Ingólfur Ómar sendi mér stöku: Angur bugað alúð fær andinn flugið tekur. Eflist dugur, gáski grær, gleðin huga vekur.

Ingólfur Ómar sendi mér stöku:

Angur bugað alúð fær

andinn flugið tekur.

Eflist dugur, gáski grær,

gleðin huga vekur.

Á Boðnarmiði segir Guðmundur Arnfinnsson „Smáfréttir (samhent)“:

Svangur át ég salta reið,

Sokka yfir fljótið reið,

Nonni möskva á netið reið,

Nanna skyri sletti reið.

Jón Atli Játvarðarson yrkir þar sem „þróun í manndrápum var skoðuð hjá Háskólanum á Akureyri“.

Allt er þetta inn' á skrá,

ei við þurfum segl að rifa.

Manndráp eru mjög svo fá

miðað við þá sem fá að lifa.

Pétur Stefánsson kveður:

Svona er líka mannsins mynd,

menn af græðgi hoppa.

Hvar sem sést í hræ af kind

hrafnar glaðir kroppa.

Enn kveður hann:

Á skáldahörpu leik ég lag

litla fyrir borgun.

Ég orti í gær og yrki í dag

og yrki líka á morgun.

Philip Vogler Egilsstöðum bætir við:

Ljóð hef fyrir lítið birt,

löngum tímum eytt.

(Á milli okkar!) mest hef hirt

minna en ekki neitt.

Davíð Hjálmar Haraldsson sá í fréttum að hann væri bara að hluta til Homo sapiens:

Mig langar svo í feita mammútmjólk,

mýkra flet og spúsu innst í ranni.

Með lurki mínum lem ég annað fólk.

Mér líður eins og Neanderdalsmanni.

Jón Jens Kristjánsson skrifar: „Ágreiningur varð í Reykholtsdal fyrr í haust út af lokun á heitu vatni til nokkurra bæja og sr. Geir sakaður um að stýra flæði þess án heimildar“:

Kristur breytti vatni í vín

því veisla stóð tæpt og þörfin brýn

en hérna er einn sem að hefur breytt

heitu vatni í ekki neitt.

Gunnar J. Straumland yrkir „Vetrarvísur – víxlhendar“:

Norðanátt um nætur hvín,

nötra vættir, fretar raftur.

Nú er fátt um nætursýn,

nú er mættur vetur – aftur.

Þingið byrjar, þruglið hefst,

þrasið metið, rifnar kjaftur.

Röflið kyrjað, ruglið gefst,

rosavetur lifnar – aftur.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is