Október Grasvöllurinn í Efra-Breiðholti var frosinn og harður þegar Leiknir og ÍA mættust í mikilvægum fallslag um síðustu helgi.
Október Grasvöllurinn í Efra-Breiðholti var frosinn og harður þegar Leiknir og ÍA mættust í mikilvægum fallslag um síðustu helgi. — Ljósmynd/Kristinn Steinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Besta deildin Víðir Sigurðsson Gunnar Egill Daníelsson Jóhann Ingi Hafþórsson Mikið hefur verið rætt og ritað um nýja fyrirkomulagið á keppni í Bestu deild karla í fótbolta að undanförnu en þar hafa nú verið leiknar þrjár umferðir af fimm í...

Besta deildin

Víðir Sigurðsson

Gunnar Egill Daníelsson

Jóhann Ingi Hafþórsson

Mikið hefur verið rætt og ritað um nýja fyrirkomulagið á keppni í Bestu deild karla í fótbolta að undanförnu en þar hafa nú verið leiknar þrjár umferðir af fimm í októbermánuði. Fyrir þetta tímabil var leikjum í deildinni fjölgað úr 22 í 27 á hvert lið og leikið til loka október í stað þess að ljúka mótinu í lok september.

Tvær síðustu umferðirnar fara fram næstu tvær helgar en mesta spennan er horfin úr mótinu. Breiðablik var orðið Íslandsmeistari þegar liðið átti þrjá leiki eftir, Víkingur og KA fengu hin tvö Evrópusætin og voru með þau í höndum sér frá því keppni í efri hlutanum hófst, og allt bendir til þess að FH haldi sæti sínu í deildinni á kostnað Leiknis og ÍA. Eyjamenn gulltryggðu sæti sitt með sigri á Fram um síðustu helgi.

Gagnrýni á fyrirkomulagið hefur helst beinst að dræmri aðsókn á leikina, að þeim leikjum fjölgi sem hafa litla þýðingu fyrir endanlega niðurstöðu mótsins, og þá eru ýmsir efins um að rétt sé að spila til loka októbermánaðar þegar veður og vallarskilyrði geta sett strik í reikninginn.

Aðsókn stendur ávallt og fellur með spennustigi viðkomandi móts, sem er breytilegt frá ári til árs. Í þessari frumraun á nýja keppnisfyrirkomulaginu þróaðist deildin á óhagstæðan hátt að því leyti. Eins voru aðeins þrjú Evrópusæti í boði í ár en verða fjögur á ný á næsta tímabili. Hefðu þau verið fjögur í ár stæði nú yfir mikill slagur þriggja liða um að komast í Evrópukeppni.

Nýja keppnisfyrirkomulagið gengur þannig fyrir sig að eftir hefðbundna tvöfalda umferð, 22 leiki á lið, spila sex efstu liðin einfalda umferð innbyrðis og sömuleiðis sex neðstu liðin. Þau taka með sér öll stig og mörk úr leikjunum 22.

Þetta er nákvæmlega sama fyrirkomulag og Danir, Finnar og Austurríkismenn hafa tekið upp og leikið eftir síðustu ár. Í Danmörku og Austurríki er leikin tvöföld umferð í seinni hluta mótsins, 32 leikir á lið í stað 27 hér á landi. Finnar eru með 27 leiki eins og Besta deildin, að viðbættu umspili um Evrópusæti.

Slíkt umspil er líka til staðar í Danmörku og Austurríki. Það eykur að sjálfsögðu spennuna og fleiri lið eru með í baráttunni um að uppskera í mótslok. Þar fær liðið í sjöunda sæti, sem verður efst að lokinni keppni í neðri hlutanum, tækifæri til að komast inn í Evrópukeppni í gegnum umspilið.

Vallaraðstæður hafa sitt að segja en af tólf liðum Bestu deildarinnar í ár leika sex á grasi og sex á gervigrasi. Það hefur verið krefjandi verkefni fyrir vallarstjórana að halda grasvöllunum í góðu ástandi mánuði lengur en vanalega. Þessi hlutföll breytast á næsta tímabili þegar í það minnsta átta lið af tólf verða með gervigras á sínum heimavelli. Þegar er ljóst að tvö „graslið“ falla úr deildinni, FH, Leiknir eða ÍA, og tvö „gervigraslið“, Fylkir og HK, koma í staðinn.

