Tom Klein segir Avia Solutions Group, móðurfélag Bláfugls, hafa verið rekið með hagnaði allan faraldurinn.
Tom Klein segir Avia Solutions Group, móðurfélag Bláfugls, hafa verið rekið með hagnaði allan faraldurinn.
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Í faraldrinum varð kippur í eftirspurn eftir fraktflugi. Nýir eigendur hafa þrefaldað starfsemi Bláfugls á aðeins tæpum þremur árum.

Snemma árs eignaðist flugþjónusturisinn Avia Solutions Group allan rekstur íslenska fraktflugfélagsins Bláfugls. Þetta var um það leyti sem fyrstu fréttir tóku að berast af skæðum veirusjúkdómi í Kína og hafa undanfarin tvö og hálft ár svo sannarlega verið krefjandi tími fyrir fluggeirann.

Tom Klein segir þann rekstur sem tilheyrir Bláfugli engu að síður hafa þrefaldast frá því kaupin voru gerð.

„Starfsemi Bláfugls var á margan hátt á góðum stað og félagið bjó að mjög sterkum hópi viðskiptavina en átti erfitt með að vaxa. Við tókum við góðu teymi fólks og góðum samböndum og síðan þá hefur bæði stærð félagsins, velta og tekjur um það bil þrefaldast,“ útskýrir Klein en hann situr í stjórn Avia og er þar að auki framkvæmdastjóri hjá bandaríska fjárfestingarsjóðnum Certares Management.

Certares sérhæfir sig í fjárfestingum á sviði flugþjónustu og ferðaþjónustu og heldur utan um nærri 8,3 milljarða dala eignasafn. Í desember á síðasta ári veitti Certares 300 milljóna evra innspýtingu í rekstur Avia, m.a. til að auðvelda félaginu að halda áfram að vaxa með yfirtökum. Avia var stofnað árið 2010 en hefur náð að vaxa mjög hratt og hefur núna yfir að ráða flota 137 flugvéla. Félagið er með starfsstöðvar af ýmsu tagi á fleiri en 100 stöðum í heiminum. Það leigir út bæði farþega- og fraktflugvélar, rekur hótel og gerir út einkaþotur, auk þess að starfrækja viðgerða- og viðhaldsverkstæði fyrir flugvélar.

Breyttu farþegavélum í fraktflugvélar

„Avia var rekið með hagnaði í gegnum allan faraldurinn og varð það fyrirtækinu til happs að þegar farþegaflug nánast lagðist af var félagið vel í stakk búið til að leggja aukna áherslu á fraktflutninga og njóta góðs af aukinni eftirspurn á þeim markaði,“ útskýrir Klein en félagið festi m.a. kaup á fraktflugvélum snemma í faraldrinum og endurinnréttaði líka sumar farþegaþotur sínar til að breyta þeim í flutningavélar.

„Þær raskanir sem urðu á skipaflutningum þýddu að skyndilega jókst þörfin fyrir fraktflug og alls kyns vörur og íhluti, sem áður voru send sjóleiðina á milli landa, þurfti allt í einu að senda með flugi.“

Klein reiknar með að það taki nokkur ár til viðbótar að koma alþjóðlegum flutningaleiðum aftur í samt horf.

„Framleiðendur eru í vanda staddir því aðfangakeðjurnar eru úr lagi gengnar og ekki hægt að skipuleggja framleiðsluna þannig að íhlutir berist sjó- og landleiðina á allra síðustu stundu. Á meðan þetta ástand ríkir munu seljendur og kaupendur halda áfram að reiða sig á fraktflug. Markaðurinn kann að róast lítillega en það er útlit fyrir áframhaldandi vöxt og að ekki dragi úr eftirspurn eftir fraktflugi í bráð.“

Í þessu markaðsumhverfi segir Klein að það hjálpi Avia hvað reksturinn er umfangsmikill. „Við höfum nægilega burði til að hafa fólk að störfum um allan heim sem er á höttunum eftir hentugum flugvélum sem við getum bætt við flotann okkar. Þá höfum við búið í haginn fyrir áframhaldandi stækkun með því að tryggja okkur kaup og breytingar á flugvélum sem eru að nálgast endalokin á heppilegum notkunartíma sem farþegavélar og geta hafið nýtt líf sem fraktflugvélar. Erum við t.d. spennt fyrir að bæta við okkur vélum á borð við Boeing 777.“

Blautleiga eykur skilvirkni

Tekið er að birta yfir fluggeira og ferðaþjónustu og þar sem smitvörnum hefur verið aflétt hafa flugvélar og hótel fyllst á augabragði. Þá hefur komið í ljós að mörg flugfélög eiga erfitt með að bregðast við þessum öra viðsnúningi og eiga jafnvel fullt í fangi með að fylla flugstjórasætin. Klein segir Avia búa svo vel að hafa í vinnu hjá sér flugmenn sem eru ýmist í föstu starfi eða sveigjanlegir verktakar. Þar að auki starfrækir félagið eigin flugskóla, og því enginn hörgull á fólki. Metnaðurinn er engu síðri þegar kemur að þjálfun flugþjóna en Avia býður upp á svokallaða blautleigu (e. wet leasing, eða ACMI). Þá eru vélarnar leigðar með áhöfn og bæði tryggingar og viðhald innifalin og það þjónustustig sem farþegar njóta jafngott eða betra en tíðkast hjá flugfélaginu sem leigir vélina.

Klein segir það orðið nauðsynlegan lið í rekstri margra flugfélaga að nýta sér blautleigu til að takast á við sveiflur í eftirspurn.

„Á Evrópumarkaði er t.d. 31% meiri eftirspurn eftir farþegaflugi á sumrin en á veturna og fyrir utan nýtingu á flugvélaflotanum þá er einfaldlega hægara sagt en gert fyrir flugfélögin að reyna að semja við flugstjóra og flugþjóna um að gera hlé á störfum hluta úr árinu.“

Vill svo heppilega til að þegar eftirspurnin er í lágmarki í Evrópu vantar flugvélar t.d. í Suður-Ameríku, og hægt að flytja blautleiguflotann á milli markaðssvæða í takt við það hvar þörfin er mest.