Ingibjörg Jónsdóttir, annar tveggja stofnenda og eigenda listagallerísins Berg Contempory á Klapparstíg.
Ingibjörg Jónsdóttir, annar tveggja stofnenda og eigenda listagallerísins Berg Contempory á Klapparstíg. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Við Klapparstíg í Reykjavík hefur Ingibjörg Jónsdóttir byggt upp listagalleríið Berg Contemporary. Ný viðbygging við galleríið verður opnuð 22.

Baldur Arnarson baldura@mbl.is Við Klapparstíg í Reykjavík hefur Ingibjörg Jónsdóttir byggt upp listagalleríið Berg Contemporary. Ný viðbygging við galleríið verður opnuð 22. október og verður Sigurður Guðjónsson, fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum í ár, með fyrstu sýninguna. Ingibjörg segir íslenskan listmarkað ungan en að ýmis þroskamerki séu að koma fram. Söfnurum sé að fjölga og samstarf við erlenda aðila að eflast. Hins vegar þurfi að endurskoða skattlagningu á myndlist, enda standi salan ein og sér nú langt í frá undir kostnaðinum við að koma íslensku listafólki á framfæri ytra. Jafnframt geti ríkisvaldið stuðlað að aukinni fjárfestingu fyrirtækja og einstaklinga í myndlist.

Haustið er komið þegar Ingibjörg Jónsdóttir, annar eigenda listagalleríisins Berg Contemporary, tekur á móti ViðskiptaMogganum á skrifstofu fyrir ofan galleríið á Klapparstíg.

Hátt er til lofts og vítt til veggja í sýningarrýminu en þar var áður glerverksmiðja.

Ingibjörg og eiginmaður hennar, Friðrik Steinn Kristjánsson, keyptu húsnæðið árið 2014 og var fyrsta sýningin opnuð í mars 2016.

Galleríið hefur nú verið tengt við nýbyggingu sem tilheyrir Smiðjustíg en þar er nýr og stærri sýningarsalur og gestaíbúðir fyrir samstarfsmenn. Byggingin, sem er teiknuð af arkitektinum Davíð Kristjáni Pitt, er klædd með dökkum dönskum múrsteini og gjörbreytir aðkomu að galleríinu frá Smiðjustíg. Stórt hellulagt plan leiðir gesti að galleríinu en þaðan má meðal annars sjá danska sendiráðið og Þjóðleikhúsið.

Vantaði sali með meiri lofthæð

– En hvað kom til að þau hjón ákváðu að breyta húsi sem reist var í miðri síðari heimsstyrjöldinni í alþjóðlegt listagallerí?

„Ég starfaði sem sýningarstjóri að alþjóðlegri sýningu á Listasafni Reykjavíkur, í Hafnarhúsi, þegar ég fékk vilyrði hjá listamanninum Tomás Saraceno, og eiganda tiltekins listaverks, til að fá það verk á sýninguna. En þegar til kom var enginn salur með næga lofthæð til þess að taka mætti verkið inn og ég fór að hugsa um að það væri mjög lítið framboð á rými í Reykjavík sem væri með aukinni lofthæð fyrir myndlist. Það var auðvitað til en ekki nóg af því.

Gaman yrði að stofna gallerí

Þá var byrjað að blunda í mér að það væri gaman að stofna gallerí og líka af því að mér fannst sem að hér mættu vera fleiri alþjóðleg gallerí. Þá hafði i8 verið á þessum alþjóðlega vettvangi og ég hugsaði með mér að það væri skemmtilegt ef það væru fleiri slík íslensk gallerí. Þá kæmust fleiri listamenn að og það væri skemmtilegra út á við að fleiri væru í senunni. Svo leitaði ég lengi að húsnæði og þá kemur þetta hús í sölu en áður var glerslípun og glerverksmiðja í húsinu. Því fylgdi þessi einstaka byggingarlóð á bak við en þar voru ónýtar byggingar. Svo hefur þetta undið upp á sig.“

Sum verk þurfa meiri lofthæð

– Af hverju skiptir lofthæð máli?

„Til dæmis ef við viljum fá stórar varpanir í vídeóverkum, en ég er í samstarfi við marga vídeólistamenn, og stærri innsetningar. Þá er þetta skemmtilegur möguleiki. Verkið hans Sigurðar [Guðjónssonar] væri ekki hægt að sýna í þeirri mynd sem það er hugsað nema með aukinni lofthæð. Það er hins vegar hægt að gera í nýja salnum en þar er lofthæðin mikil og tekur vel á móti verkinu hans Sigurðar.“

– Við nýja salinn eruð þið með íbúðir. Hvað ætlið þið að gera við þær?