Á næsta ári verður október ennfremur með öðru sniði því þá er landsleikjavika vegna undankeppni EM um miðjan mánuðinn. Þá kann KSÍ að hafa kost á að ljúka keppni áður en að henni kemur, eða í kringum 10. október í stað 29. október eins og í ár. Þá hófst deildin í ár 18. apríl, fyrr en nokkru sinni áður, en væntanlega kemur til greina að færa mótsbyrjunina fram um 7-10 daga til viðbótar.

En hvað segja leikmennirnir sjálfir? Vilja þeir spila 22 eða 27 leiki í deildinni? Vilja þeir vera komnir í frí 1. október, vilja þeir hefja tímabilið fyrr? Morgunblaðið ræddi við tólf leikmenn, einn úr hverju liði Bestu deildarinnar og spurði um þeirra reynslu af breyttu fyrirkomulagi á þessu tímabili.

Damir Muminovic

Damir Muminovic, miðvörður Breiðabliks, kvaðst ánægður með lengingu tímabilsins og fjölgun leikja.

„Það er bara gott að fá fleiri leiki, við höfum viljað það,“ sagði hann.

Damir var þá spurður hvort honum fyndist tímabilið of langt með undirbúningstímabilinu.

„Já og nei. Fyrir mér má spila þessa úrslitakeppni þannig að það er spilað á laugardögum og miðvikudögum, þétta þetta aðeins. Menn geta alveg spilað á þriggja daga fresti. Við æfum í um sex mánuði fyrir þetta mót og ættum því að vera í standi til þess að spila á þriggja daga fresti,“ sagði hann.

Damir litist vel á að byrja tímabilið fyrr og ljúka því þar með fyrr en telur það ekki raunhæft.

„Já það væri alveg góð hugmynd en ég held bara því miður að það sé ekki hægt út af veðri,“ sagði hann.

Halldór Smári Sigurðsson

„Ætli það liti ekki svolítið skoðun mína á lengingunni að mótið var eiginlega búið þegar deildinni var skipt. Svo held ég, burtséð frá því, að þetta sé ákveðið raunveruleikatékk hvað varðar stöðuna á veðrinu, hvernig lengingin fór af stað með öllum þessum frestunum. Það er orðið skítkalt,“ sagði Halldór Smári Sigurðsson varnarmaður Víkings.

„Núna seinast vorum við að spila á móti KA í hörkuleik um annað sætið en það mætti nánast enginn á völlinn. Þetta er kannski fyrst og fremst óheppilegt, að mótið skyldi í rauninni vera búið eftir venjulegt fyrirkomulag. Svo bætist ofan á það að veðrið í október hefur ekki verið nógu gott,“ bætti hann við.

„Það hefur verið kallað eftir þessu heillengi, að lengja mótið og stytta þetta langa undirbúningstímabil. Ég held að fjölgun leikja sé frábær fyrir mótið en að það verði að byrja þetta frekar aðeins fyrr.

Þá ætti þetta að vera allt í góðu. Það vilja allir spila leiki, það finnst öllum hundleiðinlegt að æfa á þessu undirbúningstímabili. Þetta er það sem menn vilja gera og ég held að fjölgun leikja sé bara af hinu góða.“

Hallgrímur Mar Steingrímsson

„Mér finnst lengingin allt í lagi en ég væri til í að spila aðeins þéttar og spila ekki svona langt inn í október. Burtséð frá allri spennu sem er í gangi núna finnst mér þetta mjög fínt og ég er hrifinn af þessu,“ sagði Hallgrímur Mar Steingrímsson, sóknarmaðurinn reyndi hjá KA.

„Ég veit að fólk er að tala um að það sé engin spenna í þessu, en ef mótið hefði verið styttra hefðu Blikarnir hvort eð er verið búnir að klára þetta og þá einhverjir leikir sem væri ekkert undir. Ég er hrifinn af fjölgun leikja, heilt yfir.

