Ísey skyrbar hverfur úr verslunum Hagkaups í Kringlunni og Skeifunni.
Ísey skyrbar hverfur úr verslunum Hagkaups í Kringlunni og Skeifunni.
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Hagkaup hefur sagt upp leigusamningi við rekstraraðila Ísey Skyrbars í þremur verslunum fyrirtækisins.

Mörgum gestum Smáralindar brá í brún nú í upphafi vikunnar þegar viðskiptavinir Ísey Skyrbars gripu í tómt. Veitingahúsinu hefur verið lokað í kjölfar þess að endi var bundinn á leigusamning milli rekstraraðila staðarins og Hagkaups, sem hefur forræði á rýminu. Sömu sögu má segja um samninga fyrirtækjanna í Kringlunni og Skeifunni.

Fyrirtækið Skyrboozt ehf., sem er m.a. í eigu Kristins Sigurjónssonar og Sigrúnar Magnúsdóttur, hefur rekið staðina þrjá undir merkjum Íseyjar skyrbars. Heimildir ViðskiptaMoggans herma að þau muni einnig hafa með höndum rekstur samnefnds staðar í nýju mathallarrými í Kringlunni. Athygli vekur að staðirnir sem nú hefur verið lokað hafa aðeins verið starfræktir frá því á fyrri hluta árs 2020. Heimildir Morgunblaðsins herma að það hafi verið ákvörðun Haga, móðurfélags Hagkaups, að binda enda á leigusamningana, enda hafi náið samstarf komist á milli Íseyjar skyrbars um mitt ár 2020 þegar N1, dótturfélag Festar, helsta keppinautar Haga, festi kaup á rekstri Íseyjar skyrbars á þjónustustöðvum sínum. Seljandi var Skyrboozt ehf.

Ekki vitað hvað kemur í staðinn

Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvað Hagkaup ætlast fyrir með veitingarýmið sem losnar, nú þegar Ísey skyrbar hefur lokað dyrum sínum í Hagkaupsverslununum þremur.

Ársreikningur Skyrboozt ehf. fyrir árið 2021 hefur ekki verið birtur á heimasíðu Skattsins. Fyrirtækið hagnaðist hins vegar um 33 milljónir króna á árinu 2020 og vörusala nam 408 milljónum króna.

Skyrbarirnar sem reknir eru í tengslum við starfsemi N1-stöðvanna eru orðnir sjö talsins, fjórir í Reykjavík, einn í Hafnarfirði, í Borgarnesi og Hveragerði. Þá er Ísey skyrbar einnig í rekstri í Vestmannaeyjum og í mathöllinni á Selfossi, þar sem skyrsafnið er einnig starfrækt.

ViðskiptaMogginn leitaði til Sigríðar Steinunnar Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Íseyjar skyrbars, sem á vörumerkið sem staðirnir eru reknir undir og spurði hvort ákveðið hefði verið með nýjar staðsetningar í stað þeirra sem nú hefur verið lokað í Smáralind og Skeifunni. Segir hún að það liggi ekki fyrir. Hún nefnir hins vegar að fyrirtækið sé í sókn, m.a. í Hollandi þar sem búið er að opna stað undir merkjum þess og að stefnan sé sett á að opna fleiri þar í landi innan skamms.