Einar Ingvi Magnússon
Einar Ingvi Magnússon
Einar Ingvi Magnússon: "Vagnstjórar hafa fengið nóg af vanrækslu borgaryfirvalda í garð viðskiptavina strætó og krefjast úrbóta hið fyrsta."

Mikil afturför hefur orðið undanfarna áratugi í almenningssamgöngum Reykjavíkurborgar hvað viðkemur aðstöðu fyrir farþega strætisvagna í borginni. Hún er hreinlega til háborinnar skammar.

Ég man þá tíð þegar biðstöðvar voru starfræktar á Lækjartorgi, Hlemmi og í Mjódd. Þar inni var upphituð aðstaða fyrir farþega til að ylja sér fyrir veðri og vindum, biðsalur með bekkjum, aðgengi að salerni, sjoppa og miðasala. Þótt ýmislegt mætti betur gera til lagfæringar á leiðakerfi strætisvagnanna og lítið samráð haft við vagnstjóra í því sambandi er enn hörmulegra að þurfa að horfa upp á aðstöðuleysi farþega í Reykjavíkurborg. Þjónustubiðskýlum hefur verið lokað og þau tekin undir aðra starfsemi og farþegar híma úti hvar sem skjól er að finna. Framkoma borgaryfirvalda við hinn almenna borgara sem nota þarf strætisvagnana er skammarleg og hefur aldrei verið jafn bagaleg í sögu almenningssamgangna í Reykjavík eins og staðan er í dag.

Við vagnstjórar, sem viljum farþegum okkar vel, krefjumst betri aðstöðu fyrir viðskiptavini okkar. Það erum við, vagnstjórar, sem heyrum óánægjuraddir fólksins sem við mætum á hverjum degi og sárt að þurfa að tjá farþegum að það sé ekki í höndum okkar að breyta einu né neinu. Við höfum horft nógu lengi upp á skammarlega framkomu borgaryfirvalda gagnvart farþegum.

Opna þarf gömlu biðskýlin og þjónustumiðstöðvarnar á ný með tilheyrandi þjónustu og umhyggju gagnvart farþegum almenningsvagna Reykjavíkur. Farþegar hafa nógu lengi þurft að standa úti í kuldanum og eiga betra skilið af borgaryfirvöldum. Vagnstjórar hafa fengið nóg af vanrækslu borgarinnar í garð viðskiptavina sinna og krefjast úrbóta hið fyrsta.

Höfundur er vagnstjóri í Reykjavík og nágrenni.

Höf.: Einar Ingvi Magnússon