Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
Fjórða alþjóðlega ráðstefnan um jarðskjálfta á Norðurlandi, NorthQuake 2022, var sett á Húsavík í gær. Ráðstefnunni lýkur á morgun. Um fjörutíu gestir sitja ráðstefnuna, bæði íslenskir og útlendir. Þar eru 27 erindi á dagskrá auk málstofa og skoðunarferða.
Benedikt Halldórsson, jarðskjálftaverkfræðingur við Háskóla Íslands og Veðurstofu Íslands, er einn af skipuleggjendum ráðstefnunnar og kemur að nokkrum erindum á henni.
Eitt þeirra fjallar um gerð líkans af mögulegri myndun hafnarbylgju (tsunami) í kjölfar jarðskjálfta á Húsavíkur-Flateyjar misgenginu. Aðalhöfundur er Fabian Kutschera. Verkefnið verður kynnt í dag.
Hefur gerst oftar en einu sinni
„Það eru vísbendingar um að þetta hafi gerst oftar en einu sinni,“ segir Benedikt. Verkefnið er unnið af samstarfshópi sem hefur aðsetur í München í Þýskalandi og starfar með Benedikt. Um er að ræða sérfræðinga í hermunum á jarðskjálftum. Við hermunina er beitt háþróuðustu aðferðum sem til eru.Útbúið er sprungulíkan af misgenginu út frá ákveðnum forsendum. Misgengið er í hafsbotninum og þar fyrir ofan er hafið. Hermdir eru bæði líklegir og ólíklegir jarðskjálftar. Hægt er að sjá í líkaninu hvort líkur eru á myndun hafnarbylgju, hve stór hún getur orðið og hvert hún fer.
„Aðstæður varðandi myndun sjávarbylgja vegna jarðskjálfta eru ekki eins hér og víða úti í heimi þar sem geta myndast gríðarlega stórar bylgjur. Þær geta valdið bæði manntjóni og miklu eignatjóni,“ segir Benedikt. Ástæðan er sú að upptök jarðskjálfta úti fyrir Norðurlandi verða á misgengjum þar sem tveir flekar eru á leið í gagnstæðar áttir. Skjálftarnir verða þegar spennan á milli flekanna losnar skyndilega. Nái sprungan alla leið upp í gegnum hafsbotninn hliðrast flekarnir skyndilega til og þá getur mögulega myndast hafnarbylgja.
Annars staðar í heiminum getur t.d. einn fleki verið að ryðjast yfir annan. Við það fellur hluti hafsbotnsins skyndilega niður. Það getur ýtt undir myndun stórra hafnarbylgja.
Meira en 150 ár síðan síðast
En hvað þarf sterkan jarðskjálfta til að mynda sjáanlega hafnarbylgju úti fyrir Norðurlandi?„Það varð vart við bylgjur í Húsavíkurhöfn þegar urðu jarðskjálftar sem voru metnir upp á u.þ.b. 6,5 stig. Þetta var fyrir 150 árum og meira,“ segir Benedikt. Hann segir að sjávarbylgjur af þeirri stærð gangi ekki upp á land nema mögulega þar sem er mikið láglendi. Ekki er hætta á slíku á Húsavík eða þar í kring þar sem eru háir sjávarbakkar. Hann telur ekki ástæðu fyrir Húsvíkinga að verða órólegir yfir þessu.
Heimildir sýna að úti fyrir Norðurlandi geta orðið jarðskjálftar sem eru rúmlega 7 stig. Það er svipað og sterkustu jarðskjálftar á Suðurlandi.
Húsagrunnar og jarðskjálftar
Brynjar Örn Arnarson jarðfræðingur og Benedikt halda á morgun erindi um mismunandi gerðir húsagrunna á Húsavík með tilliti til jarðskjálftavár.„Húsagrunnarnir endurspegla byggingarsögu landsins. Það hafa verið gerðar æ meiri kröfur til bygginga í tímans rás. Ef verður tjón eru öll hús jafn rétthá gagnvart bótum á tjóni hjá Náttúruhamfaratryggingu Íslands,“ segir Benedikt. Hann segir að húsakostur á Húsavík sé mjög svipaður og á jarðskjálftasvæðum á Suðurlandi. Í fasteignaskrá er ekki talað sérstaklega um grunna húsa. Þeim Brynjari og Benedikt fannst vanta meiri upplýsingar um þá til að fá heildarmyndina.
„Einn strangasti byggingarstaðall í Evrópu er á brotabeltum Íslands, það er á Suðurlandsundirlendinu og á Norðurlandi þar sem stærstu jarðskjálftarnir verða. Þar eru gerðar miklar kröfur til húsbygginga og þær hafa verið að aukast í gegnum tíðina og húsin orðið sterkari,“ segir Benedikt.
Umframstyrkur í húsunum
Hann segir að reynslan sýni að húsakostur Íslendinga standi sig vel gagnvart jarðskjálftaálagi. Það hafi t.d. komið vel í ljós þegar sterkur jarðskjálfti átti upptök sín nærri Hveragerði. Bæði eldri og yngri hús stóðust álagið vel.„Svo virðist sem í íslenskum byggingum sé umframstyrkur sem kemur sér vel í jarðskjálftaálagi. Reynslan frá Suðurlandi sýnir það. Húsakosturinn fyrir norðan er mjög svipaður og fyrir sunnan,“ segir Benedikt.