„Við erum með tvær gestaíbúðir en þar dvelja nú tveir sýningarstjórar, önnur frá MIT [Tækniháskólanum í Massachusetts] og hin frá Albright–Knox safninu í New York, sem eru hér til að kynna sér listakonu og munu væntanlega setja upp sýningu með henni í Bandaríkjunum.

Ég hugsa þetta sem stað til að taka á móti listamönnum, sem ég myndi vilja fá til að sýna hjá mér og jafnvel vinna verk, og sýningarstjóra og fleiri aðila í listheiminum sem ég tel að muni nýtast senunni hér heima og listamönnunum. Íbúðirnar eru á tveimur hæðum og eru svefnherbergin á efri hæð. Þær eru tengdar við vinnurými og jafnframt munum við geta boðið upp á æfingarými fyrir píanóleikara.“

Gjörbreytir aðkomunni

– Eru margar slíkar íbúðir fyrir listamenn í Reykjavík ?

„Samband íslenskra myndlistarmanna (SÍM) er til dæmis með íbúðir í Reykjavík sem listamenn geta sótt um og fengið úthlutað. Hugmyndin hjá okkur er að hafa meiri sveigjanleika og geta boðið íbúðirnar fulltrúum fleiri starfsgreina sem koma að myndlistinni en aðeins listamönnunum sjálfum. En eins og þeir sem til þekkja vita er heilmikið umstang í kringum það að koma listamönnum á framfæri, setja upp sýningar og annað sem því fylgir og margir sem koma að málum. Til dæmis er mjög mikilvægt að hafa samtal við góða sýningarstjóra og raunar nauðsynlegt fyrir listamenn gallerísins að slíkt samtal eigi sér stað. Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar leggur þar líka sitt af mörkum.“

Faraldurinn raskaði sýningarhaldi

– Hversu langt fram í tímann skipuleggið þið sýningar?

„Það er afskaplega misjafnt. Ég vinn jafnan langt fram í tímann en svo geta orðið breytingar á dagskránni. Það gerðist í faraldrinum og fyrir vikið erum við með langa halarófu sem við erum að vinna úr. Margt af því sem var áformað féll niður og annað frestaðist, eins og gengur. Stundum geta sýningar átt sér margra ára aðdraganda en stundum er sá tími miklu styttri.“

– En viðskiptahliðin? Segðu mér frá henni?

„Við erum með verk til sölu í öllum verðflokkum. Salan er samt mjög lítill hluti af starfseminni en listamarkaðurinn á Íslandi er ungur og ekki jafn þróaður og til dæmis á hinum Norðurlöndunum. Það stendur þó til bóta, hægt og rólega er hann að þroskast. Ég hef það á tilfinningunni að margir haldi að það séu fyrst og fremst dýr verk til sölu í galleríum en sú er ekki raunin. Þvert á móti er þar allur verðskalinn.

Við sækjum mikið listamessur erlendis og þar er gjarnan töluvert mikil sala en við seljum bæði söfnurum og söfnum erlendis. Salan er þó langt frá því að standa ein og sér undir rekstri gallerísins.“

Eins og gata í stórborg

– Þú nefnir að listamarkaðurinn á Íslandi sé ekki ýkja þróaður. Hvernig merkirðu það?

„Hann er einfaldlega ungur. Ég meina það ekki á niðrandi hátt. Það er eðlilegt. Við erum mjög fámenn þjóð – eins og stór gata í einni stórborg – en ef við yfirfærum markaðinn á höfðatölu hugsa ég að markaðurinn sé ekkert minni en víðast hvar annars staðar. Málið snýst fyrst og fremst um að við erum afskaplega fá og svo eru ekki margir áratugir síðan hér fór að verða til stétt af myndlistarmönnum. Það er því eðlilegt að þetta taki tíma.

Það háir okkur líka mikið á Íslandi hvað söfnin eru vanbúin og hvað þau fá lítið fjármagn til að kaupa verk. Það er eitt. Hins vegar eru að koma fram sífellt fleiri safnarar á Íslandi. Sá hópur á Íslandi sem er kannski skemmtilegast að selja er fólkið sem kaupir kannski tvö til þrjú listaverk um ævina og er lengi að safna fyrir verkunum og velta hlutunum fyrir sér. Maður skynjar mikla gleði þegar það hefur loksins valið verk og það er afskaplega ánægjulegt.“

Verðið í flestum tilfellum lægra

– Nú hefur listin gildi í sjálfri sér en hvað með verðmyndun? Þú talar um að listamarkaðurinn á Íslandi sé ungur og að hér séu fáir safnarar. Hvernig er verðmyndun hjá samtímalistamönnum í fremstu röð hér miðað við til dæmis á hinum Norðurlöndunum?

