Atvinna Lóð Asco Harvester er í nágrenni Skipavíkur sem sést fyrir miðri mynd. 140 metrar eru frá væntanlegri vinnslu að næstu íbúðabyggð.
Atvinna Lóð Asco Harvester er í nágrenni Skipavíkur sem sést fyrir miðri mynd. 140 metrar eru frá væntanlegri vinnslu að næstu íbúðabyggð.
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Fjórar kærur vegna áforma um uppbyggingu þörungavinnslu á hafnarsvæði Skipavíkur í Stykkishólmi hafa borist úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Fjórar kærur vegna áforma um uppbyggingu þörungavinnslu á hafnarsvæði Skipavíkur í Stykkishólmi hafa borist úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Fram kemur á vef Stykkishólmsbæjar að þær byggist annars vegar á því að ekki liggi fyrir deiliskipulag fyrir svæðið og ekki hafi farið fram formleg grenndarkynning fyrir íbúa við Nestún. Hins vegar er lýst áhyggjum af því að lyktar- og hljóðmengunar af starfseminni gæti orðið vart í nágrenninu. Óháð rannsókn sem gerð var fyrir bæjarfélagið sýnir þó að ekki sé hætta á slíku. Vegna kærumálanna hefur Stykkishólmsbær tekið saman greinargerð um úthlutun lóðarinnar og þróun málsins og birt á heimasíðu sinni. Fram kemur að fyrirtækið Asco Harvester ehf. sótti um lóð á umræddu svæði snemma árs og lýsti áformum um græna atvinnuuppbyggingu í Stykkishólmi, byggða á sjálfbærri öflun og vinnslu sjávarþörunga úr Breiðafirði og fullvinnslu afurða. Úthlutun lóðarinnar var samþykkt samhljóða og var byggingarleyfi gefið út 14. þessa mánaðar. Jarðvinna mun vera hafin.

Fram kemur í greinargerðinni sem fyrr segir að íbúar í grennd við hafnarsvæðið hafi haft áhyggjur vegna hugsanlegra áhrifa af starfseminni. Sveitarfélagið leitaði til Verkís um óháða úttekt á fyrirhuguðu verkefni, sérstaklega með tilliti til þess hvort hávaði eða lykt gæti borist að íbúðabyggð.

Vindurinn blæs frá bænum

Í niðurstöðu verkfræðistofunnar kemur fram að vinnslan verður í 140 metra fjarlægð frá íbúðabyggð og auðvelt sé að uppfylla kröfur um hljóðstig frá starfseminni. Jafnframt er bent á að ríkjandi vindátt sé úr suðaustri yfir íbúðabyggð og að Búðanesi. Þá telur Verkís litlar líkur á því að lykt valdi óþægindum á íbúðasvæðum því fyrirhugaðar séu ráðstafanir til að draga úr útblæstri, auk þess sem vindurinn stendur að jafnaði frá bænum að þörungavinnslunni.