Deilur um landamerki hafa verið mjög tíðar hjer á landi, bæði að fornu og nýju. Hafa mörg dómsmál út af þeim risið og oft jafnvel fjandskapur einstakra manna á meðal.“
Svo segir í greinargerð með frumvarpi því sem varð að núgildandi landamerkjalögum sem eru frá árinu 1919. Núna, 103 árum síðar, er enn mikið um landamerkjadeilur, dómsmál og jafnvel fjandskap því tengdan.
Um merki jarða og annarra fasteigna hefur verið fjallað með ýmsum hætti í gegnum tíðina í íslenskri löggjöf. Í fornöld voru takmörkuð ákvæði um landamerki í Grágás, fyrstu lögbók Íslendinga, m.a. um löggarða og einnig voru takmörkuð ákvæði um landamerki í Jónsbók sem tók gildi síðar. Árið 1882 voru sett landamerkjalög og fyrst mælt fyrir um það að landeigendur skyldu gera landamerkjaskrár og í kjölfarið voru gerðar slíkar skrár fyrir margar jarðir en þó alls ekki allar. Einnig var misjafnt hversu vel var vandað til landamerkjalýsinganna og hvort nauðsynlegra undirskrifta var aflað. Vegna slíkra annmarka voru núgildandi lög sett.
Nú hafa enn á ný verið samþykktar á Alþingi nýjar lagareglur um landamerki. Lögin frá 1919 verða felld úr gildi og í stað þeirra kemur nýr kafli í lög um skráningu og mat fasteigna sem mun heita „I. kafli A, Merki fasteigna“. Þessar breytingar öðlast gildi 1. janúar 2024. Enn á að reyna að koma þessum málum í betra horf. Þegar lögin hafa öðlast gildi verður eigendum fasteigna gert skylt að gera merkjalýsingu um fasteignir sínar og láta draga merkin upp með hnitum enda liggi ekki fyrir þinglýst og glögg afmörkun. Þá er mælt fyrir um að gefin verði út sérstök leyfi til þeirra sem einir mega gera merkjalýsingar og nokkuð ítarleg ákvæði um skilyrði sem þessir menn þurfa að uppfylla og hvernig merkjalýsingar skuli úr garði gerðar.
Eins og í núgildandi landamerkjalögum verður áfram mælt fyrir um að ef upp kemur ágreiningur milli eigenda um merki milli fasteigna geti þeir leitað sátta fyrir milligöngu sýslumanns. Það sem breytist er að framvegis verður slík sáttameðferð nauðsynlegur undanfari þess að höfðað verði mál fyrir dómi um merki fasteigna. Þess vegna má velta fyrir sér hvort landeigendur sem eiga í deilum vegna landamerkja og einkum ef milli þeirra ríkir fjandskapur og þeir sjá ekki fram á að nokkur leið sé að sætta þær deilur eigi að drífa sig og höfða mál fyrir dómi fyrir 1. janúar 2024 áður en lögin öðlast gildi. Þannig væri hægt að losna við kostnað og tíma sem færi í sáttameðferð hjá sýslumanni en mælt er fyrir um það að um þau mál sem hafin eru hjá dómstólum fyrir gildistöku nýju laganna skuli fara samkvæmt fyrirmælum laga fyrir gildistökuna.
Þó það sé alltaf eftirsjá að lögum sem eru orðin meira en hundrað ára gömul þá er þessi lagasetning líklega til bóta. Í dag er farið að bera á dæmum um að nákvæm landamerki geti skipt máli vegna mikils ferðamannastraums og framkvæmda á ferðamannastöðum. Hnitasetning nákvæmari og tryggari leið til að setja niður merki en hinar fornu aðferðir.
Skylda til hnitasetningar og skráningar landamerkja kann að koma mörgum að gagni. Sérstaklega þeim sem eiga löndin og það má spyrja sig hvort nauðsynlegt sé að skylda nágranna til að láta hnitasetja landamerki sín á milli. Það eru þeir sjálfir sem bera hallann af mögulegri ónákvæmni eða skorti á skráningu. Svarið er þó líklega að skráningin þjónar einnig þeim tilgangi að auðvelda skráningu á stærð og þar með skattheimtu, eftirlit, framkvæmd reglna um meðferð lands og ýmis önnur afskipti hins opinbera.