„Verðið er í flestum tilfellum lægra hér á landi og þetta er svolítið vandamál. Því það geta ekki verið mörg verð í gangi, heldur verður eitt verð að gilda. Ef verðið hækkar of mikið má segja að innlendi markaðurinn tapist. Það er nokkuð sem þarf að taka tillit til.“

– Þannig að þegar galleríið ykkar selur verk í samstarfi við listamennina á hinum Norðurlöndunum er það að fá sama verð og hér?

„Það gildir aðeins eitt verð. Það er ekki svo að við seljum verk eftir listamenn á lægra verði hér heima en erlendis. Það gengur ekki. Það kemur þó fyrir að við veitum söfnum góðan afslátt og það er þá samkomulagsatriði.“

– Hverjir eru að safna myndlist hér á landi?

„Það er ótrúlegasta fólk. Allur skalinn má segja. Engin erkitýpa þar.“

– Ræðum aðeins um rekstrargrundvöllinn. Þú nefndir að salan ein og sér standi ekki undir rekstrinum?

„Nei, það er af og frá. Það má segja að hér búi að baki ástríða og áhugi okkar mannsins míns. Þess vegna erum við að þessu.“

Fór í listaskóla í Mexíkó og Danmörku

– Hvaðan kemur áhuginn? Þú ert sjálf þekkt veflistakona og kenndir list á Íslandi.

„Ég hef verið í listaheiminum frá því að ég var ung kona. Ég lærði í Myndlista- og handíðaskólanum og varð síðar kennari þar og í Listaháskóla Íslands. Ég lærði höggmyndagerð og textíl og sótti jafnframt listaskóla í Mexíkó og Danmörku. Allt frá því að við hjónin kynntumst höfum við verið að skoða myndlist og ég hef lifað og hrærst í þessum heimi.“

– Hvernig byggirðu upp tengslanet erlendis?

„Það er eitthvað sem ég byrjaði á um leið og ég fór að velta fyrir mér að stofna galleríið og hófst kannski með því að ég stýrði sýningu fyrir Listasafn Reykjavíkur árið 2014. Á árunum 2011 og 2012 var ég farin að kynna mér listamenn með það fyrir augum að halda sýningar. Smám saman kynnist maður fleira fólki í gegnum listamessur og ég þekki orðið marga galleríista, sérstaklega í Skandinavíu. Við tökum þátt í listamessum í Bandaríkjunum, Evrópu og Skandinavíu.“

– Hafið þið ferðast á hverju einasta ári?

„Ég hef farið með galleríið á hverju einasta ári á margar messur. Hef tekið þátt í tveimur til þremur messum á ári, allt frá stofnun.“

– Hvert eruð þið að horfa? Á allar heimsálfur eða Evrópu og Bandaríkin?

„Já, Evrópu og Bandaríkin.“

– Ræðum meira um listamarkaðinn. Hvenær fór að verða til stétt myndlistarmanna á Íslandi?

„Svona smám saman á síðustu öld. Á fyrri hluta síðustu aldar fór einn og einn út til að mennta sig og svo fjölgaði þeim, ekki síst eftir að Myndlista- og handíðaskólinn var stofnaður. Það er reyndar ekki svo að allir sem fari í gegnum þetta nám verði að myndlistarmönnum. Þó myndi ég segja að það væri grundvöllurinn, vegna þess að menntunin skilar sér út í þjóðfélagið með fólki sem kann að meta myndlist. Það hefur svo auðvitað áhrif þegar lífsskilyrðin batna og þjóðin menntast.“

– Hvernig er áhugi ungs fólks á myndlist?

„Hann er mikill og vaxandi.“

– Hvernig merkirðu það?

„Ég merki það á því að ungt fólk fjölmennir hingað á sýningar og maður skynjar það mikið á umræðunni á allan hátt.“

Félli vel að umhverfinu

– Nýbyggingin setur mikinn svip á umhverfið. Hvað áherslur birtast í hönnuninni?

„Mig langaði til að hún félli vel að umhverfinu en yrði ekki of ráðandi í umhverfinu. Við hugsuðum líka um áhrif hennar á mannlífið. Auðvitað þarf gististaði fyrir ferðamenn í miðborginni en það þarf líka að vera eitthvað fyrir þá að gera. Þjóðin þarf að sýna að hún hafi eitthvað fram að færa. Borg verður ekki skemmtileg borg ef þar eru aðeins gistirými, heldur þarf að vera lifandi menning og mannlíf. Það er það sem maður sækist sjálfur eftir á ferðalögum. Ég ver ábyggilega 80% af tímanum á söfnum og galleríum, þegar ég ferðast til erlendra borga. Því er ekkert öðruvísi farið með fólkið sem kemur hingað. Það vill upplifa bæði náttúruna og menninguna.“

– Hversu mörg gallerí á Íslandi hafa orðið jafn alþjóðlegar tengingar og þið hjá Bergi Contemporary hafið byggt upp síðustu ár?

