Sjöfn Kristínardóttir fæddist 17. maí 1937 á Reyðarfirði. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Ísafold 7. október 2022. Móðir hennar var Kristín Hólmfríður Nikulásdóttir, f. 2. október 1896, d. 27. október 1981. Sammæðra systkini voru: Ingvar Ólason, f. 13. nóvember 1913, d. 22. júní 1983, Sigurjón Ólason, f. 27. júní 1923, d. 28. febrúar 2012, Bjarni Ólason, f. 29. ágúst 1924, d. 3. júní 1957, Þuríður Óladóttir, f. 23. apríl 1926, d. 26. apríl 1943, Sigmar Ólason, f. 12. október 1927, d. 15. apríl 2018. Börn Sjafnar eru: 1. Sigmar Óðinn Jónsson, f. 20. júní 1960, kona hans er Fríða Eyjólfsdóttir, f. 7. febrúar 1962, dóttir þeirra: a) Agnes, f. 27. janúar 1998. 2. Pálmi Þór Laxdal Jónsson, f. 8. september 1962. Börn hans og Guðrúnar Guðjónsdóttur eru: a) Aron Laxdal, f. 14. mars 2000, b) Andrea Laxdal, f. 6. júní 2004, og c) Þórný, f. 29. október 2008. 3. Hulda Jónsdóttir, f. 20. júlí 1965. Börn hennar eru: a) Oddný Bergþóra, f. 12. janúar 1986, faðir Helgi Arnar Guðmundsson, f. 27. maí 1965, dóttir hennar og Þorkels Árnasonar, f. 21. apríl 1983, er Petrína Margrét, f. 18. maí 2020. b) Jón Helgi, f. 16. maí 1999, faðir Jón Magnús Björgvinsson, f. 14. febrúar 1966. 4. Jóna Hrund Jónsdóttir, f. 14. september 1966. Börn hennar eru: a) Sandra Sjöfn, f. 2. ágúst 1991, börn hennar og Jóhanns Inga Jónssonar, f. 9. september 1984, eru Sara Líf, f. 30. maí 2016, og Jökull Máni, f. 22. nóvember 2019. 5. Egill Jónsson, f. 14. september 1973. Hans kona er Hekla Aðalsteinsdóttir og börnin: a) Tinna Rut, f. 12. maí 1996, b) Jón Egill, f. 30. ágúst 2003, c) Emilía Þórunn, f. 6. september 2009, Talía Sif, f. 26. nóvember 1995, og Aron Can, f. 18. nóvember 1999. Sjöfn vann fyrir austan á hóteli KHB og við fiskvinnslu en eftir að hún flutti til Reykjavíkur starfaði hún hjá Öryrkjabandalaginu.

Útför hennar fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 19. október 2022, kl. 13.

Elsku Tanta mín. Nú er komið að kveðjustundinni sem ég hef kviðið lengi og ég veit að þú hefðir sagt að það væri óþarfi að vera að skrifa línur en þú varst mér svo mikils virði. Ég kallaði þig alltaf perluna í lífi mínu. Allt sem við áttum saman kemur upp í hugann en það var svo gott að vera nálægt þér, þú varst alltaf í góðu skapi og orðatiltækin þín einstök. Setningar eins og „Klokken er fyra í Tromsø“, „ég ætla bara að reka aðeins við á fólkið“ og „ja, nu skal fiskene vare sig“ fá mann til að brosa. Við spjölluðum oft saman í símann og það var svo gott að spjalla við þig, alltaf hægt að segja þér allt og þú mér á móti. Aldrei heyrði maður þig kvarta og þú varst svo stolt af börnunum þínum fimm og svo komu barnabörnin sem elskuðu ömmu Sjöfn. Þú talaðir alltaf um Reyðarfjörð sem „heima“ og tengingin þangað sterk.

Elsku Tanta mín, nú er amma Fríða búin að fá allan hópinn sinn til sín. Ég mun aldrei gleyma þér og kveð þig með söknuði. Segi nú eins og þú sagðir alltaf við mig þegar ég heimsótti þig: „Ég bið að heilsa öllu okkar fólki.“

Elsku Simmi, Pálmi, Hulda, Jóna, Egill og fjölskyldur, ég veit að þetta er erfiður tími og bið góðan Guð að styrkja ykkur öll.

Þín litla Tanta,

Þórstína Hlín.