Dagmál
Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Margvísleg mál munu reyna mjög á ríkisstjórnarsamstarfið á næstunni og þar eru útlendingamálin sjálfsagt efst á blaði, þó af nógu öðru sé að taka.
Þetta er mat stjórnarandstöðuþingmannanna Bergþórs Ólasonar í Miðflokki og Sigmars Guðmundssonar í Viðreisn, sem eru viðmælendur Dagmála í dag, streymis Morgunblaðsins á netinu, sem opið er öllum áskrifendum.
Þeir segja augljóst að milli Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna sé sem fyrr djúpur málefnaágreiningur í ýmsum efnum, sem þegar sé farið að bera á í samskiptum ráðherra. Þar séu útlendingamálin greinilegust, en það eigi við í fleiri málaflokkum og ráðherrar ófeimnari en áður við að láta skerast í odda.
Þar nefndu þeir meðal annars orkuskipti og orkunýtingu, þar sem stjórnarflokkarnir væru alls ekki samstiga, þó þeir létu stundum þannig. Þar væri brýnt að línur skýrðust, þó að þeir stjórnarandstæðingarnir væru raunar ekki á einu máli um þau heldur.
Þeir Bergþór og Sigmar eru ósammála um útlendingamálin. Bergþór telur brýnt að náð sé utan um þau, svo ekki streymi stjórnlaust inn fólk til landsins, fólk sem sumt sé fremur að leita betri lífskjara en hælis frá ógnum við líf þeirra, en Sigmar telur umræðuna á villigötum, meirihluti hælisleitenda sé frá Úkraínu og velkominn hér, en Ísland þarfnist vinnufúsra handa.
Öryggi landsins á viðsjárverðum tímum bar einnig á góma, en þeir félagar telja veikleika felast í óljósri afstöðu vinstri grænna í þeim efnum, sem fallist á vestrænt varnarsamstarf á borði en ekki í orði, þó raunar hafi hljóðið í þeim ögn breyst upp á síðkastið. Það þyrfti þó að vera afdráttarlausara, en það töldu þeir ólíklegt að gerðist í bráð.
Atburðir á nýliðnu Alþýðusambandsþingi bárust einnig í tal, sem þeir lýstu báðir furðu á og töldu einsýnt að veikti og tvístraði verkalýðshreyfingunni í aðdraganda einkar mikilvægra og viðkvæmra kjarasamninga. Það væri hvorki heillavænlegt fyrir launþega, atvinnurekendur né þjóðina í heild.