Kristín Guðmundsdóttir fæddist 7. júní 1924. Hún lést 25. september 2022.

Kristín var jarðsungin 3. október 2022.

Mig langar í nokkrum fátæklegum orðum að minnast þín amma mín, þar sem ég var svo heppin að einmitt þú varst amma mín. Því um leið og ég kom í heiminn urðum við vinkonur og þú varðst ein mikilvægasta manneskjan í mínu lífi. Amma mín var góð í gegn og hafði virkilegan áhuga á fólki, og einmitt þeirri manneskju sem hún var að tala við og hafði einstakt lag á að láta hverjum finnast hann vera sérstakur. Ég vil þakka þér fyrir allt, allar helgarnar sem ég fékk að eyða hjá þér sem barn, öll áramótin sem við eyddum saman, þótt stundum færir þú að vinna um nóttina, þá fékk ég gæðatíma með Níelsi. Þú elskaðir börn og þau voru alltaf velkomin og þú elskaðir að spjalla við þau. Mín börn elskuðu að kíkja við hjá þér, og seinna barnabörnin enda allir velkomnir til þín. Takk fyrir allar veitingarnar, kökurnar, pítsurnar, vöfflurnar og súkkulaðið, það var alltaf eins og að koma í fermingarveislu að kíkja við hjá þér og maður var meðhöndlaður eins og höfðingi.

Umhyggju og ástúð þína

okkur veittir hverja stund.

Ætíð gastu öðrum gefið

yl frá þinni hlýju lund.

Gáfur prýddu fagurt hjarta,

gleðin bjó í hreinni sál.

Í orði og verki að vera sannur

var þitt dýpsta hjartans mál.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Jóhanna B.

Kristjánsdóttir.