Premièrearmbandsúrið frá Chanel.
Premièrearmbandsúrið frá Chanel. — Ljósmynd/Chanel
Það má ekki segja það upphátt, en allir vita að karlmenn nota fín úr til að sýna hvar þeir standa í goggunarröðinni.

Það má ekki segja það upphátt, en allir vita að karlmenn nota fín úr til að sýna hvar þeir standa í goggunarröðinni. Dýrt og vandað úr segir heilmikið um smekk eigandans og hvar hann er staddur í lífinu og ekki skrítið að margir ungir menn láta sig dreyma um að eignast góðan Rólex einmitt til að geta sýnt heiminum að þeir hafi náð að klofa yfir tiltekinn fjárhagslegan þröskuld og séu á leið upp metorðastigann. Þeir myndu seint fást til að játa það en þegar jakkafataklæddir áhrifamenn setjast niður við fundarborð gjóta þeir augum á úlnliði sessunautanna og mæla hver annan út byggt á því hver skartar veglegum Hublot, rándýrum Audemars Piguet eða fágætum Patek Philippe.

Því miður áttu konur – lengst af – erfitt með að taka þátt í þessum leik og voru kvenúrin frá þekktustu framleiðendunum lítið annað en minni útgáfur af karlúrunum og þess vegna ekkert sérstaklega kvenleg. Franska tískuhúsið Chanel hristi því rækilega upp í markaðinum, og úrasamfélaginu, árið 1987 þegar hulunni var svipt af Première-úrinu.

Première sló heldur betur í gegn og varð strax ómissandi aukahlutur, enda einkar fágað, fjölhæft og fallegt úr sem konur gátu borið við öll tækifæri. Chanel hefur núna endurvakið þetta merkilega úr, með upprunalega útlitinu, og bendir allt til að viðtökurnar verði engu lakari nú en fyrir 35 árum.

Úr fyrir öll tilefni

Première er mun líkara armbandi en úri. Skífan sjálf er smá, stílhrein og laus við allar tölur en ólin er vegleg, gerð úr gullhúðaðri stálkeðju sem búið er að þræða með svartri leðuról. Allar konur sem fylgjast vel með tískunni vita hvaðan útlit ólarinnar er fengið, því margar handtöskur frá Chanel skarta sams konar keðju.

Skífan er áttstrendingur í sömu hlutföllum og tappinn á sígildum ilmvatnsflöskum Chanel, en sagan segir að Coco Chanel hafi fengið hugmyndinna að lögun tappanna að láni frá útlínum torgsins Place Vendôme mitt í París þegar hún bjó á Ritz-hótelinu sem vísar einmitt út á torgið.

Útkoman er stílhreinn og fjölhæfur aukahlutur sem passar vel við hvort heldur sem er íburðarmikinn síðkjól, alvörugefna vinnudragt eða afslappaðan hversdagsfatnað. Kostar Première édition originale 5.500 evrur í nýuppgerðri verslun Chanel við Place Vendôme. Fleiri útgáfur af úrinu eru í boði, s.s. með silfurhúð, með gúmmíól, og með langri keðjuól sem má vefja þrisvar um úlnliðinn. Þeir lesendur sem eiga sand af seðlum ættu að skoða demants- og perluútfærslurnar sem kosta frá 75.000 evrum. ai@mbl.is