„Það eru i8, Hverfisgallerí og við. Þessi þrjú gallerí. Það er auðvitað heilbrigð samkeppni en góður vinskapur líka. Árið 2020 var listamessan Chart í Kaupmannahöfn, sem við tökum þátt í árlega, ekki haldin í þeirri mynd sem hún hefur verið haldin heldur var henni dreift um mörg sýningarrými. Þá hafði verið lokað hjá okkur um sumarið vegna faraldursins og svo þegar færi gafst komu hin tvö galleríin hingað og settu upp sína bása, þannig að við vorum öll hér saman. Þetta þótti mjög jákvætt á hinum Norðurlöndunum og segir sitt um gagnkvæma velvild á milli okkar [hjá galleríunum þremur].“

Aðflutningsgjöldin eru misjafnlega há

– Hvaða áhrif hefur fjölgun erlendra ferðamanna haft á íslenskan listamarkað?

„Það er töluvert um erlenda ferðamenn sem koma að skoða sýningar en salan til þeirra er ekki mikil. Þegar ferðamenn flytja listaverk úr landi, eða fá send héðan, fer það eftir viðkomandi landi hversu mikið er greitt í aðflutningsgjöld. Munur á skattaprósentunni getur verið merkilega mikill. Ef listaverk eru til dæmis send að utan til Íslands þarf að borga hefðbundna virðisaukaskattsprósentu en ef listaverkið er sent til Danmerkur þarf ekki að greiða nema 5% skatt og í Sviss er hlutfallið 8%. Svona er hlutfallið misjafnt eftir löndum. Ég sé því í fljótu bragði ekki hvað skatturinn gæti gert til að örva sölu til ferðamanna. Hins vegar mætti vel huga að því að fella alfarið niður virðisaukaskatt á þann hluta sem galleríið fær í sinn hlut [af söluandvirði listaverks] en við þurfum að borga fullan skatt af því. Svo mætti auðvitað huga að því að listaverkakaup yrðu frádráttarbær frá skatti. Þá til dæmis hjá fyrirtækjum,“ segir Ingibjörg Jónsdóttir að lokum.

Fasteignagjöldin umhugsunarefni

– Þið vandið bersýnilega til verka. Hvað hefur þetta kostað ykkur, með leyfi að spyrja ?

„Það er trúnaðarmál. Við höfum lagt mikið af mörkum – og ég ætla að vona að fólk líti einnig svo á – en þetta hefur líka veitt okkur mikla gleði og ánægju. Það koma stök ár hjá galleríum þegar þau eru rekin með hagnaði en yfirleitt standa sýningar engan veginn undir sér. Til að koma til móts við rekstur slíkra gallería mætti til dæmis endurskoða fasteignagjöld en það er umhugsunarefni að það skuli ekki vera til fleiri flokkar af þeim.

Lítill hluti fer undir sölu

Með rekstri gallerís af þessu tagi er verið að auðga menningu landsins og styrkja listina í landinu. Ef maður flettir í orðabók telst atvinnuhúsnæði vera húsnæði sem er hugsað til þess að afla tekna og ég get sagt að lítill hluti af þessu húsnæði fer undir sölu. Hinn hlutinn fer undir sýningar sem standa yfirleitt á engan hátt undir sér og aðgangur er ókeypis og öllum heimill. Það er vel hægt að reka lítil gallerí með hagnaði – slík gallerí má finna út um allan bæ – en þau eru þá rekin á allt öðrum forsendum. Það er ekki verið að kynna listamennina, eða verið að byggja upp feril þeirra á þann hátt sem er verið að gera hér. Þar eru gjarnan til sölu lítil verk á lægra verði og þau gallerí minna meira á gjafavöruverslun.

Eru ekki að biðja um styrki

Við erum ekki að biðja um styrki en það mætti vera meiri skilningur á því að hér sé verið að leggja rækt við listina. Við viljum styðja listamenn sem við teljum að sé grundvöllur fyrir að kynna erlendis og eru að vinna alvarlega að sínum hlutum. Við horfum nú á Sigurð [Guðjónsson] en þar liggur mikil vinna að baki. Fyrir listamennina fylgir þessu yfirleitt ákveðin fórn, af lífsgæðum og öðru, og við reynum að búa til ramma sem styður við þá. Það væri ekki verra ef það væri meiri skilningur á því,“ segir Ingibjörg.