna Pálmasonar, góðri tónlist og hljóðmynd Arons Þórs Arnarssonar eða flottri myndbandshönnun Ástu Jónínu Arnardóttur sem kallaðist á við myndbirtingar á samfélagsmiðlum. Vel virkaði að nota myndbönd úr raunheimum milli senuskiptinga og skemmtilega var leikið með leikmyndina og innkomu sýningarstjóra til að undirstrika gagnvart áhorfendum að við værum stödd í leikhúsi. Mögulega hefði verið áhrifaríkara að styrkja þá þætti enn frekar.

Leikhópurinn stendur sig vel undir styrkri leikstjórn Ólafs Egils. Ebba Katrín Finnsdóttir var trúverðug sem týnda yngri systirin sem hefur munninn fyrir neðan nefið. Hún komst á flug í „gagnyfirheyslu“ sinni er sneri að fjölskyldu Magnúsar og hefði verið áhugavert að fá fleiri slíka útpælda árekstra í samskiptum persóna, enda verður broddur verks sterkari í vel skrifuðum samtölum en eintóna einræðum.

Hilmar Guðjónsson náði að draga upp mynd af manni sem var í senn viðkunnanlegur og aumkunarverður en um leið mögulega hættulegur, eins og sást skýrt í samtalinu um borð í bátnum þar sem Magnús náði virkilega að verða hræddur við Óskar. Á nokkrum stöðum urðu einræður of langar af hendi höfundar og er eintal Óskars í kirkjunni dæmi um það, enda hefði verið hægt að skrifa lykilupplýsingar þaðan inn í samtölin.

Björn Thors gerir sér mikinn mat úr hlutverki Magnúsar. Fínlegur en óþægilegur yfirgangur hans er strax greinilegur í upphafssenunni með Ragnhildi sem leikin er í forsal Kassans. Harkan í samskiptum var undirstrikuð í eintali hans í forsal undir lok hlésins og greypt í stein í meðhöndlun hans á einni af trjáplöntum þeirra hjóna. Magnús er ekki maður sem þú vilt komast upp á kant við. Í þeim skilningi er hann einn af „hlöðnum byssum“ verksins.

Eftir að í sumarbústaðinn kemur skiptast senur ýmist upp í hópatriði með öllum eða kynjaskiptar senur. Baksaga systranna er mun áhugaverðari en boltatenging karlanna, en upplýsandi hefði verið að sjá meira af samskiptum paranna tveggja hvors í sínu lagi. Framan af fær Vigdís Hrefna Pálsdóttir úr mestu að moða, enda er hún lykilpersóna þegar kemur að því að tengja saman þá ólíku heima sem í verkinu mætast. Hún nær afar vel að miðla framakonunni sem hefur gott vald á kurteisishjalinu, en hlustar ekki almennilega eftir svörunum og man varla hvort kærasti systurinnar heitir Óskar eða Óttar. Sem fyrr segir eru hvörf verksins ekki nægilega vel undirbyggð, en það bitnar einna helst á persónu Ragnhildar þannig að Vigdísi Hrefnu er gert býsna erfitt fyrir þótt hún hafi gert sitt besta við erfiðar aðstæður.

Eftir stendur að Nokkur augnablik um nótt er áhugavert leikrit í kraftmikilli og vel leikinni uppfærslu. Lykilþemu á borð við eyðileggjandi afl fátæktar og áminning þess efnis að ofbeldi í samskiptum spyrji ekki um stétt eða stöðu eiga því miður enn fullt erindi inn í samfélagsumræðuna.

Silja Björk Huldudóttir

Höf.: Silja Björk Huldudóttir