Tímamót Lagasmiðurinn og gítarleikarinn Guðmundur Jónsson.
Tímamót Lagasmiðurinn og gítarleikarinn Guðmundur Jónsson. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Um þessar mundir eru 40 ár síðan lagasmiðurinn og gítarleikarinn Guðmundur Jónsson skrifaði undir fyrsta plötusamning sinn. „Þetta voru mikil vatnaskil, stór stund að fá slíkan samning fyrir ungan gítarleikara blautan á bak við eyrun, því samningur skildi á milli manna og drengja á þessum tímum,“ segir hann. Guðmundur var þá í hljómsveitinni Kikk, ásamt Siggu Beinteins og fleiri góðum félögum. „Við vorum tvítug og fengum plötusamning hjá Steinari Berg og gáfum út eina EP-plötu. Þá byrjaði boltinn að rúlla, við komumst út úr bílskúrnum og í eitthvað stærra og meira.“

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Um þessar mundir eru 40 ár síðan lagasmiðurinn og gítarleikarinn Guðmundur Jónsson skrifaði undir fyrsta plötusamning sinn. „Þetta voru mikil vatnaskil, stór stund að fá slíkan samning fyrir ungan gítarleikara blautan á bak við eyrun, því samningur skildi á milli manna og drengja á þessum tímum,“ segir hann. Guðmundur var þá í hljómsveitinni Kikk, ásamt Siggu Beinteins og fleiri góðum félögum. „Við vorum tvítug og fengum plötusamning hjá Steinari Berg og gáfum út eina EP-plötu. Þá byrjaði boltinn að rúlla, við komumst út úr bílskúrnum og í eitthvað stærra og meira.“

Lagasmiðurinn varð sextugur 11. október og heldur upp á það og fyrrnefnd tímamót með stórtónleikum í Háskólabíói laugardaginn 22. október, en miðar eru komnir í sölu (tix.is). Ásamt Guðmundi verða Ingvar Alfreðsson hljómborðsleikari, Benedikt Brynleifsson, trommari og slagverksleikari, Róbert Þorhallsson bassi, Samúel Samúelsson básúnuleikari, Kjartan Hákonarson trompetleikari og Steinar Sigurðarson saxófónleikari í grunnhljómsveitinni á tónleikunum. Með henni syngja Jóhanna Guðrún, Magni Ásgeirsson, Sverrir Bergmann og Alma Rut en auk þess kemur fram rokksveitin Nykur og GG blús, sem Guðmundur hefur spilað með undanfarin ár. „Þetta er landsliðsfólk í tónlistarbransanum og auk þess koma veglegir og óvæntir leynigestir fram, allt gert til þess að gera þetta skemmtilegt,“ segir Guðmundur, sem var í Sálinni hans Jóns míns í þrjá áratugi. „Flest lögin verða úr ranni Sálarinnar, hryggjarstykkinu í höfundarverki mínu, en svo lauma ég öðrum lögum inn á milli.“

Afkastamikill

Sálin gaf út 14 plötur á löngum ferli og eru flest lögin eftir Guðmund. „Stefán Hilmarsson og mínir gömlu vinir í Sálinni eru auðvitað mínir þýðingarmestu samverkamenn á ferlinum og ég er afskaplega stoltur af því sem liggur eftir okkur. Allar minningarnar og reynslan hafa þroskað mig mikið og nú, þegar aðeins er farið að fenna í sporin, held ég að Sálin hafi bara verið drullugott band sem margir áttu samleið með. Eftir situr slatti af flottum ópusum sem svo sannarlega fá að hljóma á afmælistónleikunum með öllu þessu flotta liði sem er svo elskulegt að taka þátt í þessu með mér.“

Tónlistin var ríkur þáttur á uppvaxtarárum Guðmundar á Skagaströnd. Frá því hann lék í skólahljómsveitinni fyrir norðan hefur hann komið víða við og spilað með mörgum tónlistarmönnum, en þetta verða fyrstu tónleikarnir þar sem hann er í aðalhlutverki. „Ég hef fyrst og fremst reynt að vera góður liðsmaður í hljómsveitum, verið svona hljómsveitagæi, og það er sjaldan minn karakter að berja mér á brjóst og stíga fram fyrir aðra, hef alltaf verið frekar nægjusamur og hlédrægur en þó mjög ákveðinn þegar kemur að tónlistinni, er alveg með heilbrigt egó. En ég hef líka verið forvitinn, verið duglegur að fara út úr þægindarammanum og þess vegna gríp ég tækifærið og held svona stórtónleika. Mikil vinna en verður ábyggilega skemmtilegt.“

Ekki var mikið um að vera í tónlistarlífinu á Skagaströnd þegar Guðmundur ólst þar upp. Hann brann fyrir rokk- og popptónlist, en taldi sig ekki eiga möguleika á því sviði og datt í hug að verða kannski tónmenntakennari.

Besta tilfinningin

„Þegar ég kom í bæinn 17 ára og fór að þora að máta mig við aðra sá ég að ég átti alveg möguleika jafnt og aðrir. Ég var alltaf vinnusamur og æfingaglaður og vildi ná árangri í því sem ég hafði áhuga á og svo var pönkið líka að ryðja sér til rúms á þessum tíma og mottóið var að gera frekar en að geta! Tónlistarbröltið er ennþá skemmtilegt, stundum basl, en samt eitthvað sem ég verð að gera og er fyrir löngu búinn að sætta mig við það. Svo koma augnablikin þegar ég næ að hreyfa við fólki með tónlist sem ég hef skapað. Það er besta tilfinning í heimi – magnaður galdur sem dofnar aldrei. Litla stefið sem er í kollinum á mér í dag, í vinnsluminninu hverju sinni, er alltaf besta lagið sem ég hef samið og ég verð að fóstra það og koma því á legg. Kannski er það fullkomna popplagið sem ég hef verið að eltast við alla mína hunds- og kattartíð.“