Ég held það sé hægt að spila þetta þéttar yfir sumarið. Ef ég man þetta rétt var vika á milli leikja í ágúst og september. Í júlí voru einhvern tímann tíu dagar á milli leikja. Það má spila þessa leiki á styttra tímabili. Auðvitað væri skemmtilegra ef undirbúningstímabilið væri styttra og mótið stærri hluta ársins. En ég vil spila þéttar,“ sagði Hallgrímur.

Pálmi Rafn Pálmason

„Þetta er kannski ekki besta byrjunin á tímabilinu upp á það að gera að í efri hlutanum er spennan náttúrlega engin og í neðri hlutanum er hún farin að verða lítil. Fyrir allt of mörg lið eru þessir aukaleikir, sem ég tel að séu nauðsynlegir, ekki nógu þýðingarmiklir í ár. Það er svolítið slæm byrjun að á fyrsta ári sé deildin búin frekar snemma. Aftur á móti, ef það hefði verið mjög mikil spenna bæði í efri og neðri hluta þá værum við kannski að ræða allt öðruvísi um þetta fyrirkomulag,“ sagði Pálmi Rafn Pálmason, fyrirliði KR.

„Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að fá fleiri leiki en svo er bara spurning hvað sé besta fyrirkomulagið. Hvort það sé þetta, þreföld umferð eða annað. Árið í ár var slæm byrjun á þessu nýja fyrirkomulagi af því að spennan er nánast engin.

Sérstaklega eftir að efri hlutinn byrjaði. Fólk væri kannski mun jákvæðara fyrir þessu ef þetta væri þéttur pakki og mörg lið ættu möguleika á að vinna til einhvers.“

Spurður hvort hann myndi vilja hefja tímabilið fyrr og ljúka því fyrr sagði Pálmi Rafn:

„Maður náttúrlega veit það aldrei á Íslandi. Stundum er hægt að byrja fyrr og stundum ekki. Að sama skapi er stundum hægt að vera svona seint að og stundum ekki. Það er ofboðslega erfitt að átta sig á því. Það er samt spurning hvort það sé hægt að dreifa leikjunum eitthvað betur yfir tímabilið. Það er nokkuð sem mótastjórn KSÍ þarf að skoða og eflaust eru þau búin að komast að því að það sé ekkert hægt. Við búum við þann ókost að vita aldrei hvernig veðrið er hérna þannig að það er erfitt að segja af eða á í þessu.“

Hólmar Örn Eyjólfsson

„Mér finnst hugmyndin fín. Það er náttúrlega ekki fyrirkomulaginu um að kenna að það sé engin spenna í þessu núna. Það eru aðrir þættir sem koma þar inn. Þetta gæti verið hrikalega spennandi ef það væri styttra á milli liðanna,“ sagði Hólmar Örn Eyjólfsson, miðvörður Vals.

„Það eina sem maður setur spurningarmerki við er að spila út október á Íslandi, að veðrið sé farið að hafa meira að segja í þeim leikjum sem skipta mestu máli. Að þeir leikir séu spilaðir í aðstæðum sem eru ekki ákjósanlegar, þar sem veðrið getur haft meiri áhrif en það þarf að gera, þegar það hefði verið hægt að spila þá fyrr.

Það er það eina sem ég sé að þessu. Segjum sem svo að deildin væri jafnari og einhverjir úrslitaleikir færu jafnvel fram á grasi í lok október í roki og rigningu og á frosnum velli. Ég veit ekki hvort það sé aðlaðandi.“

Hann myndi vilja að spilað yrði þéttar, sé hægt að koma því við.

„Ég hef ekki sökkt mér í hvernig opnanir eru fyrir leikdaga með tilliti til liða sem eru til dæmis í Evrópukeppni, hvort það sé hægt að þétta þetta ennþá frekar. Eins og þetta var í ár þá spiluðum við til dæmis tvo leiki í júní. Það hefði eflaust verið hægt að koma fleiri leikjum þar fyrir. Það sem ég sé líka að þessu fyrirkomulagi er að sum lið eru ekki með flóðljós á völlum sínum, eins og FH sem lenti í því að þurfa að spila klukkan 15 á mánudegi í október. Það finnst mér heldur ekki ákjósanlegt.“

Björn Berg Bryde

„Mín skoðun er sú að þetta sé svolítið þungt núna en verður vonandi betra á næsta ári. Við byrjuðum náttúrlega að æfa í byrjun nóvember í fyrra þannig að það er komið nærri því heilt ár,“ sagði Björn Berg Bryde, miðvörður Stjörnunnar.

