Úthlutað var í gær úr Styrktarsjóði geðheilbrigðismála til 17 verkefna. Þetta er önnur úthlutun sjóðsins, sem Geðhjálp stofnaði eftir sölu á fasteigninni við Túngötu 7 í Reykjavík. Er sjóðnum ætlað að stuðla að framförum í geðheilbrigðismálum, með því að veita styrki til verkefna sem geta bætt geðheilbrigði landsmanna og/eða skilning þar á.
Alls var úthlutað 14 milljónum króna úr sjóðnum og nam hver styrkur frá 100 þús. kr. til 2 milljóna króna. Alls bárust 30 umsóknir um styrki.
Hæsta styrkinn, 2 milljónir, fékk Olga Khodos hjá Fjölskyldumiðstöðinni í Hátúni til að veita úkraínsku flóttafólki á Íslandi sálrænan stuðning. Því gefst kostur á að koma í miðstöðina alla virka daga frá kl. 10-15 og fá stuðning á móðurmáli sínu.
Þá fá Bændasamtök Íslands styrk upp á 1,5 milljónir til að vinna fræðslumyndband til sálgæslu fyrir bændur. Í myndbandinu segja bændur, sem lent hafa í áföllum, sínar reynslusögur.
Af öðrum verkefnum má nefna stuðningshóp fyrir ungmenni sem eiga foreldra með geðrænan vanda. Ein milljón var veitt til hópsins.