Jenni Haukio
Jenni Haukio
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tvær forsetafrúr koma saman í Norræna húsinu í dag og ræða um bókmenntir á viðburði sem ber yfirskriftina Skipt um sjónarhorn: Bókmenntir og þjóðerniskennd.

Tvær forsetafrúr koma saman í Norræna húsinu í dag og ræða um bókmenntir á viðburði sem ber yfirskriftina Skipt um sjónarhorn: Bókmenntir og þjóðerniskennd. Það eru frú Eliza Reid, rithöfundur og forsetafrú Íslands, og frú Jenni Haukio, ljóðskáld og forsetafrú Finnlands. Viðburðurinn hefst kl. 10:20 og er áætlað að hann standi í rúma klukkustund, allt að einum og hálfum tíma, með stuttu hléi. Jenni Haukio hefur sent frá sér þrjár ljóðabækur og Eliza Reid vakti mikla athygli með bókinni Sprökkum í fyrra. Í Norræna húsinu hyggjast þær ræða saman um bókmenntaarf þjóðanna og hvernig þjóðerniskennd og sjálfsmynd okkar getur mótast með honum og hvernig við horfum til framtíðar.

Í tilkynningu frá Norræna húsinu segir: „Ísland og Finnland eiga hvort um sig ríkan bókmenntaarf, allt frá þjóðsögum og sögum, frá Kalevala og öðrum epískum ljóðum til norrænna samtímabókmennta. Að hve miklu leyti hafa bókmenntir mótað þjóðerniskennd okkar og hvernig skilar sú sjálfsmynd sér inn í framtíðina?“

Þá munu rithöfundarnir Gerður Kristný og Eiríkur Örn Norðdahl einnig taka þátt í umræðunum sem stýrt verður af Sabinu Westerholm, forstöðukonu Norræna hússins.

Eftir viðburðinn verður boðið upp á kaffi og léttar veitingar frá veitingastaðnum SÓNÓ.