„Þetta er ofboðslega óheppilegt og slæm auglýsing fyrir þetta fyrirkomulag hvernig þetta spilast allt saman. Núna stöndum við í efri hlutanum frammi fyrir því að þurfa að spila þrjá leiki sem skipta engu máli, sem er náttúrlega hundfúlt. Þetta myndi líta miklu betur út ef það væri einhver spenna í þessu. En það er alltaf skemmtilegra að spila alvöruleiki frekar en æfingaleiki.“

Björn telur líkur á því að næsta ár verði betra en þetta.

„Þetta hittir þannig á að út af því að við spiluðum 22 leiki í fyrra fengum við frí í október og byrjuðum að æfa í nóvember. Núna spilum við út október og þá fáum við væntanlega frí í nóvember og byrjum að æfa í desember. Í október á næsta ári líður okkur þá ekki eins og okkur líður núna því það er svo svakalega langur tími síðan við byrjuðum.

Kannski byrjum við eldri leikmennirnir svo ekki af neinum krafti fyrr en í janúar, þá er þetta styttra tímabil þar sem við erum virkir. Það er óheppilegt hvernig þetta hefur spilast því eins og þetta er í dag er þetta misheppnað.“

Sindri Snær Magnússon

„Lengingin á tímabilinu hefur verið nokkuð óheppileg, það hefur verið lítil spenna. Við í Keflavík vorum búnir að tryggja sætið okkar eftir eina umferð í neðri hlutanum. En ég sé fram á að þetta geti orðið skemmtilegt,“ sagði Sindri Snær Magnússon miðjumaður Keflavíkur.

„Fyrir ári síðan hefði verið spenna fram í lokaleik því þá var fimm liða barátta í neðri hlutanum þar sem munaði tveimur stigum á 11. sæti og upp í 6. sæti. Þetta hefur líklega aldrei verið jafnóspennandi þegar fimm leikir voru eftir. Þetta hefur verið spennandi fyrir fjögur lið. Ég er klárlega hlynntur fjölgun leikja, það er gaman að spila fleiri leiki. Ég veit ekki hvort fólk átti sig á því að við þurftum að breyta æfingatímum okkar svolítið mikið. Menn eru í vinnu og skóla og birtan er búin upp úr 17.30. Æfingatímunum hefur því verið flýtt um rúman klukkutíma. Svo er ekki hægt að spila á virkum dögum því þá sjáum við leiki eins og í síðustu og þar síðustu viku þar sem voru leikir klukkan 15 á virkum dögum vegna birtu.

„Ég er alveg hlynntur aukaleikjum en ég hefði einhvern tímann á tímabilinu viljað spila aðeins þéttar. Það gæti þá orðið aðeins minna bil á milli leikja í 2-3 vikur en þá myndum við klára um miðjan október eins og liðin í bikarúrslitunum gerðu á síðasta tímabili. Það hefði verið mjög fínt.

Ef það hefði verið hægt að troða þremur leikjum annars staðar hefði þetta verið betra. Að byrja á sama tíma en enda tveimur vikum fyrr, það væri svona draumurinn ef núverandi fyrirkomulag myndi haldast. Það gæti verið smá púsl en það er klárlega hægt.“

Guðjón Orri Sigurjónsson

„Fyrir mitt leyti finnst mér lengingin ein og sér allt í lagi en mér finnst hún vera komin allt of langt inn í árið. Mér finnst við klára mótið allt of seint. Það endurspeglast í slæmu veðri og færri áhorfendum. Eins og staðan er núna er að litlu að keppa á bæði toppi og botni deildarinnar þannig að þetta hefur kannski ekki heppnast eins og menn bundu vonir við,“ sagði Guðjón Orri, markvörður ÍBV.

Hann kvaðst hrifnari af gamla fyrirkomulaginu, þar sem 22 leikir eru spilaðir í stað 27 eins og í ár.

