Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir er fædd 19. október 1962 á Fæðingarheimili Reykjavíkur og ólst upp á Bergstaðastræti 70. Það hús er byggt 1959 og er friðað, en Skarphéðinn Jóhannsson arkitekt teiknaði það og faðir Jóhönnu Vigdísar sá um innanhússhönnun á því.
„Mér er óskaplega kært þetta svæði, sem mamma kallaði suðurhlíðar Skólavörðuholts, og ég bý núna þremur húsum frá húsinu þar sem ég ólst upp, á Bergstaðastræti 62a. Ég mótmælti byggingu þess húss,“ segir Jóhanna Vigdís og hlær, en það er byggt 1978. „Á þeirri lóð stóð Veroníkuhús og þar var skíðabrekka fyrir okkur krakkana sem hvarf með byggingu hússins.“ Jóhanna Vigdís æfði handbolta með Val og frjálsar með ÍR á Melavellinum, hún fór í Söngskólann og söng í kór, stundaði skíði og hlaup. „Ég hef alltaf hreyft mig mjög mikið.“
Jóhanna Vigdís gekk í Ísaksskóla og Hlíðaskóla. „Það var sameiginleg ákvörðun foreldra í hverfinu að senda okkur í þessa skóla. Mömmurnar skiptust á að keyra okkur viku og viku í senn í Ísaksskóla og svo þegar við vorum komin í Hlíðaskóla fórum við með strætó. Í þá daga var miklu lengri vegalengd í Hlíðaskóla en er í dag, því nú eru komnar brýr og göngustígar.“ Jóhanna lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1982, BA-prófi frá Háskóla Íslands í þýsku, en hún var sú fyrsta sem lauk námi eingöngu í þýsku frá HÍ. Síðan lauk hún meistaraprófi frá Háskólanum í Freiburg í Sviss í blaðamennsku og fjölmiðlafræðum. Lokaritgerðin var rannsókn á vinnuaðstæðum íslenskra blaða- og fréttakvenna. Hún fékk styrk í eitt ár frá Evrópuráðinu meðan á framhaldsnámi stóð og styrk frá þýska ríkinu til að sækja bókmenntanámskeið í Münster í Þýskalandi meðan á BA-námi stóð.
Jóhanna hefur stundað ýmis störf, hún vann hjá Kristjáni Siggeirssyni hf., var flugfreyja hjá Icelandair og vann í verslunum. Hún byrjaði í blaðamennsku 1989 með námi hjá Freiburger Nachrichten og var í lausamennsku hjá tímaritum eins og Nýju lífi, Heimsmynd, Frjálsri verslun og Gestgjafanum. Hún vann hjá Vöku Helgafelli en frá 1994 á fréttastofu Sjónvarpsins sem síðan var sameinuð fréttastofu RÚV.
Jóhanna Vigdís hefur langmest sinnt fréttum frá Alþingi og stjórnmálum og verið einn af aðalþulum frétta frá 1997. Frá september síðastliðnum hefur Jóhanna Vigdís verið aðalþulur sjónvarpsfrétta klukkan 19. „Mér finnst það gríðarlega skemmtilegt að fjalla um íslensk stjórnmál og allt sem því fylgir, kosningasjónvörpunum, ríkisstjórnarmyndunum o.s.frv.“
Matreiðsla er helsta áhugamál Jóhönnu Vigdísar og hefur hún gefið út þrjár matreiðslubækur. „Ég er byrjuð á fjórðu bókinni og vona að hún verði að veruleika á næsta ári. Að elda mat hefur verið mitt stóra áhugamál og að búa til uppskriftir. Ég er hrifin af ítalska eldhúsinu og evrópska eldhúsinu almennt.“
Jóhanna Vigdís á bústað í Laugarási í Biskupstungum sem foreldrar hennar byggðu. „Það er mikill unaðsreitur fjölskyldunnar og við förum þangað hvenær sem færi gefst. Maðurinn minn og krakkarnir mínir eru þar í hestamennsku með Erlendi bróður mínum.“
Fjölskylda
Eiginmaður Jóhönnu Vigdísar er Guðmundur Magnússon, f. 20.12. 1958, ráðgjafi í ökutjónum Sjóvár. Auk Bergstaðastrætis hafa þau verið búsett í Hafnarfirði og Sviss. Foreldrar Guðmundar voru hjónin Guðrún E. Guðmundsdóttir, f. 14.1. 1925, d. 8.3. 2012, húsmóðir, og Magnús St. Magnússon, f. 1.12. 1922, d. 30.1. 2009, pípulagningameistari í Hafnarfirði þar sem þau bjuggu alla tíð.Börn Jóhönnu Vigdísar og Guðmundar eru 1) Guðrún Edda, f. 18.9. 1983, lögfræðingur og ráðgjafi hjá Aton JL, búsett í Reykjavík. Maki: Stefán Örn Melsted, f. 10.3. 1983, kokkur og eigandi veitingastaðarins kastrup við Hverfisgötu. Börn Guðrúnar Eddu og Stefáns eru Jóhanna Vigdís, f. 25.9. 2017, og Guðmundur Styrkár, f. 5.8. 2020. 2) Hjalti Geir, f. 20.8. 1998, starfsmaður Áss og stundum Handverkshússins; 3) Erlendur, f. 14.10. 2001, nemi við Háskóla Íslands; 4) Sigríður Theódóra, f. 18.2. 2005, nemi við Kvennaskólann í Reykjavík.
Systkini Jóhönnu Vigdísar eru Ragnhildur, f. 28.8. 1953, ráðuneytisstjóri í innviðaráðuneytinu, búsett í Reykjavík; Kristján, f. 31.8. 1956, viðskiptafræðingur, búsettur í Berlín, og Erlendur, f. 21.11. 1957, rekstarhagfræðingur, búsettur í Reykjavík og Biskupstungum.
Foreldrar Jóhönnu Vigdísar voru hjónin Sigríður Th. Erlendsdóttir, f. 16.3. 1930, d. 17.9. 2022, sagnfræðingur í Reykjavík, og Hjalti Geir Kristjánsson, f. 21.8. 1926, d. 13.10. 2020, húsgagnaarkitekt. Þau bjuggu alla tíð á Bergstaðastræti 70 í Reykjavík.