Agla Bjarnadóttir fæddist í Hafnarfirði 23. apríl 1942. Hún lést 1. október 2022 á Landspítalanum. Agla var dóttir Egils Guðmundssonar og Guðmundu Guðmundsdóttur en hann lést árið 1941.

Systur Öglu: Katrín, f. 1934, d. 2018, og Lea, f. 1938.

Agla var ættleidd af hjónunum Bjarna Árnasyni og Sigurlaugu Auðunsdóttur og ólst upp hjá þeim á Austurgötu 7 í Hafnarfirði. Agla giftist árið 1962 Erni Sigurði Agnarssyni, f. 1940, d. 1993, og eignuðust þau tvo syni:

1. Bjarni, f. 11. apríl 1962, giftur Sigurlaugu Sverrisdóttur, börn þeirra eru Egill Örn, Elva Björk og Arnar.

2. Agnar Helgi, f. 31. mars 1966, sambýliskona Lilja Ólöf Sigurðardóttir, dóttir þeirra er Agla María. Agnar á dóttur úr fyrra hjónabandi, Leu, og fósturdæturnar Tinnu og Salvöru. Lilja á soninn Daníel Örn úr fyrra sambandi.

Agla starfaði lengst af á leikskólanum Víðivöllum í Hafnarfirði.

Útför Öglu hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Tengdamóðir mín Agla Bjarnadóttir hefur kvatt okkur og langar mig að minnast hennar í örfáum orðum.

Var ég nýorðin 17 ára þegar ég fór fyrst að hefja komur mínar á heimili Öglu og Adda á Miðvanginum. Áttum við Bjarni eftir að eiga margar góðar stundir á Miðvanginum enda þau ávallt góð heim að sækja. Síðar áttum við Bjarni eftir að flytja á Miðvanginn með börnin okkar þrjú eða rúmu ári eftir að Örn lést. Var hún ánægð með að húsið sem þau Örn og Agla reistu yrði áfram í fjölskyldunni og kom hún ósjaldan til okkar, ýmist þegar hún var búin að sinna erindum þegar hún var enn keyrandi eða fékk sér göngu yfir götuna. Síðustu mánuðina voru skrefin orðin þung en hún var þá flutt á Hjallabraut 33 þar sem hún undi hag sínum vel.

Rétt fimmtug varð Agla ekkja þegar Addi hennar kvaddi eftir stutt veikindi. Hún bar höfuðið hátt í sorginni og bar harm sinn í hljóði. Agla var ekki mikið fyrir að kvarta þótt illa gengi eins og í hennar veikindum, þurfti stundum að hafa orð á því við lækna og hjúkrunarfólk sem að hennar veikindum komu að hún væri jafnvel verri en hún léti uppi. Agla nefndi það aðeins nokkrum dögum áður en hún lést að þetta færi bara eins og það færi, jafnvel hefur hún vitað í hvað stefndi og væri tilbúin að hitta Adda sinn að nýju. Vil ég trúa því að þau séu núna saman og öll hittumst við að nýju.

En kveðjustundin er runnin upp, Agla lést á Landspítalanum eftir stutta dvöl og var umönnun starfsmanna A2 með eindæmum hugulsöm. Líklega hefði hún ekki viljað hafa þetta á neinn annan veg en að kveðja með reisn og Agla mín farin á nýjar slóðir í faðm annarra ástvina. Vil ég þakka þér mín kæra fyrir liðnar stundir.

Sigurlaug.