„Fjölgun leikja er af hinu góða en þó er ég hrifnari af þessu 22 leikja kerfi, bara þessu gamla góða. Ég get alveg verið hreinskilinn með það. Á móti kemur, ef við ætlum að spila fleiri leiki, þá verðum við að spila þá miklu þéttar. En ef við ætlum ekki að spila þéttar þá er þetta 22 leikja mót miklu skemmtilegra fyrirkomulag fyrir mitt leyti.“

Hlynur Atli Magnússon

„Ég fagna öllum breytingum. Nú er bara verið að gera tilraunir. Þetta er fyrsta tímabilið þar sem er verið að keyra þetta í gegn. Mér finnst menn hvað harðastir í gagnrýni á þetta þegar þeirra lið er ekki að spila upp á Evrópusæti eða fall,“ sagði Hlynur Atli Magnússon, fyrirliði Fram.

„Auðvitað þekkist þetta fyrirkomulag í Danmörku og annars staðar en mér finnst þessar raddir vera helvíti háværar. Við sjáum að FH-ingar voru guðslifandi fegnir að fá lengingu á þetta mót og Skagamenn líka, að fá líflínu. Ekkert heyrist frá þeim um að fyrirkomulagið sé eitthvað bjagað.

Margir stuðningsmenn Fram veltu því fyrir sér af hverju það væri verið að spila þessa leiki. Fyrirkomulagið er fínt í sjálfu sér. Þetta var keppni fyrir okkur, um að vera í efri eða neðri hluta, og við vorum þarna á mörkunum. Það var alveg keppni fram að 22. umferð en eins og þetta spilaðist var kannski fulllangt niður í neðstu lið og því kannski að litlu að keppa og menn gagnrýna fyrirkomulagið út frá því.

Það sem ég hef kannski mest út á þetta að setja er að það mætti byrja þetta mót fyrr og spila það þéttar vegna þess að við erum að tala um októbermánuð. Þá er ískalt og það er ekki flóðlýsing á öllum völlunum. Grasið er jafnvel farið að frjósa. Við þurfum ekki að fara svona langt inn í haustið.

Ég er almennt hlynntur því að prófa eitthvað nýtt og krydda að einhverju leyti. Ég ætla ekki að segja að þetta sé óheppilegt hvernig þetta spilaðist, svona spilaðist þetta bara og Breiðablik stakk af, en ég er alveg hrifinn af þessu. Það þarf alltaf að brenna sig á hinu og þessu til þess að geta lært af. Vonandi geta menn rýnt í það en ég er ekki svartsýnn á þetta.

Mér finnst við hins vegar vera að lengja í rangan enda. Við ættum að ljúka mótinu í lok september, spila þéttar og jafnvel byrja mótið fyrr. Hvað fyrirkomulagið varðar hugsa ég að það væri hægt að raða gervigrasliðunum fyrst, það eru líka fleiri gervigraslið á næsta ári þannig að mögulega gæti það verið til happs,“ sagði hann.

Björn Daníel Sverrisson

„Í sjálfu sér hefur þetta verið fínt fyrir okkur FH-inga ef við lítum til stöðunnar eftir 22 leiki og hvernig hún er núna. Persónulega finnst mér frekar langsótt að spila fótbolta á Íslandi þegar veðurfarið er svona. Flestir sem ég hef talað við eru líka á því máli. Þetta fer eftir því hvernig vellirnir verða,“ sagði Björn Daníel Sverrisson, miðjumaður FH.

„Við spilum á grasi eins og nokkur önnur lið og fyrir Keflavíkurleikinn var hálfur völlurinn okkar frosinn. Það er það slæma í þessu og svo veit maður aldrei hvernig veðrið verður í október miðað við aðra mánuði á tímabilinu,“ sagði hann.

Björn Daníel er ánægður með fjölgun leikja.

„Já, það er ekkert að því að spila fleiri leiki. Ég held að allir sem eru í þessu vilji helst spila sem flesta leiki. 22 leikir yfir heilt tímabil finnst mér nú enginn fjöldi hjá þeim liðum sem fara ekki langt í bikarnum eða spila í Evrópukeppni. Fjöldinn er í sjálfu sér mjög góður.

