Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
1.162 bæir og þorp í níu héruðum Úkraínu glímdu við rafmagnsleysi í gær eftir að Rússar héldu áfram árásum sínum á raforkuver og aðra innviði í orkuframleiðslu Úkraínumanna. Volodimír Selenskí Úkraínuforseti fordæmdi árásirnar sem enn eitt hryðjuverk Rússlands í styrjöldinni, en hann sagði að Rússar hefðu eyðilagt um einn þriðja af raforkuverum Úkraínu frá því á mánudaginn fyrir viku.
Sögðu úkraínsk stjórnvöld að orkunet landsins væri nú í alvarlegri hættu vegna árásanna og sagði Kíríló Tímósjenkó, aðstoðarskrifstofustjóri forsetaembættisins, að allir Úkraínumenn þyrftu að búa sig undir skort á rafmagni, vatni og hitaveitu í vetur. Sagði hann að það væri mögulegt að tekin yrði upp skömmtun á rafmagni ef árásirnar héldu áfram. „Öll þjóðin þarf að búa sig undir erfiðan vetur,“ sagði Tímósjenkó.
Rússar héldu áfram árásum sínum á Kænugarð í gær og féllu þrír í höfuðborginni, auk þess sem fimmta fórnarlamb drónaárásarinnar á borgina á mánudaginn fannst við leit í húsarústum.
Rússar gerðu einnig árásir í Karkív-, Míkólaív-, Dnípró-, og Sjítómír-héruðum Úkraínu. Sergí Súkhomlín, borgarstjóri Sjítómír-borgar, sagði að árásirnar þar hefðu skorið á rafmagnslínur og vatnsveitu borgarinnar og að sjúkrahús hennar væru nú með vararafala sína í gangi.
Undirbúa að slíta sambandi
Dmítrí Peskov, talsmaður Pútíns Rússlandsforseta, neitaði í gær að Rússar hefðu beitt írönskum drónum við árásirnar á mánudaginn. „Við notum rússneska tækni,“ sagði Peskov, en Bandaríkjastjórn segir Írana hafa látið Rússa fá um 1.000 dróna fyrr í sumar, og eigi þeir nú um 300 af þeim eftir.Slík sala væri í trássi við skuldbindingar Írana við alþjóðasamfélagið vegna kjarnorkusamkomulagsins frá 2015, og hafa ríki Evrópusambandsins hótað því að setja refsiaðgerðir á Íran vegna drónasölunnar. Þá tilkynnti Bandaríkjastjórn í fyrrinótt að hún ætlaði sér að beita þær þjóðir og fyrirtæki sem hefðu stutt við drónaframleiðslu Írana refsiaðgerðum vegna árásanna á mánudaginn.
Dmítró Kúleba, utanríkisráðherra Úkraínu, krafðist þess á mánudaginn að Evrópusambandið setti refsiaðgerðir á Íran vegna drónaárásarinnar. Kúleba bætti um betur í gær og sagði að hann hefði lagt til við Selenskí að Úkraínumenn slitu stjórnmálasambandi við Írana alfarið vegna þeirrar eyðileggingar og dauða sem drónarnir þeirra hefðu valdið. Úkraínumenn vísuðu sendiherra Írans úr landi í september vegna vopnasölunnar.
Embættismenn á Vesturlöndum sögðu í gær að það væri augljóst að Rússar væru viljandi að reyna að eyðileggja hita- og rafmagnsveitur, og að drónar af íranskri gerð skiptu nú meira máli fyrir hernað Rússa. Úkraínumenn sögðu í gær að þeir hefðu skotið niður 38 sjálfseyðingardróna af gerðinni Shahed-136.
Fimmtán látnir eftir slys
Rússnesk stjórnvöld sögðu í gær að fimmtán hefðu látist eftir að herþota af gerðinni Sukhoi Su-34 flaug á níu hæða íbúðablokk í bænum Jeysk, sem er Rússlandsmegin á Asov-hafi.Rússar segja að tæknileg bilun hafi valdið slysinu, en að minnsta kosti 19 til viðbótar slösuðust við áreksturinn. Voru fjórir þeirra sagðir enn í lífshættu í gær, en þar á meðal var piltur á unglingsaldri og fimm ára gömul stúlka.
Báðir flugmenn vélarinnar náðu að skjóta sér út úr henni með fallhlíf, og voru þeir yfirheyrðir í gær. Mun rannsókn málsins m.a. beinast að því hvort lög um flugöryggi hafi verið brotin, og voru flugvirkjar vélarinnar einnig yfirheyrðir af Rannsóknarnefnd Rússlands í gær, en hún fer með rannsókn alvarlegra glæpa. Mun nefndin einnig hafa tekið sýni úr eldsneytistönkum flugvallarins, auk þess sem hún hafði flugrita orrustuþotunnar undir höndum. Vélin var á æfingaflugi þegar slysið varð.
Um 600 manns bjuggu í blokkinni, og sagði Veníamín Kondratíev, ríkisstjóri Krasnodar-héraðs, að þeir hefðu fengið tímabundna aðstöðu annars staðar auk áfallahjálpar. Þá lýsti hann yfir þriggja daga sorg í héraðinu vegna slyssins. Þá sendi Pútín Rússlandsforseti samúðarkveðjur til aðstandenda.
Slysið hefur vakið spurningar um hvort skortur á nauðsynlegu viðhaldi sé farinn að há Rússum, en sjónarvottar sögðu meðal annars að þeir hefðu séð að minnsta kosti annan af hreyflum vélarinnar í ljósum logum áður en hún hrapaði til jarðar.