Margt knýr á um lok Úkraínustríðs, en þó ekki víst að það dugi til

Selenskí forseti Úkraínu sagði þegar líða tók á sumar að varnarskilyrði herliðs hans yrðu mun lakari þegar hausta tæki svo ekki væri minnst á þegar vetrarveður bíta fast og ráða miklu um þróun stríðsins. Seinni tímamörkin eru ekki langt undan.

Her Úkraínu varð nokkuð ágengt síðustu vikur og mánuði og kom jafnvel heitustu stuðningsríkjum þeirra á Vesturlöndum nokkuð á óvart. Árás, sem eignuð er Úkraínumönnum, á hið mikla brúarmannvirki sem tengir Krímskaga við Rússland og vígt var á afmælisdegi Pútíns fyrir einum fjórum árum þótti hernaðarlegt afrek, þótt Pútín telji það fremur til skemmdarverka. Pútín forseti fékk með því nokkra „afsökun“ fyrir allmörgum hörkulegum árásum í vesturhluta Úkraínu og var höfuðborgin Kænugarður ekki undanskilin, en þessum landshlutum hafði að mestu verið hlíft síðustu mánuði.

En þessum „hefndaraðgerðum“ var einkum beint að orkuverum Úkraínumanna og er tilgangurinn að gera vetrarkuldann sem í hönd fer enn illviðráðanlegri.

Margir fylltust bjartsýni vegna þess árangurs sem varnarsveitir Úkraínu náðu, og voru umfram væntingar á Vesturlöndum. Þar voru varnarsveitirnar loks í stöðu árásarliða og rússneskar sveitir lögðu víða á flótta næsta skipulagslaust. Pútín var ekki skemmt og hefur enn á ný gert breytingar á yfirherstjórn sinni, sem þykir ekki traustvekjandi.

Eins ýttu skilgreiningar háttsettra manna í her- og öryggissveitum Bandaríkjamanna og Breta undir jákvæðara mat. Þeir töldu að umfangsmiklir hergagnaflutningar til Úkraínu hefðu komið Pútín í opna skjöldu og eins hve fullkomin tól voru þar á ferð. Fullyrt er að upplýsingar af þróun stríðsins staðfesti að mjög hafi gengið á búnað rússneska hersins, sem um sumt hafi verið nokkuð úr sér genginn.

Ljóst virðist að Pútín hafi leitað eftir búnaði frá forseta Hvíta-Rússlands, og jafnframt fengið nokkuð frá Kim Jong-un, hinum dýrðlega leiðtoga Norður-Kóreu. En Pútín hefur og bankað upp á hjá klerkunum í Tehran og ekki farið bónleiður til búðar. Íranskar flaugar hafa þegar gert sitt ógagn í Úkraínu. Í Evrópu glittir í þrýsting vegna þess hve mörg ESB-ríki höfðu í barnaskap gert sig háð Rússlandi.