[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
*Selfoss vann sinn annan sigur í Olísdeild karla í handbolta á leiktíðinni er liðið heimsótti nýliða Harðar á Ísafjörð í gærkvöldi. Urðu lokatölur 35:32. Einar Sverrisson fór á kostum fyrir Selfoss og skoraði 13 mörk.

*Selfoss vann sinn annan sigur í Olísdeild karla í handbolta á leiktíðinni er liðið heimsótti nýliða Harðar á Ísafjörð í gærkvöldi. Urðu lokatölur 35:32. Einar Sverrisson fór á kostum fyrir Selfoss og skoraði 13 mörk. Suguru Hikawa gerði sjö fyrir Selfoss. Selfoss er í sjötta sæti deildarinnar með fimm stig en Hörður er án stiga í botnsætinu.

* Wilfried Zaha var hetja Crystal Palace í 2:1-heimasigri liðsins á Wolves í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gærkvöldi. Adama Traoré kom gestunum frá Wolves yfir á 31. mínútu. Palace var hins vegar sterkara liðið í seinni hálfleik og Eberechi Eze jafnaði á 47. mínútu og Zaha gerði sigurmarkið á 70. mínútu.

Nýliðar Nottingham Forest eru komnir upp úr botnsætinu eftir markalaust jafntefli við Brighton á heimavelli. Eftir leikinn er Brighton enn í sjöunda sæti, nú með 15 stig. Forest er í 19. sæti með sex stig.

* Jürgen Klopp , knattspyrnustjóri Liverpool, hefur verið kærður af enska knattspyrnusambandinu vegna framkomu sinnar við dómara leiks liðsins við Manchester City í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn var. Klopp fékk rautt spjald er hann snöggreiddist í kjölfar þess að Mohamed Salah fékk ekki aukaspyrnu á vallarhelmingi City. Þýski stjórinn má vera á hliðarlínunni er Liverpool mætir West Ham í kvöld, en hann hefur frest til föstudags til að svara kæru enska sambandsins.

*Ísland verður á meðal þátttökuþjóða á lokamótum EM U19 og EM U17 ára landsliða stúlkna í sumar. Rússland átti að vera á meðal þátttökuþjóða, en vegna innrásarinnar í Úkraínu hefur EHF meinað landsliðum þjóðarinnar þátttöku. Ísland var fyrsta varaþjóð inn á bæði mótin og leikur því við bestu lið álfunnar í sumar.

*Enska knattspyrnusambandið hefur kært Manchester United til aganefndar sambandsins vegna atviks í leik liðsins gegn Newcastle í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn. Craig Pawson dómari sýndi Cristiano Ronaldo gula spjaldið fyrir að taka boltann af Nick Pope , markverði Newcastle, þegar hann ætlaði að taka aukaspyrnu. Leikmenn United voru allt annað en sáttir og hópuðust að Pawson og vildu meina að Pope hefði þegar verið búinn að taka aukaspyrnuna. United fær frest til morguns til að skila greinargerð um málið.

* Ómar Ingi Magnússon , landsliðsmaður í handbolta, sneri aftur á völlinn eftir fjarveru vegna læknisrannsóknar er Magdeburg vann 41:23-sigur á Sydney University í fyrsta leik sínum í heimsbikar félagsliða í gær. Ómar skoraði fjögur mörk í leiknum.