Nichole hóf þá nám í leikskólakennarafræðum við KHÍ sem hún lauk með B.Ed.-prófi árið 2007 og lauk síðan M.Ed.-gráðu í náms- og kennslufræði frá HÍ árið 2013. Nicole var leikskólastjóri við leikskólann Ösp í Fellahverfi 2011-2016. Hún var alþingismaður fyrir Bjarta framtíð 2016-2017 og verkefnisstjóri hjá Þjónustumiðstöð Breiðholts 2018-2021 og formaður Samtaka kvenna af erlendum uppruna á Íslandi 2019-2022. Hún hefur verið forstöðumaður Fjölmenningarseturs frá 2021. „Okkar hlutverk er að veita upplýsingar til fólks sem hefur flutt til Íslands og veita því brautargengi hér. Svo er líka mikil ásókn í að koma hingað. Burtséð frá flóttafólki, þá vilja margir koma hingað til að vinna og við svörum spurningum frá þeim. Við vinnum einnig að stefnumótandi vinnu með sveitarfélögum, fyrirtækjum og yfirvaldi. Þetta er ótrúlega áhugavert starf og mjög skemmtilegur tími til að vera í þessu starfi því það er svo brýn þörf á því núna.“ Til marks um það eru starfsmenn Fjölmenningarseturs orðnir sextán en voru fimm þegar Nicole tók við starfinu.
Helsta áhugamál Nicole er eldamennska. „Ég nýt þess í botn að elda og líka að ferðast, bæði innanlands og erlendis, og börnin mín eru komin á þann aldur að þeim finnst það líka gaman. Svo er ég rosamikill lestrarhestur. Ég elska líka að fara á brimbretti, ég lærði á það fyrir fimm árum og þá varð ekki aftur snúið. Hvar sem er hlýr sjór þá vil ég fara á brimbretti.“
Fjölskylda Eiginmaður Nicole er Garðar Kenneth Mosty Gunnarsson, f. 1973, bakari. Börn þeirra eru Tómas Jamie, f. 2008, og Leah Karin, f. 2009. Foreldrar Nicole voru Vickie Austin, f. 1950, d. 2021, vann í skartgripabúð, og Ronald Hotovy, 1950, d. 2005, verkfræðingur. Stjúpfaðir Nicole er Douglas Austin, f. 1944, millistjórnandi hjá General Motors, búsettur í Three Rivers.