Hrafnhildur Haraldsdóttir fæddist á Patreksfirði 9. október 1954. Hún lést á heimili sínu 5. október 2022.

Foreldrar hennar voru Haraldur Ólafsson, f. 25. maí 1931 í Reykjavík, d. 14. ágúst 2005, og Gróa Ólafsdóttir, f. 9. nóvember 1934 í Litla-Laugardal í Tálknafirði, d. 2. ágúst 2016. Börn þeirra eru: Hrafnhildur, d. 2022, Aðalheiður Hagar, Þórunn, d. 2022, Sesselja, Ólafur, Oddur, Orri, Heimir og Bylgja.

Sambýlismaður hennar: Ágúst Magnússon.

Dætur hennar eru: 1) Harpa Diego Hrafnhildardóttir, börn hennar Ásgeir, Sigrún Eva, Helena Rut og Mikael. 2) Elva Johnson, eiginmaður hennar Mark Johnson, börn þeirra Daniella, Emma Maria, Jonah og Aiden.

Elsku Hrafnhildur var elst okkar og stórt skarð var höggvið í systkinahópinn þegar hún skyndilega kvaddi okkur aðfaranótt 5. október, aðeins fjórum dögum fyrir afmælið sitt og í hennar anda áttum við þá yndislega samveru með sætu bakkelsi.

Eins og elstu systur sæmir bar hún snemma ábyrgð gagnvart yngri systkinunum, dugleg að hjálpa mömmu þegar pabbi stundaði sjóinn. Ekki vílaði hún fyrir sér að taka þátt í heimilisstörfunum heima á Patró, læsti húsinu meðan hún þreif það hátt og lágt og var þá nálægðin við ömmu og afa í Krók góð, þyrftum við t.d. á salernið. Alla tíð nutum við góðs af verkgleði hennar, í öllum boðum greip hún í uppvask til að létta undir með okkur og helst skúraði hún sig út úr veislunum.

Í æsku gekk hún í svefni og birtist hún eitt sinn hjá ömmu í Krók, þar ætlaði hún að fá lánaðan sykur. Kannski var það undanfari þess að hún elskaði sætindi. Kom fyrir að hana langaði frekar í gjafir sem systur hennar fengu, en oftast lék þó allt í lyndi og sem dæmi bjuggu þær til tungumál fyrir dúkkulísurnar.

Hún var glysgjörn, bar ætíð skartgripi, passaði upp á að vera fín í tauinu og á háum hælum, aldrei hefði hún látið sjá sig í ljótum strigaskóm. Naglalakkið var ómissandi og ekki fór hún út án þess að „setja upp andlitið“, mála sig. Sólböð elskaði hún, svo brúnkan yrði jöfn þá tók hún tímann og sneri sér reglulega.

Gott var að koma til Hrafnhildar, allt hreint og strokið og ilmaði vel, fór hún ekki út án þess að þessir hlutir væru í lagi. Með kaffinu átti hún alltaf gott og nammiskálar voru á borðum, enda sjálf mikill sælkeri. Eins pössuðum við að eiga með kaffinu þegar hennar var von, hlupum jafnvel í búðina, henni líkaði svo vel að fá gott með kaffinu. Alltaf var notalegt að fá hana í heimsókn, stundum laumaði hún einhverju lítilræði að litlu frændsystkinum sínum þegar hún kíkti í kaffi. Hún var mjög barngóð, börnin hændust að henni og litu upp til hennar.

Hún elskaði að fara í heimsóknir og á mannamót. Hafði gaman af ferðalögum, útilegum og Ameríkuferðunum til Elvu. Var mikið fyrir tónlist og dansaði við hana, sagði að það væri sín líkamsrækt. Alltaf til í fjörið og grínið, fannst gaman að láta taka myndir af sér. Átti auðvelt með að segja skoðanir sínar og hreinskilni hennar gat gert búðarferðir með henni pínlegar t.d. fyrir eina Ameríkuferðina þegar hún sagði við afgreiðslufólkið að þetta keypti hún ekki svona dýrt og sagðist bara kaupa þetta í Ameríku.

Hrafnhildur okkar hafði glaða lund og var hláturmild, einu dagarnir sem ekki var hægt að vera nálægt henni voru þegar hún hætti að reykja í þrjá daga.

Systir okkar var afskaplega dugleg og ósérhlífin í lífinu, því miður var hún kölluð annað áður en hún náði að njóta efri áranna. Henni þótti vænt um fólkið sitt og var dugleg að afla frétta af sínum og var til staðar ef þurfti. Reglulega hringdi hún og endaði á að segja: „Ég elska þig.“

„Við elskum þig líka.“

Hugur okkar er hjá elsku Gústa, Elvu, Hörpu og barnabörnum.

Megi góðar minningar veita ykkur styrk í sorginni.

Systkini Hrafnhildar og fjölskyldur,

Aðalheiður Hagar, Sesselja, Ólafur, Oddur, Orri,

Heimir og Bylgja.

Habba er dáin. Þessi erfiðu skilaboð fékk ég til Portúgals þar sem ég dvel nú um þessar mundir. Það fer margt um hugann þegar ævi einnar af mínum elstu vinkonum er á enda runnin.

Við ólumst upp í sömu götu vestur á Patró og deildum ótal mörgu á þessum mikilvægu mótunarárum okkar. Í byrjun voru þetta hlutir sem einkenndu uppvöxt barna í litlu sjávarþorpi á 6. og 7. áratug síðustu aldar og síðar tóku við unglingsárin og það sem þeim fylgdi.

Ótal leikir með öðrum krökkum úr nágrenninu, búaleikir í hlíðinni fyrir ofan bæinn, að veiða kola og marhnút í fjörunni, berjaferðir inn í Mikladal. Svona væri hægt að telja nær endalaust upp. Stundum var farið í útilegur og var harðfiskur sem pabbi ykkar systkina verkaði oftar en ekki með í för.

Við fórum ungar að vinna í frystihúsinu á Vatneyrinni og fengum útborgað á fimmtudögum og héldum upp á það með því að kaupa Lindu-súkkulaði í Vatneyrarbúðinni í kaffitímanum. Seinna man ég að við héngum mikið heima hjá þér á kvöldin og hlustuðum á Gilbert O'Sullivan, Cat Stevens, B.G. og Ingibjörgu, Geirmund Valtýsson og fleiri góða tónlistarflytjendur.

Fyrsta kærastann og fyrsta barnið eignuðumst við á svipuðum tíma og eftir það varð allt fullorðins. Okkur tókst þó að halda sambandi í gegnum árin og alltaf var það hlý og notaleg tilfinning að vita af þeirri vináttu handan við hornið eða hinum megin við fjallið. Fyrir það vil ég þakka og óska þér af öllu hjarta hlýrrar og góðrar heimkomu þarna hinum megin við regnbogann.

Fólkinu þínu votta ég mína dýpstu samúð.

Blessuð sé minning Hrafnhildar Haraldsdóttur.

Ingibjörg Ólöf

Sigurðardóttir

(Inga Lóa).