Að mínu mati hefði kannski mátt spila fleiri leiki á styttra tímabili. Þá væri styttra á milli leikja. Eins og þetta er núna eru ekki öll lið með flóðljós og geta því ekki spilað á ákveðnum tímum. Ef það er hægt að koma leikjum fyrir á betri tímum væri það gott. Við hefðum eflaust getað spilað einhverja leiki í landsleikjahléum til dæmis.

Ég held að flestir í efstu deild myndu helst vilja spila á fimm daga fresti ef þeir mættu ráða. Það er örugglega ekki skemmtilegt starf að þurfa að raða öllum þessum leikjum niður en þetta snýst um að geta fundið leið til þess að spila alla þessa leiki á þeim tíma sem veðrið er bærilegt og vellirnir fínir.“

Brynjar Hlöðversson

„Mér finnst þessi lenging skrítin, aðallega því maður hefur aldrei gert þetta áður,“ sagði Brynjar Hlöðversson, miðvörður hjá Leikni úr Reykjavík.

„Mér finnst þetta ágætistilraun og ég er á því að það hafi þurft að breyta einhverju frá fyrirkomulaginu eins og það hefur verið undanfarin ár. Ég fagna því að það sé verið að gera eitthvað, en hvort þetta sé rétta leiðin er ég ekki alveg viss um,“ bætti hann við.

„Mér finnst eins og öll liðin þyrftu að vera á gervigrasi til að þetta fyrirkomulag gengi upp. Ef við ætlum að spila langt fram á vetur á Íslandi ráða grasvellir ekki við þetta. Til að mynda í síðasta leik var völlurinn frosinn og menn voru ekki vissir hvort þeir ættu að vera í venjulegum skóm eða járntökkum. Fyrir menn í eldri kantinum er það ekki sérstaklega gott fyrir hnén og svona. Ég verð spenntur að sjá ástandið á Hásteinsvelli í lokaumferðinni.“

Eins og margir aðrir vill Brynjar að leikið verði þéttar. „Það má leika þéttar með jafnmörgum leikjum. Það má fjölga leikjum mótsins, en ég er ekki alveg sannfærður um að þetta sé besta leiðin,“ sagði Brynjar.

Aron Bjarki Jósepsson

„Mér finnst geggjað að við séum að bæta við leikjum og leita að leiðum til þess að bæta deildina okkar. Það er lykillinn að þessu, að það sé stefnt að því að gera betur. En mögulega getum við gert það á annan hátt,“ sagði Aron Bjarki Jósepsson miðvörður ÍA.

„Kannski tekur þróunin smá tíma. Eins og það að hafa verið að spila á grasi, eins og við erum búnir að gera, í þessum leikjum sem skipta öllu máli, á frosnum og ónýtum völlum. Það er ekkert mjög heillandi.

Það jákvæða við þetta er þó að við erum að fjölga leikjum. Við erum að búa til leiki sem ættu að geta orðið mjög jafnir og spennandi leikir, sem við fáum ótrúlega mikið út úr og ætti að vera mjög skemmtilegt.

Í neðri hlutanum var til dæmis leikur okkar gegn Leikni ótrúlega heillandi leikur að fara inn í en eins og leikurinn spilaðist, við aðstæðurnar sem hann var spilaður við, í roki og völlurinn gaddfreðinn, þetta var eins og að spila á parketi. Það er ekki knattspyrnunni til framdráttar.

Leikurinn fer bara út í einhverja vitleysu. Verður bara gamla góða duga eða drepast viðhorfið, berjast og slást. Þetta verður bara þannig í stað þess að við fáum alvöru skemmtilegan fótboltaleik, sem verður öllum til góðs,“ sagði hann.

Aron var ekki viss um að hægt væri að hefja tímabilið fyrr.

„Þetta er mjög erfitt hérna á Íslandi. Apríl er tæpur líka og grasvellirnir kannski ekki tilbúnir þá heldur, við getum ekkert stólað á það. Ef við ætlum að gera það verðum við líklega að vera með eintóma gervigrasvelli. Kannski er hægt að þétta mótið á einhverjum tímapunktum um mitt tímabilið. Það er náttúrlega erfitt fyrir liðin í Evrópukeppnum en það er bara erfitt að spila á þessum völlum í október og apríl,“ sagði hann.