Rekstur Strætó er viðvarandi vonbrigði en samt er haldið áfram með borgarlínuna

Tilraunaverkefni Strætó um næturakstur sem rekið var frá júlí til september hefur nú verið slegið af. Tilraunin kostaði 25 milljónir króna og var endurtekning á fyrri tilraun sem gekk ekki heldur upp. Í tilkynningu frá Strætó segir að væntingar um farþegafjölda hafi ekki staðist „þrátt fyrir að búist hafi verið við auknum fjölda nú í haust þegar starfsfólk kom úr sumarleyfum og skólar hófust á ný“.

Þetta eru fjarri því einu væntingarnar um Strætó sem ekki hafa staðist. Áætlanir um notkun og afkomu hafa ekki gengið eftir og er uppgjör fyrri hluta ársins til marks um þetta. Þar má sjá að fargjöld skila 9,5% minni tekjum en áætlað hafði verið og að rekstrargjöldin eru 8,5% yfir áætlun. Þetta veldur því að í stað þess að afkoma fyrir afskriftir (EBITDA) hafi verið jákvæð um 78 milljónir eins og áætlað hafði verið, þá var hún neikvæð um 366 milljónir! Að viðbættum afskriftum og fjármagnsliðum er rekstrarniðurstaða fyrri hluta ársins neikvæð um nær sex hundruð milljónir króna en ekki rúmar eitt hundrað milljónir eins og áætlað hafði verið.

Þessi afkoma er ekki aðeins verri en áætlað hafði verið, hún er líka mun verri en í fyrra. Þá verður að geta þess að þetta er niðurstaðan þrátt fyrir framlag sveitarfélaganna sem eiga Strætó upp á yfir tvo milljarða króna og framlag ríkisins upp á nær hálfan milljarð króna á fyrri hluta ársins.

Á sama tíma og Strætó er í þessum ógöngum og sveitarfélögin sem eiga fyrirtækið taka ákvörðun um að draga úr þjónustu og hækka gjaldskrána um 12,5% er haldið áfram með áform um borgarlínu. Hún mun að líkindum kosta á annað hundrað milljarða króna hið minnsta og háar árlegar fjárhæðir í rekstrarkostnað að auki. Ofan á kostnaðinn af Strætó.

Hvers vegna stöðvar enginn þessa vitleysu?