Langahlíð Nálægt þeim stað þar sem skiltið stendur vinstramegin á myndinni mun hið nýja auglýsingaskilti rísa.
Langahlíð Nálægt þeim stað þar sem skiltið stendur vinstramegin á myndinni mun hið nýja auglýsingaskilti rísa. — Morgunblaðið/sisi
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Íbúar húsa við Klambratún eru afar óhressir með þá ákvörðun borgaryfirvalda að heimila uppsetningu á auglýsingaskilti við Lönguhlíð. Alls bárust 33 athugasemdir þegar uppsetning skiltisins var grenndarkynnt. Að baki mótmælunum eru fleiri einstaklingar því nokkrar athugasemdir voru í nafni húsfélaga. Íbúarnir höfðu ekki erindi sem erfiði og skiltið fer upp.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Íbúar húsa við Klambratún eru afar óhressir með þá ákvörðun borgaryfirvalda að heimila uppsetningu á auglýsingaskilti við Lönguhlíð. Alls bárust 33 athugasemdir þegar uppsetning skiltisins var grenndarkynnt. Að baki mótmælunum eru fleiri einstaklingar því nokkrar athugasemdir voru í nafni húsfélaga. Íbúarnir höfðu ekki erindi sem erfiði og skiltið fer upp.

Málið var nýlega tekið til afgreiðslu í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur. Þar segir að sótt sé um leyfi fyrir uppsetningu auglýsingaskiltis á steyptri undirstöðu á borgarlandi vestanmegin Lönguhlíðar, sunnan við gatnamót að Bólstaðarhlíð. Í umsókninni kemur fram að auglýsingaskiltið sé 2,36 metra hátt, á steinsteyptri undirstöðu sem sé 30 cm há. Það sé með innbyggðum LED-skjá og ljósmagni sé stýrt á rafrænan máta í samræmi við ljósmagn í umhverfinu hverju sinni.

Uppsetning skiltisins var samþykkt með atkvæðum meirihlutaflokkanna, Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna voru á móti.

Fulltrúar meirihlutaflokkanna bókuðu við afgreiðslu málsins í ráðinu að rekstraraðili umræddra strætóskýla og auglýsingaskilta(Dengsi ehf.-innsk.) hefði viss réttindi samkvæmt rekstrarsamningi. Sá samningur sé hagfelldur fyrir borgina því hann tryggi hagkvæman rekstur strætóskýla sem ella þyrfti að borga mikið fyrir.

Skilti við Flókagötu var flutt

Samkomulag náðist um að færa skilti sem var við Flókagötu en þurfti að víkja vegna breytinga á innkeyrslu og fékk Dengsi ehf. vilyrði fyrir því að fá sambærilega staðsetningu á því svæði. Farið var í töluverða leit að annarri staðsetningu sem uppfyllti væntingar. Fulltrúi Vinstri grænna í ráðinu bókaði að hann teldi staðsetninguna við Lönguhlíð óheppilega og að með enn ítarlegri yfirlegu hefði verið hægt að ná ásættanlegri lausn í málinu og á öðrum stað.

Erindi var grenndarkynnt frá 9. maí til og með 7. júní sl. Sem fyrr segir bárust 33 athugasemdir frá íbúum í nágrenninu og voru þær allar neikvæðar. Sem dæmi er hér birtur hluti athugasemda frá íbúum í Lönguhlíð 13. „Að upplýstu auglýsingaskiltinu yrði veruleg sjónmengun. Verulegt verðmæti er í óskertu útsýni úr gluggum íbúða Lönguhlíðar yfir græn svæði Klambratúns. Lífsgæði íbúa yrðu skert til muna ef þeim yrði gert að horfa á auglýsingar í hvert sinn er þeim yrði litið út um glugga.“

Benda þeir á að um 100 metrar séu frá fyrirhugaðri staðsetningu í báðar áttir að næstu strætisvagnabiðskýlum þar sem séu auglýsingaskilti. Þetta væri því þriðja auglýsingaskiltið á um 200 metra kafla við austurhlið Klambratúns. Með sömu þéttingu auglýsingaskilta væri sett fordæmi um að setja mætti upp þrettán auglýsingaskilti hringinn í kringum Klambratún.

Í umsögn skipulagsfulltrúa um umsóknina segir m.a. að það sé „mat Reykjavíkurborgar að það séu hverfandi líkur á ónæði frá auglýsingaskiltinu til íbúa og annarra vegfarenda við Lönguhlíð“.