Á morgun verður kosið í stjórn Sýnar í þriðja og líklega síðasta sinn á þessu ári. Atburðarásin í kringum ítrekuð stjórnarkjör hefur verið óvenjuleg og óheppileg fyrir félagið en ekki endilega fyrir hlutabréfamarkaðinn í heild sinni.

Á morgun verður kosið í stjórn Sýnar í þriðja og líklega síðasta sinn á þessu ári. Atburðarásin í kringum ítrekuð stjórnarkjör hefur verið óvenjuleg og óheppileg fyrir félagið en ekki endilega fyrir hlutabréfamarkaðinn í heild sinni. Fyrir félagið hefur þetta þýtt óvissu sem aldrei er æskileg en út af fyrir sig er skiljanlegt að nýir stórir hluthafar vilji hafa meira að segja um hvert félagið stefnir. Ítrekaðir hluthafafundir og stjórnarkjör eru þó ekki til marks um að yfirtaka eigi ekki að vera „óvinveitt“ eins og fram kom í aðdraganda síðasta hluthafafundar, þó að vissulega megi deila um hvernig skilja eigi það hugtak í þessu sambandi. Hún er í það minnsta til marks um að nýir hluthafar ætla sér að taka stjórnina, hvernig svo sem til tekst á morgun.

Aðalatriðið fyrir hluthafa er þó að á fundinum fáist botn í það hver eða hverjir stjórna félaginu í raun því að niðurstaðan í ágúst og það sem síðar hefur gerst er ekki endilega sannfærandi fyrir þá sem á horfa af markaðnum og tæplega til að auðvelda þeim sem stýra félaginu dagleg störf.

Ýmislegt er umhugsunarvert í því sem á undan er gengið, til að mynda sú staðreynd að tveir stjórnarmanna, þar með talinn stjórnarformaðurinn, voru kosnir með sáralitlu atkvæðamagni sem byggðist á kynjakvóta og klækjum lífeyrissjóðanna sem vekur spurningar um hvort þeir hafi haft samráð sín á milli í stjórnarkjörinu. Þetta dregur fram þá staðreynd að kynjakvótar eru ekki mjög lýðræðislegir, en mikilvægt er að í almenningshlutafélögum fái atkvæðavægi að ráða.

Stjórnun almenningshlutafélaga hefur verið umdeilanleg á síðustu árum. Lífeyrissjóðir eiga stóra hluti en hafa lítið beitt sér þar til nýlega í einstaka tilvikum og aðrir hafa því getað stýrt félögum í krafti lítils eignarhlutar. Það er út af fyrir sig ekki heppilegt. Þá er ekki heldur heppilegt hve lítið er um að raunverulegir eigendur eða fulltrúar þeirra sitji í stjórnum en mikið um „óháða“ stjórnarmenn.

Átökin um stjórn Sýnar geta haft jákvæð áhrif á þessi atriði og orðið til þess að hlutabréfamarkaðurinn hér verði virkari og raunverulegir eigendur hafi meira um eignir sínar að segja. Verði það niðurstaðan getur þessi undarlega atburðarás þrátt fyrir allt orðið til góðs.