Hælisleit Frá mótmælum hér á landi við meðferð umsókna um vernd.
Hælisleit Frá mótmælum hér á landi við meðferð umsókna um vernd. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Hingað til lands hafa komið einstaklingar og sótt um hæli sem hafa áður sótt hér um hæli, verið synjað um hæli eða dregið umsóknir sínar til baka en ekki verið formlega vísað brott með endurkomubanni. Þetta staðfestir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. Hann kveðst ekki geta tjáð sig um einstök mál.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Hingað til lands hafa komið einstaklingar og sótt um hæli sem hafa áður sótt hér um hæli, verið synjað um hæli eða dregið umsóknir sínar til baka en ekki verið formlega vísað brott með endurkomubanni. Þetta staðfestir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. Hann kveðst ekki geta tjáð sig um einstök mál.

Tilefni fyrirspurnar Morgunblaðsins til lögreglustjórans var frásögn af umsækjanda um hæli sem var neitað um hæli hér vegna þess að hann hafði þegar fengið vernd í Grikklandi. Hann fékk frávísun og lögreglufylgd úr landi.

Nokkrum dögum síðar lenti sami maður á Keflavíkurflugvelli og sótti aftur um alþjóðlega vernd. Tekið var við umsókninni og maðurinn fór með leigubíl til Reykjavíkur þar sem umsóknarferlið hélt áfram eins og umsækjandinn væri að koma hingað í fyrsta sinn. Ástæðan var sögð sú að mönnum í hans stöðu væri vísað frá landinu en ekki vísað brott með endurkomubanni.

Lögreglan flettir upp

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum er það vinnulagt viðhaft að fletta upp umsækjendum um alþjóðlega vernd til að kanna hvort þeir hafi verið hér áður í sömu erindagjörðum. Þá staðfestir lögreglan að þess séu dæmi að einstaklingar sem hefur verið neitað um vernd hér á landi hafi komið aftur og þá með ný skilríki og undir öðru nafni til að sækja um vernd.

En væri eðlilegra að beita brottvísun með endurkomubanni í svona tilvikum fremur en frávísun? Hver tekur ákvörðun um hvaða úrræði er beitt, þ.e. brottvísun eða frávísun?

„Fólk sem sætir ofsóknum í heimalandi sínu eða á þar á hættu dauðarefsingu, pyndingar eða ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu á rétt á alþjóðlegri vernd sem flóttamenn hér á landi. Ríkisfangslausir einstaklingar eiga rétt á alþjóðlegri vernd á grundvelli ríkisfangsleysis. Útlendingastofnun er það lögbæra stjórnvald á Íslandi sem fjallar um umsóknir um alþjóðlega vernd,“ segir í svari lögreglustjórans á Suðurnesjum.