Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, varaði við því í fyrrakvöld að kínverskum stjórnvöldum lægi nú meira á en áður að ná eyjunni Taívan undir sitt vald, með góðu eða illu. Sagði Blinken að Xi Jinping, forseti Kína, hefði ýtt undir meiri ágengni kínverskra stjórnvalda en fyrri leiðtogar.
Xi hét því í ræðu sinni á flokksþingi kínverska kommúnistaflokksins á sunnudaginn að hann myndi „endursameina“ Kína og Taívan. Blinken sagði að Kínastjórn beitti nú meiri kúgun heima fyrir og að hún væri ágengari í utanríkismálum, og að hvort tveggja væri áskorun við þjóðarhagsmuni og gildi Bandaríkjanna. Þá sagði Blinken að Xi hefði skapað mikla spennu á Taívan-sundi með því að breyta afstöðu Kínverja til þess jafnvægis sem þar hefði verið komið á.
Yfirmenn í Bandaríkjaher hafa áður varað við því að Kínverjar séu að byggja upp her sinn, og að þeir gætu brátt haft getuna til þess að hefja innrás í eyjuna, sem þeir segja að tilheyri sér.
Wang Wenbin, talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins, sagði í gær að Bandaríkjastjórn væri sjálf sek um að hafa breytt afstöðu sinni til Taívan, og nefndi hann nýlega heimsókn Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings til eyjunnar, sem og vopnasölusamninga sem Bandaríkjamenn hafa gert við yfirvöld á eyjunni.
Sagði Wenbin að friðsöm lausn á deilunum um Taívan myndi ekki fást með því að ýta undir „aðskilnaðarstefnu“ Taívana.
Gert er ráð fyrir að Xi muni funda með Joe Biden Bandaríkjaforseta í næsta mánuði, en þá munu þeir báðir sækja leiðtogafund G20-ríkjanna í Balí.